30.3.2018 11:34

Ísland, Hobbitar, Krúnuleikar og Geirfinnsmálið

Leggja ber meiri rækt við að kynna menningararfinn á skipulegri og stórbrotnari hátt en gert hefur verið .

Á Arte-sjónvarpsstöðinni (frönsk/þýsk stöð) var nýlega sýnd mynd um ferðalag Hobbit-áhugamanna til Íslands. Þá er einnig unnt að slá inn á Google leitarorðið Hobbit houses og þá birtast myndir af gömlum, íslenskum torfbæjum. Vafalaust koma einhverjir ferðamenn hingað til lands í þeim tilgangi einum að feta í fótspor þeirra sem J. R. R. Tolkien segir frá í ævintýrasögum sínum og öðlast hafa vinsældir um heim allan, ekki síst eftir að þær voru kvikmyndaðar.

Árið 2011 tilkynnti íslenska ríkisstjórnin að hún kynni að sækja eftir að íslenskir torfbæir yrðu skráðir á heimsminjaskrá UNESCO og fá þannig sess með Þingvöllum og Surtsey hér á landi. Í tilkynningunni var nefnd svonefnd raðtilnefning 14 torfhúsa. Tæknin sem notuð er við byggingu torfbæjanna er talin einstök á heimsvísu og er hún aðalrökstuðningurinn fyrir umsókninni. Að baki umsóknum af þessu tagi til UNESCO liggja miklar rannsóknir sem sýna að um einstæðar heimsminjar sé að ræða. Hörð keppni er háð um að komast á listann.

Hér skal ekkert fullyrt um hvar þessi fyrirhugaða umsókn er á vegi stödd en verkefnið er verðugt og vonandi er því fylgt eftir af fullum þunga. Skráning torfbæjanna hefur ekki aðeins byggingarsögulegt gildi heldur einnig menningarlegt fyrir utan að höfða til samtímans sé litið á þá sem Hobbit houses!

Images_1522409239874EYM9780141000039

Laugardaginn 24. mars var málþing á vegum Snorrastofu í Reykholti í Borgarfirði um þýðingar á eddukvæðum á norsku, sænsku og ensku, sjá hér . Meðal þýðendanna var prófessor Carolyne Larrington í Oxford sem birti árið 2014 endurskoðaða útgáfu á eldri þýðingu sinni á ensku sem kom fyrst út árið 1996. Hún sendi árið 2017 frá sér bókina: The Norse Myths: A Guide to the Gods and Heroes. Útgefandi er Thames & Hudson, heimsþekkt forlag sem bað hana um að skrifa þessa bók um norræna goðafræði fyrir almenning og leiða hann um heiminn sem Snorri lýsir í eddukvæðunum. Bókin blasir við þeim sem koma inn í Eymundsson í Austurstræti og er þar við hlið The Sagas of Icelanders, 782 bls. safn Íslendingasagna sem Penguin gaf út á sínum tíma. Þessi enska útgáfa á sögunum selst jafnt og þétt ár eftir ár.

Carolyne Larrington sendi árið 2015 frá sér bókina Winter is Coming: The Medieval World of Game of Thrones. Hún hefur með öðrum orðum tekið sér fyrir  hendur að skýra Game of Thrones í ljósi norrænu goðafræðinnar og framlags Snorra til heimsmenningarinnar. Carolyne Larrington flytur 17. maí fyrirlestur á vegum Miðaldastofu í Háskóla Íslands undir fyrirsögninni: ‘We're fighting the north and it's not going anywhere' Old Norse Myth and Culture, and Game of Thrones.

Allt leiðir þetta enn einu sinni til þeirrar niðurstöðu að til að nútíma íslenskt samfélag gefi rétta mynd af rótum sínum og menningarlegum grundvelli beri að leggja meiri rækt en til þessa við að kynna menningararfinn á skipulegri og stórbrotnari hátt en gert hefur verið. Þetta er spennandi verkefni með innlenda og alþjóðlega skírskotun.

51+Kw7a+AnL

Til samtímans: Í nýjasta hefti breska vikuritsins The Spectator er umsögn eftir Nick Hilton um nýja bók: Out of Thin Air: A True Story Of Impossible Murder In Iceland eftir Anthony Adeane. Þar er sögð saga Guðmundar- og Geirfinnsmálsins á ensku en höfundurinn, breskur blaðamaður, kom hingað til lands og gerði heimildarmynd fyrir BBC um óleysta sakamálið. Gagnrýnandinn segir að Adeane láti ekki við það eitt sitja að lýsa lögreglurannsókn málsins heldur líti hann einnig á félagslega sögu Íslands „one of the weirdest places on earth“ – einum furðulegasta stað á jörðinni – að sögn Hiltons. Hann segir einnig að frásögnin beri þess stundum merki að ætlun höfundarins sé að skemmta ferðamönnum. Undarlegast sé að íslenska þjóðin og lögreglan hafi fallið fyrir þeirri sérkennilegu samsæriskenningu sem bjó að baki málaferlunum. Í umsögninni er þess getið að með því að nefna bók sína Out of Thin Air virðist höfundurinn skírskota til bókar eftir Jon Krakauer Into Thin Air sem sé meðal bestu ferðabóka samtímans. Undir lok umsagnarinnar er minnt á vaxandi vinsældir Íslands sem ferðamannalands og sagt að bókin lýsi á sannfærandi hátt hvernig mannlíf hafi þrátt fyrir allt blómgast á „stórskornum kletti í kaldranalegu Atlantshafinu“.

Það fer vel á að ljúka þessari stuttu samantekt með því að minna á að um fjórðungur ferðamanna sem hingað kemur segist gera það vegna menningararfs þjóðarinnar.