24.3.2018

Snorrastofa – málþing um þýðingar eddukvæða

 

Góðir gestir,

fyrir hönd Snorrastofu býð ég ykkur velkomin til þessa málþings.

Í fyrra lauk Knut Ødegård skáld við að þýða eddukvæðin á norsku með útgáfu í fjórum bindum hjá Cappelen Damm í Noregi. Útgáfan er tvímála og er þýðing Knuts prentuð ásamt íslenska frumtextanum. Þetta stórvirki varð kveikjan að því að Snorrastofa ákvað að stofna til þessa málþings.

Um leið og við óskum Knut og Norðmönnum til hamingju með þessa nýju þýðingu fögnum því einnig sérstaklega að hér eru prófessor Lars Lönnroth í Gautaborg sem sendi frá sér nýja þýðingu allra eddukvæða á sænsku árið 2016 og prófessor Carolyne Larrington í Oxford sem birti árið 2014 endurskoðaða útgáfu á eldri þýðingu sinni á ensku sem kom fyrst út árið 1996.

Er einstakt ánægjuefni að þýðendurnir þrír sáu sér fært að þiggja boð Snorrastofu um að taka þátt í málþinginu í dag. Býð ég þau hjartanlega velkomin og einnig Jon Gunnar Jørgensen, prófessor í málvísindum við háskólann í Osló, sem ræðir við Knut um þýðingu hans og Terry Gunnell, prófessor í þjóðfræði við Háskóla Íslands, sem les úr ensku þýðingunni.

File1-1Þátttakendur í málþinginu frá vinstri: Jon Gunnar Jørgensen, Gerður Kristný, Knut Ødegård,

Carolyne Larrington, Lars Lönnroth og Vésteinn Ólason, stjórnandi málþingsins.

Á hugvísindaþingi fyrir tveimur vikum flutti Gauti Kristmannsson, prófessor í þýðingafræðum, fyrirlestur um óþýðanleikann. Lýsti hann átökum innan háskólasamfélagsins um „eignarhald“ á heimsbókmenntunum á milli bókmenntafræðinga og þýðingafræðinga. Þar kemur „óþýðanleikinn“ við sögu því að bókmenntafræðingar segja að ekki sé unnt að skilja og skynja bókmenntir án þess að lesa þær á frummálinu. Ég tek undir með Gauta að án þýðinga lokast bókmenntir inni í afkimum lítilla málsvæða eins og okkur Íslendingum ætti að vera betur ljóst en flestum öðrum.

File-6[1]Hamrahlíðarkórinn söng undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur.

Fyrir fræða- og rannsóknastofnun eins og Snorrastofu sem vill leggja sitt af mörkum til að auka þekkingu á framlaginu til heimsmenningarinnar sem kennt er við Snorra Sturluson yrði það reiðarslag ef kenningin um óþýðanleikann sigraði í baráttunni innan háskólasamfélagsins. Þá værum við að minnsta kosti ekki hér í dag að fagna þýðingum á eddukvæðunum á norsku, sænsku og ensku.

Ég vil þakka Vésteini Ólasyni, fyrrverandi prófessor, fyrir mikilsvert framlag hans til málþingsins, bæði við undirbúning þess og með því að miðla okkur af þekkingu sinni um hvernig eddukvæðin bárust til umheimsins og Reykholt varð þar með heimsþekkt vegna Snorra.

Við sem hlýddum á Eddu II – Líf guðanna eftir Jón Leifs í Eldborg í gærkvöldi vorum enn einu sinni minnt á hve verk Snorra eru kveikja að stórbotnum nýjum listaverkum.

Árið 2010 kom út ljóðabálkurinn Blóðhófnir eftir Gerði Kristnýju. Þar verða Skírnismál henni efni skáldlegrar túlkunar með skírskotun til samtímans. Hún ætlar að lýsa þeirri glímu sinni og þökkum við Gerði það.

Síðast en ekki síst þakka ég Hamrahlíðarkórnum og Þorgerði Ingólfsdóttur, stjórnanda hans, fyrir að leggja leið sína hingað í Reykholt í tilefni málþingsins og gefa því nýja vídd með söng sínum.

Til að flutningur kórsins njóti sín sem best fékk Snorrastofa afnot af Reykholtskirkju vegna málþingsins. Séra Geir og heimafólki öllu þökkum við vinsemd og gestrisni fyrr og síðar.

Ég segi málþingið „Þó hon enn lifir“ – um nýjar þýðingar eldfornra og síungra eddukvæða sett.