10.4.2021

Ljóslifandi farsóttarsaga

Spænska veikin *****, Morgunblaðið, laugardagur, 10. apríl 2021

Umsögn um Spænsku veikina eft­ir Gunn­ar Þór Bjarna­son. Mál og menn­ing, 2021. Kilja, 2. útg., 315 bls., ljós­mynd­ir, heim­ilda- og nafna­skrá.

Um páska­helg­ina var rætt við Gunn­ar Þór Bjarna­son sagn­fræðing í út­varpsþætti um „lífs­form“, nýtt skref í líf­inu, för út „úr kass­an­um“. Gunn­ar Þór kvaddi kenn­arastarf til margra ára og tók þá áhættu að helga sig sagn­fræðirit­un. Hon­um hef­ur vegnað vel.

Auk bók­ar­inn­ar sem hér er til umræðu má nefna fjór­ar eldri bæk­ur Gunn­ars Þórs: Óvænt áfall eða fyr­ir­sjá­an­leg tíma­mót?: Brott­för Banda­ríkja­hers frá Íslandi: aðdrag­andi og viðbrögð , útg. 2008. Upp með fán­ann!: Bar­átt­an um upp­kastið 1908 og sjálf­stæðis­bar­átta Íslend­inga , útg. 2012. Þegar siðmenn­ing­in fór fjand­ans til: Íslend­ing­ar og stríðið mikla 1914-1918 , útg. 2015 og 2016. Hinir út­völdu: Sag­an af því þegar Ísland varð sjálf­stætt ríki árið 1918 , útg. 2018.

Gunn­ar Þór hlaut ís­lensku bók­mennta­verðlaun­in 2015 fyr­ir bók­ina um Íslend­inga og fyrri heims­styrj­öld­ina.

Spænska veik­in geisaði hér af mest­um þunga í nokkr­ar vik­ur frá lok­um októ­ber 1918 til des­em­ber 1918. Gunn­ar Þór fer því að nýju á vit upp­hafs­ára síðustu ald­ar þegar hann bregður ljósi á drama­tísk­asta at­b­urð þeirra. Hann seg­ir Íslend­inga oft nefna spænsku veik­ina í sömu andrá og frosta­vet­ur­inn mikla 1917-1918, Kötlugosið sem hófst 12. októ­ber 1918 og stóð í 24 daga og full­veldið 1. des­em­ber 1918. Af þeim sök­um varðveit­ist minn­ing­in um veik­ina senni­lega bet­ur hér en í mörg­um öðrum lönd­um. Síðan seg­ir:

„Samt hef­ur furðulítið verið fjallað um spænsku veik­ina, líkt og þjóðin veigri sér við að rifja upp þessa sáru reynslu. Hvers vegna hafa sagn­fræðing­ar lengi forðast hana eins og heit­an eld­inn? Er áhuga­leysi á heil­brigðis­sögu um að kenna? Í besta og ít­ar­leg­asta yf­ir­lits­riti um sögu Íslands á 20. öld er sagt frá spænsku veik­inni í sex lín­um og 67 orðum.“ (s. 268)

Þarna vís­ar Gunn­ar Þór til bók­ar Helga Skúla Kjart­ans­son­ar: Ísland á 20. öld, útg. 2003. Og hann velt­ir fyr­ir sér í fram­hald­inu hvers vegna svipuð þögn ríki um veik­ina í öðrum lönd­um sem að vísu megi af­saka þar vegna bylt­ing­ar í Rússlandi og fyrri heims­styrj­ald­ar­inn­ar sem skyggi á allt annað. Hann seg­ir að í dönsku sögu­riti frá 2018 sé það tal­in megin­á­stæðan fyr­ir að spænska veik­in gleymd­ist næst­um al­veg í Dan­mörku að „áhrifa­mikl­ir sam­fé­lags­hóp­ar hafi hrein­lega ekki kært sig um að minn­ast henn­ar – stjórn­mála­menn, lækn­ar, vís­inda­menn. Danska heil­brigðis­kerfið hafi verið illa búið und­ir far­ald­ur­inn, lækn­ar úrræðalaus­ir og ráðamenn tví­stíg­andi í aðgerðum.“ Danski bók­ar­höf­und­ur­inn segi að raun­veru­leg­ar hetj­ur í bar­átt­unni við in­flú­ens­una í Dan­mörku hafi verið „hjúkr­un­ar­kon­ur, sjálf­boðaliðar og hjálp­sam­ir ná­grann­ar“. Radd­ir þeirra heyr­ist ekki við mót­un sögu­skoðana seinni kyn­slóða og þess vegna gleym­ist spænska veik­in.

„Ef þessi álykt­un er á rök­um reist, mætti þá ef til vill heim­færa hana upp á fleiri lönd en Dan­mörku?“ spyr Gunn­ar Þór. (s. 268)

Bók hans sjálfs veit­ir besta svarið. Hann sæk­ir ekki efnið til yfir- og áhrifa­valda við mót­un sögu­skoðunar held­ur til radd­anna sem heyr­ast ekki fyrr en skýrt er frá innri mál­um fjöl­skyldna eða rætt við ein­stak­linga og þeir láta orð falla um dýr­mæta lífs­reynslu sína. Þetta er ekki fólk sem fer á stræti og torg til að slá um sig til að sýna og sanna eigið ágæti og því sjálfu er oft mjög sárs­auka­fullt að rifja upp þessa at­b­urði. Lík­lega hef­ur áfall­a­streiturösk­un ekki verið skil­greind sem sjúk­dóm­ur á þess­um tíma og því síður aðferðir til að tak­ast á við hana.

