14.4.2021 9:20

Heilbrigðiskerfi í fjötrum

Nú sveiflast heilbrigðispendúllinn af allt of miklum þunga inn í stjórnarráðið hér án þess að fyrir því séu önnur rök en svipuð þeim sem birtust um aldamótin 1900.

Í bókinni Spænska veikin eftir Gunnar Þór Bjarnason ( sjá umsögn mína um hana hér ). Spyr höfundur lesandann hvort honum þyki ekki undarlegt að hvorki bæjarstjórn Reykjavíkur né landstjórnin stæðu að rekstri almenns sjúkrahúss í höfuðstað landsins árið 1918. Þá var ekki til neinn landspítali á Íslandi en talin voru nítján sjúkrahús í landinu öllu „reyndar flest frumstæð og rísa vart undir því að kallast sjúkrahús, svo lítil að þar er einungis rými fyrir örfáa sjúklinga“, segir Gunnar Þór.

Í Reykjavík voru tvö almenn sjúkrahús, Landakotsspítali og Franski spítalinn við Lindargötu. Þau voru bæði reist og rekin af útlendingum.

St. Jósefssystur í Landakoti buðust um aldamótin 1900 til að reisa og reka fullkomið sjúkrahús í Reykjavík. Alþingi tók því tilboði fegins hendi en vildi þó hvorki veita kaþólikkum styrk eða lán til verkefnisins. Spítalinn var reistur 1902 fyrir söfnunarfé frá Evrópu. Spítalinn var aðalspítali landsins þar til Landspítalinn á Hringbraut var reistur um 1930.

U00-fig2Landakotsspítali er fyrir miðju á myndinni.

Frakkar reistu þrjú sjúkrahús hér á landi á fyrstu árum 20. aldar, í Reykjavík, Vestmannaeyjum og á Fáskrúðsfirði.

Holdsveikraspítalinn í Laugarnesi var gjöf til íslensku þjóðarinnar frá Oddfellowreglunni í Danmörku, hann hóf starfsemi 1898 „í stærstu og glæsilegustu byggingu landsins,“ segir Gunnar Þór og einnig: „Sjúkrahúsrekstur á Akureyri mátti rekja til þess að danskur kaupmaður gaf íbúðarhús sitt til þeirrar starfsemi.“

Á árinu 1918 beittu konur sér fyrir því að „landspítalamálið“ kæmist á dagskrá. Þær fengu kosningarétt 1915 og settu byggingu landspítala á oddinn sem baráttumál. Þar var Ingibjörg H. Bjarnason fremst í fylkingu en nokkrum áður síðar var hún fyrst kvenna kjörin á alþingi eins og minnst er með höggmynd af henni við Alþingishúsið.

Þessa sögu um erlent einkaframtak við uppbyggingu og rekstur sjúkrahúsa hér er vert að rifja upp til að minna á að atbeina stjórnarráðsins eða starfsemi undir forsjá og í umboði þess þarf ekki til að sinna heilsu landsmanna.

Nú sveiflast heilbrigðispendúllinn af allt of miklum þunga inn í stjórnarráðið hér án þess að fyrir því séu önnur rök en svipuð þeim sem birtust um aldamótin 1900 þegar þingmenn vildu ekki veita kaþólikkum á Íslandi opinberan styrk eða lán til að reisa Landakotsspítala – St. Jósefsspítala.

Af hugsjónaástæðum ráðherra heilbrigðismála og samstarfsmanna hennar er staðið gegn samstarfi við einkaaðila í heilbrigðismálum af ótta við sjálftöku þeirra úr ríkissjóði. Hjólað er í lækninn en sjúklingurinn látinn róa.

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lýsir ástandinu á þann veg í Morgunblaðinu í dag (14. apríl) að hægt og bítandi sé heilbrigðisþjónustan hneppt „í fjötra fábreytileika og aukinna útgjalda“. Við drögumst aftur öðrum og hættum að laða til landsins vel menntað og hæfileikaríkt heilbrigðisstarfsfólk eftir langt sérnám.