Geðþótti inn í stjórnarráðið
Meginbreytingin var að alþingi ákvæði ekki fjölda ráðuneyta með lögum heldur tæki forsætisráðherra ákvörðunina með forsetaúrskurði.
Í grein í Morgunblaðinu í gær (4. desember) vék ég að því að flækjustig innan stjórnarráðsins hefði magnast með núverandi ríkisstjórn þar sem forsætisráðherra hefði nýtt sér ákvæði stjórnarráðslaganna sem samþykkt voru árið 2011 undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur. Er þannig komist að orði í greininni að lítil andstaða hafi verið við málið á þingi. Þetta var skoðun mín þá og er enn þann dag í dag. Á hinn bóginn er ástæðulaust að halda að til dæmis sjálfstæðismenn hafi ekki snúist gegn breytingunni.
Sigurður Kári Kristjánsson og Birgir Ármannsson lögðust gegn stjórnarráðsfrumvarpi Jóhönnu árið 2011 (mynd: mbls.is).
Sjálfstæðisflokkurinn átti þá tvo menn í allsherjarnefnd þingsins Sigurð Kára Kristjánsson og Birgi Ármannsson sem nú er forseti alþingi. Þeir birtu minnihlutaálit við afgreiðslu málsins úr nefndinni þar sem þeir færa sterk rök fyrir andstöðu sinni. Forsætisráðherra beri fyrir sig skýrslu rannsóknarnefndar alþingis en miklu nær sé að líta til skýrslunnar Samhent stjórnsýsla sem unnin var að ósk Jóhönnu og birtist í desember 2010.
Meginbreytingin var að alþingi ákvæði ekki fjölda ráðuneyta með lögum heldur tæki forsætisráðherra ákvörðunina með forsetaúrskurði. Bentu þeir Sigurður Kári og Birgir réttilega á að með þessu móti yrði valdið fært frá alþingi til ríkisstjórnar og fyrst og fremst til forsætisráðherra, sem bæri stjórnskipulega ábyrgð á embættisathöfnum forseta í þessum efnum. Þessi breyting ætti ekki stoð í niðurstöðum rannsóknarnefndar alþingis heldur í tillögum starfshóps forsætisráðherra.
Voru fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eindregið andvígir þessari meginbreytingu og töldu „afleiðingarnar geta verið miklar og birst með margvíslegu móti“ eins og nú sannast með miklum vandræðum innan stjórnarráðsins. Valdatilflutningurinn væri í miklu ósamræmi við þau viðhorf að efla bæri löggjafarvaldið og draga að sama skapi úr áhrifum framkvæmdarvaldsins og ríkisstjórnarinnar.
Þá benda þingmennirnir á að breytingin auki „hættuna á lausung og jafnvel geðþóttaákvörðunum í sambandi við skipan ráðuneyta“. Ákveðin festa sé nauðsynleg í sambandi við æðstu stofnanir framkvæmdarvaldsins. Slík festa skipti máli fyrir alla sem eigi hagsmuna að gæta, einstaklinga og hagsmunahópa sem samskipti eigi við ráðuneytin, starfsmenn þeirra eða opinberar stofnanir sem undir þau heyra.
Öll þessi viðvörunarorð áttu við rök að styðjast eins og að er vikið í fyrrnefndri grein minni í Morgunblaðinu.
Vigdís Hauksdóttir, núv. borgarfulltrúi, sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn og skipaði 2. minnihluta gegn stjórnarráðslögum Jóhönnu og sagði meðal annars í áliti sínu:
„Eins má benda á þá staðreynd að við fall Glitnis haustið 2008 var farið alvarlega á svig við gildandi stjórnsýslu þegar sitjandi viðskiptaráðherra var haldið utan við ákvarðanatöku þvert á verkaskiptingu innan ríkisstjórnar. Umrætt verklag er gagnrýnt í fjölda álitsgerða sem fram hafa komið um fall bankanna, þar á meðal í skýrslu rannsóknarnefndar alþingis. Í stað þess að bregðast við því sem þá átti sér stað með skýrari verklagsreglum er það sem þá gerðist innan ríkisstjórnarinnar gert löglegt verði þetta frumvarp að lögum.“
Þarna er vikið að því að
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir,
utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, vildi ekki að
flokksbróðir hennar
Björgvin Sigurðsson viðskiptaráðherra ætti hlut að því sem Vigdís
nefnir. Með frumvarpi sínu lagði Jóhanna blessun sína yfir þessi
ámælisverðu vinnubrögð.