GSB16E9O5Vitnað er í lækna­nem­ann Pál V.G. Kolka sem var send­ur á Suður­nes um miðjan nóv­em­ber 1918 þegar héraðslækn­ir­inn veikt­ist. Eft­ir lok fjög­urra vikna þjón­ust­unn­ar var Páll ekki sam­ur maður. Hann sagði síðar:

„Eng­an mánuð ævi minn­ar vildi ég síður hafa farið á mis við að lifa en þenn­an tíma þegar spænska veik­in var í al­gleym­ingi. Hún varð mér ung­um, til­finn­inga­næm­um og óhörnuðum, sú eld­raun sem hef­ur sjálfsagt verið mér nauðsyn­leg. Það verður eng­inn óbar­inn bisk­up. Þessi mánuður í fiskiþorp­un­um á Suður­nesj­um var lær­dóms­rík­ur og meira þrosk­andi en nokk­ur sem ég hef setið á skóla­bekk.“ (s.168)

Þetta seg­ir lækn­ir þegar hann lít­ur til baka í ljósi þekk­ing­ar sinn­ar og reynslu. Eng­inn vafi er um áhrif drep­sótt­ar­inn­ar á alla sem sem komust í snert­ingu við hana eða kynnt­ust hörm­ung­um henn­ar að eig­in raun. Að hverfa á vit minn­ing­anna um óm lík­hring­inga kann hins veg­ar að ýfa sár sem flest­ir kjósa að hvíli ósnert.

Sem bet­ur fór tókst fyr­ir til­stilli heima­manna víða utan Reykja­vík­ur að hindra út­breiðslu veirunn­ar um landið allt. Þar er hlut Gísla Sveins­son­ar, sýslu­manns í Skafta­fells­sýslu, gerð verðug og góð skil í bók­inni. Í þing­ræðum fór hann síðar ómild­um orðum um af­stöðu heil­brigðis­yf­ir­valda.

Stíll Gunn­ars Þórs Bjarna­son­ar er lip­ur og hon­um er vel lagið að rekja þræði til ým­issa átta til að bregða upp ljós­lif­andi mynd í huga les­and­ans. Suma ein­stak­linga teng­ir hann í sam­tím­ann með því að nefna þjóðkunna af­kom­end­ur þeirra eða annað. Aðrir birt­ast kunn­ug­um ljós­lif­andi í nokkr­um lín­um eins og Mey­vant Sig­urðsson sem var 24 ára falið að aka lækn­um í sjúkra­vitj­an­ir.:

„Það voru mikl­ar hörm­ung­ar,“ seg­ir Mey­vant og er sann­færður um að það sem bjargaði þeim hafi verið heitt vatn á hita­brúsa með áfengi út í. Á því dreypa lækn­ir­inn og bíl­stjór­inn á kvöld- og næt­ur­ferðum sín­um um bæ­inn.“ (s. 108)

Þrjár bylgj­ur spænsku veik­inn­ar gengu yfir Ísland. At­hygli Gunn­ars Þórs bein­ist einkum að ann­arri bylgj­unni sem skall á og hellt­ist yfir á skömm­um tíma. Hann nær hraða bylgj­unn­ar í frá­sögn sinni án þess þó að fara of hratt yfir og láta hjá líða að líta til margra hvers­dags­legra þátta sem dýpka lýs­ing­arn­ar og færa les­and­ann inn í heim þess sem á um sárt að binda.

„Hvað ef hjúkr­un­ar­fólk í spænsku veik­inni hefði haldið dag­bæk­ur og trúað þeim fyr­ir hug­renn­ing­um sín­um? Eða sest niður þegar ósköp­un­um linnti og fest reynslu sína á blað? Hefði það góða fólk bara vitað hvað slíkt hefði glatt sagn­fræðing 100 árum síðar!“ (s. 156)

Til­vilj­un réð að bók Gunn­ars Þórs birt­ist okk­ur á tíma mesta heims­far­ald­urs síðan 1918. Vand­inn er sami og árið 1918 en tæk­in til að tak­ast á við hann önn­ur. Skrá­setn­ing minn­inga skipt­ir eins miklu og áður. Ytri lík­indi eru einnig fyr­ir hendi. Gunn­ar Þór get­ur þess að gott veður hafi verið í Reykja­vík haustið 1918 og í vetr­ar­byrj­un sem auðveldaði að sinna sjúk­um. Vet­ur­inn sem nú er að líða var ein­stak­lega mein­lít­ill á þétt­býl­asta svæði lands­ins. Þá minnti Katla á sig í 24 daga í októ­ber og nóv­em­ber 1918, nú gýs á Reykja­nesi. Loks reynd­ist ekki al­veg auðvelt að taka stökkið út úr hættu­ástand­inu fyrri hluta árs 1919. Þrátt fyr­ir bólu­setn­ingu eru lykt­ir Covid-19-far­ald­urs­ins í þoku­kenndri framtíð.