4.12.2021

Flækjustig stjórnarráðsins magnast

Morgunblaðið, laugardagur 4. desember 2021

Neyðarlög­in sem alþingi samþykkti og tóku gildi 6. októ­ber 2008 voru stjórn­valdsaðgerðin sem dugði Íslend­ing­um best gegn af­leiðing­um hruns bank­anna nokkr­um dög­um áður. Í doktors­rit­gerð við mik­ils met­inn há­skóla í Berlín seg­ir að tvær aðrar stjórn­valdsaðgerðir fyr­ir ára­mót 2008/​09 hafi verið í sam­ræmi við bestu stjórn­ar­hætti, það er skip­an rann­sókn­ar­nefnd­ar alþing­is og lög­fest­ing embætt­is sér­staks sak­sókn­ara.

9627c557a2b20a2cafb800e10ac998c0Ríkisráðsfundur sunnudaginn 28. nóvember 2021 þegar annað ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur var skipað.

Allt voru þetta póli­tísk­ar ákv­arðanir sem nutu á ög­ur­stund víðtæks stuðnings á alþingi. Þegar litið er til þess sem síðan gerðist blas­ir við að þarna voru stig­in gæfu­spor. Sama verður ekki sagt um allt sem stjórn­völd gerðu. Meðal mistaka má nefna ákv­arðan­irn­ar um að sækja um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu (ESB), um að koll­varpa stjórn­ar­skránni og fara í lands­dóms­málið gegn Geir H. Haar­de. Allt var þetta mis­ráðið.

Því var og er enn haldið víða fram að hrunið megi rekja til ís­lenska stjórn­ar­ráðsins. Inn­an þess hefðu menn ekki séð að bank­arn­ir væru að slig­ast. Sama má þá segja um stjórn­kerfi margra annarra landa. Vissu­lega er ekki öll­um gefið að sjá fyr­ir óorðna hluti. Að taka rétt­ar ákv­arðanir á hættu­stund er ekki held­ur öll­um gefið. Við óvænt áföll skipt­ir þó mestu að rétt sé við brugðist. Gripið sé til skyn­sam­legra ráðstaf­ana til að draga úr skaða og hefja end­ur­reisn. Þetta var gert hér strax haustið 2008.

Eft­ir 1. fe­brú­ar 2009 hófst fram­kvæmd stefnu vinstri stjórn­ar sem vildi að þrennt hefði for­gang þjóðinni til bjarg­ar: aðild að ESB, samþykkt nýrr­ar stjórn­ar­skrár og upp­stokk­un á stjórn­ar­ráðinu.

Stjórn­ar­ráðslög­in sem giltu frá 1970 til 2011 mæltu fyr­ir um skýr­ar boðleiðir: hverju ráðuneyti stýrði ráðuneyt­is­stjóri í umboði ráðherra sem gæti stýrt fleiri en einu ráðuneyti. Þetta skipu­lag á stjórn­ar­ráðinu stuðlaði ekk­ert að hruni bank­anna en reynd­ist vel þegar tekið var á af­leiðing­um þess. Inn­an stjórn­ar­ráðsins og á alþingi voru tekn­ar far­sæl­ar ákv­arðanir á ög­ur­stund.

Í vinstri stjórn­inni 2009 til 2013 var þannig lagt út af skýrslu rann­sókn­ar­nefnd­ar alþing­is að það yrði að koll­varpa lög­un­um um stjórn­ar­ráðið frá 1970 og setja ný – ef þyrfti yf­ir­leitt nokk­ur lög um stjórn­ar­ráðið. Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur for­sæt­is­ráðherra þótti mikið liggja við í þessu efni og knúði á um skjóta niður­stöðu við litla and­stöðu á þingi. Þetta hjart­ans mál henn­ar hlaut braut­ar­gengi árið 2011. Breyt­ing­in átti meðal ann­ars að tryggja fækk­un ráðherra.

Nú 10 árum síðar mynd­ar Katrín Jak­obs­dótt­ir (VG) 12 manna rík­is­stjórn. Ráðherra­fjöld­inn er þar með orðinn sá sami og hann varð mest­ur sam­kvæmt gömlu lög­un­um. Mark­mið Jó­hönnu­lag­anna um fáa ráðherra með stór ráðuneyti er orðið að engu.

