Flækjustig stjórnarráðsins magnast
Morgunblaðið, laugardagur 4. desember 2021
Neyðarlögin sem alþingi samþykkti og tóku gildi 6. október 2008 voru stjórnvaldsaðgerðin sem dugði Íslendingum best gegn afleiðingum hruns bankanna nokkrum dögum áður. Í doktorsritgerð við mikils metinn háskóla í Berlín segir að tvær aðrar stjórnvaldsaðgerðir fyrir áramót 2008/09 hafi verið í samræmi við bestu stjórnarhætti, það er skipan rannsóknarnefndar alþingis og lögfesting embættis sérstaks saksóknara.
Ríkisráðsfundur sunnudaginn 28. nóvember 2021 þegar annað ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur var skipað.
Allt voru þetta pólitískar ákvarðanir sem nutu á ögurstund víðtæks stuðnings á alþingi. Þegar litið er til þess sem síðan gerðist blasir við að þarna voru stigin gæfuspor. Sama verður ekki sagt um allt sem stjórnvöld gerðu. Meðal mistaka má nefna ákvarðanirnar um að sækja um aðild að Evrópusambandinu (ESB), um að kollvarpa stjórnarskránni og fara í landsdómsmálið gegn Geir H. Haarde. Allt var þetta misráðið.
Því var og er enn haldið víða fram að hrunið megi rekja til íslenska stjórnarráðsins. Innan þess hefðu menn ekki séð að bankarnir væru að sligast. Sama má þá segja um stjórnkerfi margra annarra landa. Vissulega er ekki öllum gefið að sjá fyrir óorðna hluti. Að taka réttar ákvarðanir á hættustund er ekki heldur öllum gefið. Við óvænt áföll skiptir þó mestu að rétt sé við brugðist. Gripið sé til skynsamlegra ráðstafana til að draga úr skaða og hefja endurreisn. Þetta var gert hér strax haustið 2008.
Eftir 1. febrúar 2009 hófst framkvæmd stefnu vinstri stjórnar sem vildi að þrennt hefði forgang þjóðinni til bjargar: aðild að ESB, samþykkt nýrrar stjórnarskrár og uppstokkun á stjórnarráðinu.
Stjórnarráðslögin sem giltu frá 1970 til 2011 mæltu fyrir um skýrar boðleiðir: hverju ráðuneyti stýrði ráðuneytisstjóri í umboði ráðherra sem gæti stýrt fleiri en einu ráðuneyti. Þetta skipulag á stjórnarráðinu stuðlaði ekkert að hruni bankanna en reyndist vel þegar tekið var á afleiðingum þess. Innan stjórnarráðsins og á alþingi voru teknar farsælar ákvarðanir á ögurstund.
Í vinstri stjórninni 2009 til 2013 var þannig lagt út af skýrslu rannsóknarnefndar alþingis að það yrði að kollvarpa lögunum um stjórnarráðið frá 1970 og setja ný – ef þyrfti yfirleitt nokkur lög um stjórnarráðið. Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra þótti mikið liggja við í þessu efni og knúði á um skjóta niðurstöðu við litla andstöðu á þingi. Þetta hjartans mál hennar hlaut brautargengi árið 2011. Breytingin átti meðal annars að tryggja fækkun ráðherra.
Nú 10 árum síðar myndar Katrín Jakobsdóttir (VG) 12 manna ríkisstjórn. Ráðherrafjöldinn er þar með orðinn sá sami og hann varð mestur samkvæmt gömlu lögunum. Markmið Jóhönnulaganna um fáa ráðherra með stór ráðuneyti er orðið að engu.
Í stefnuræðu sinni 1. desember 2021 boðaði Katrín Jakobsdóttir að hún hefði „hug á að hefja endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands“ í samvinnu við alla þingflokka. Dagar Jóhönnulaganna um stjórnarráðið eru taldir eftir óvissuna sem við blasir þegar við skiptingu starfa ráðherra var leitast við að endurskipuleggja ráðuneyti eftir pólitískum áherslum og auka hreyfanleika í opinberri stjórnsýslu.
„Eins og staðan er núna vitum við eiginlega bara ekki neitt,“ sagði Þórveig Þormóðsdóttir, formaður Félags starfsmanna stjórnarráðsins, við Morgunblaðið 2. desember og Friðrik Jónsson, formaður Bandalags háskólamanna, sendi forsætisráðherra bréf og spurði hvað væri eiginlega á seyði.
Næsta skref er tillaga forsætisráðherra til þingsályktunar um breytingu á ráðuneytum og skiptingu verkefna milli þeirra. Þegar alþingi hefur samþykkt hana getur ráðherrann svarað hvernig framkvæmdin verður.
Stjórnarmyndunardaginn, 28. nóvember, rituðu forseti Íslands og forsætisráðherra undir tvo forsetaúrskurði, (1) um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta og (2) um skiptingu starfa ráðherra. Þessa tvo úrskurði verður að lesa saman til að átta sig á málaflokkum sem falla undir einstaka ráðherra.
Störfum ráðherra er nú lýst með töluliðum sem vísa til úrskurðarins um skiptingu stjórnarmálefna. Í byrjun vikunnar birtist leiðari í Fréttablaðinu sem sýndi að ritstjórinn áttaði sig ekki á nýrri verkaskiptingu í útlendingamálum innan stjórnarráðsins, útlistun hans varð marklaus.
Áður gátu ráðherrar farið með fleiri en eitt ráðuneyti sem hvert og eitt laut forystu ráðuneytisstjóra. Nú geta margir ráðherrar farið með pólitíska stjórn málefna í ráðuneyti undir stjórn eins ráðuneytisstjóra.
Þrjú dæmi skulu tekin um nýmæli: Jón Gunnarsson fer með málefni dómsmálaráðuneytisins en ber embættisheitið innanríkisráðherra. Sigurður Ingi Jóhannsson fer með málefni samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis en ber embættisheitið innviðaráðherra. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ber embættisheitið vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og fer með málefni sem heyra undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
Vissulega má kenna þessa nýskipan við hreyfanleika. Hann má hins vegar ekki verða á kostnað gagnsæis og skilvirkni. Hreyfanleikinn verður að tryggja að borgurunum séu auðvelduð samskipti við stjórnarráðið og þeir viti að erindi hreyfist eftir móttöku. Flækjufótur í stjórnarráðinu þar sem embættismenn vita „eiginlega bara ekki neitt“ samræmist ekki góðu stjórnarháttunum sem einkenndu viðbrögðin haustið 2008. Við útgöngu úr faraldrinum verður gangverk stjórnarráðsins að virka