19.11.2024 10:49

Inngrip dómara gagnvart alþingi

Þrískipting valdsins vekur spurningar um hvort dómarar hafi heimild til að ákveða hvernig þingmenn fari með vald sitt innan þings þótt óumdeilt sé að dómarar geti úrskurðað hvort efni laga brjóti í bága við stjórnarskrá.

Hér birtist 22. maí 2024 umsögn um bók dr. Hauks Arnþórssonar stjórnsýslufræðings, Mín eigin lög – Framkvæmd stjórnarskrárákvæða um meðferð lagafrumvarpa á Alþingi og í danska þinginu. Haukur segir bókina einkum fjalla um „þær gæðakröfur sem stjórnarskrárákvæðið um þrjár meðferðir frumvarpa gerir til lagagerðar“ annars vegar á alþingi og hins vegar á danska þinginu (Folketinget).

Alþingismenn hafa miklu meira svigrúm til að breyta stjórnarfrumvörpum eða til að flytja mál en dönsku þingmennirnir. Hér er einnig mun meira samráð en í Danmörku við almenning og hagaðila bæði áður en frumvörp eru lögð fram á þingi og í meðförum þar. Í Danmörku sendir þingnefnd til dæmis ekki frumvörp til umsagnar eða fær gesti á fund til að ræða þau heldur er skriflegum fyrirspurnum beint til ríkisstjórnarinnar eða dönsku ráðuneytanna sé talin þörf á skýringum vegna frumvarps sem unnið er að í þingnefnd.

Haukur er hrifnari af danska fyrirkomulaginu en því íslenska. Hann segir að samráð alþingis við almenning „ógni gæðum lagasetningar“ hversu jákvætt sem það sé að öðru leyti. Rök hans eru að gott samráð af hálfu ráðuneyta tryggi að betur unnin frumvörp komi inn í þingið „til eftirlits, staðfestingar og prófunar“ og þar með aukist „lagagæði“. Samráð og umsagnir til þingnefnda auki hættu á lélegri lagasmíð.

Nú í mars 2024 fullyrti Haukur að samþykkt alþingis á búvörulögum hefði verið ólögleg þar sem lagafrumvarpið hefði tekið of miklum breytingum í meðförum þingnefndar. Í stjórnarskránni segði að ekkert lagafrumvarp mætti samþykkja án þess að hafa fengið þrjár umræður á alþingi. Búvörufrumvarpið hefði breyst svo mikið að það hefði orðið að öðru máli en var rætt við fyrstu umræðu. Í lok greinar í Morgunblaðinu 25. mars 2024 sagði hann „spennandi“ ef fulltrúar íslensks almennings létu reyna á þetta – búvörulagabreytingin virtist „kjörið prófmál“ fyrir dómstólum.

Screenshot-2024-11-19-at-10.48.57

Hauki varð að þessari ósk sinni. Fyrirtækið Innnes stefndi samkeppniseftirlitinu með kröfu um inngrip eftirlitsins í háttsemi framleiðendafélaga kjötafurða. Eftirlitið sagðist ekki hafa heimild til inngrips eftir breytingu á búvörulögunum. Niðurstaða héraðsdómarans er að frumvarpinu um nýjar samkeppnisreglur í búvörulögunum hafi verið breytt svo mikið í meðförum þingsins að það hafi ekki farið í gegnum þrjár umræður á þingi eins og krafist sé í 44. gr. stjórnarskrárinnar.

Tekur dómarinn sér fyrir hendur að vega og meta meðferð málsins í atvinnuveganefnd þingsins og tækifæri sem hagaðilum utan þings vpru gefin til að gera athugasemdir. Telur hann setningu laganna brjóta gegn stjórnarskránni.

Þrískipting valdsins vekur spurningar um hvort dómarar hafi heimild til að ákveða hvernig þingmenn fari með vald sitt innan þings þótt óumdeilt sé að dómarar geti úrskurðað hvort efni laga brjóti í bága við stjórnarskrá.

Óhjákvæmilegt er að hæstiréttur fjalli um þetta mál að lokum. Samkeppniseftirlitið hafði ekki heimild til inngrips í þágu Innnes. Nú er spurning hvort héraðsdómarinn hafði heimild til þess inngrips í störf löggjafans sem felst í dómi hans. Þetta er merkilegt lögfræðilegt úrlausnarefni þar sem ekki er unnt að leggja að jöfnu meðferð danska þingsins og alþingis á málum. Aðrar hefðir og venjur hafa myndast hér en í Danmörku. Alþingismenn eru til dæmis í miklu meiri tengslum við umsagnaraðila en dönsku þingmennirnir.