Í stefnuræðu sinni 1. des­em­ber 2021 boðaði Katrín Jak­obs­dótt­ir að hún hefði „hug á að hefja end­ur­skoðun laga um Stjórn­ar­ráð Íslands“ í sam­vinnu við alla þing­flokka. Dag­ar Jó­hönnu­lag­anna um stjórn­ar­ráðið eru tald­ir eft­ir óviss­una sem við blas­ir þegar við skipt­ingu starfa ráðherra var leit­ast við að end­ur­skipu­leggja ráðuneyti eft­ir póli­tísk­um áhersl­um og auka hreyf­an­leika í op­in­berri stjórn­sýslu.

„Eins og staðan er núna vit­um við eig­in­lega bara ekki neitt,“ sagði Þór­veig Þormóðsdótt­ir, formaður Fé­lags starfs­manna stjórn­ar­ráðsins, við Morg­un­blaðið 2. des­em­ber og Friðrik Jóns­son, formaður Banda­lags há­skóla­manna, sendi for­sæt­is­ráðherra bréf og spurði hvað væri eig­in­lega á seyði.

Næsta skref er til­laga for­sæt­is­ráðherra til þings­álykt­un­ar um breyt­ingu á ráðuneyt­um og skipt­ingu verk­efna milli þeirra. Þegar alþingi hef­ur samþykkt hana get­ur ráðherr­ann svarað hvernig fram­kvæmd­in verður.

Stjórn­ar­mynd­un­ar­dag­inn, 28. nóv­em­ber, rituðu for­seti Íslands og for­sæt­is­ráðherra und­ir tvo for­seta­úrsk­urði, (1) um skipt­ingu stjórn­ar­mál­efna milli ráðuneyta og (2) um skipt­ingu starfa ráðherra. Þessa tvo úr­sk­urði verður að lesa sam­an til að átta sig á mála­flokk­um sem falla und­ir ein­staka ráðherra.

Störf­um ráðherra er nú lýst með töluliðum sem vísa til úr­sk­urðar­ins um skipt­ingu stjórn­ar­mál­efna. Í byrj­un vik­unn­ar birt­ist leiðari í Frétta­blaðinu sem sýndi að rit­stjór­inn áttaði sig ekki á nýrri verka­skipt­ingu í út­lend­inga­mál­um inn­an stjórn­ar­ráðsins, út­list­un hans varð mark­laus.

Áður gátu ráðherr­ar farið með fleiri en eitt ráðuneyti sem hvert og eitt laut for­ystu ráðuneyt­is­stjóra. Nú geta marg­ir ráðherr­ar farið með póli­tíska stjórn mál­efna í ráðuneyti und­ir stjórn eins ráðuneyt­is­stjóra.

Þrjú dæmi skulu tek­in um ný­mæli: Jón Gunn­ars­son fer með mál­efni dóms­málaráðuneyt­is­ins en ber embætt­is­heitið inn­an­rík­is­ráðherra. Sig­urður Ingi Jó­hanns­son fer með mál­efni sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðuneyt­is en ber embætt­is­heitið innviðaráðherra. Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir ber embætt­is­heitið vís­inda-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra og fer með mál­efni sem heyra und­ir at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyti, mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyti og sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðuneyti.

Vissu­lega má kenna þessa ný­skip­an við hreyf­an­leika. Hann má hins veg­ar ekki verða á kostnað gagn­sæ­is og skil­virkni. Hreyf­an­leik­inn verður að tryggja að borg­ur­un­um séu auðvelduð sam­skipti við stjórn­ar­ráðið og þeir viti að er­indi hreyf­ist eft­ir mót­töku. Flækju­fót­ur í stjórn­ar­ráðinu þar sem emb­ætt­is­menn vita „eig­in­lega bara ekki neitt“ sam­ræm­ist ekki góðu stjórn­ar­hátt­un­um sem ein­kenndu viðbrögðin haustið 2008. Við út­göngu úr far­aldr­in­um verður gang­verk stjórn­ar­ráðsins að virka