Furðuspil vegna Piu
Snerist þetta ekki um framkomu fólks sem hefur boðið sig fram og hlotið kjör til setu á alþingi væri ástæðulaust að fjalla um þetta furðuspil allt saman.
Í gær (27. júlí) birtist grein eftir mig í Morgunblaðinu þar sem ég fjallaði um mótmælin gegn þátttöku Piu Kjærsgaard, forseta danska þingsins, í hátíðafundi alþingis. Greinina má lesa hér.
Óhjákvæmilegt er að líta á þetta mál í samhengi við umræður erlendis. Hvað eftir annað berast fréttir um að hópar krefjist þess að funda- og fyrirlestrasölum sé lokað fyrir einstaklingum sem þeir eru ósammála.
Mynd mbl.is sýnir Piu Kjærsgaard í ræðustól á Þingvallafundi alþingis.
Forvitnilegt hefur verið að fylgjast með viðbrögðum pírata við gagnrýni á framgöngu þeirra. Nú síðast hafa þeir hrópað upp yfir sig af hneyklsan vegna þess að í fyrrnefndri grein minni hafi ég nefnt þau bæði til sögunnar Dalai Lama og Piu Kjærsgaard. Í því felist að ég leggi þau að jöfnu. Þetta er skilningsleysi eða misskilningur. Ég legg að jöfnu framtak kínversku námsmannanna við Kaliforníuháskóla sem vildu banna Dalai Lama að tala þar og íslensku þingmannanna sem vildu banna Piu Kjærsgaard að tala á alþingi.
Þarna eru á ferð hópar sem hafa ekki umburðarlyndi gagnvart skoðunum þess sem á í hlut og vilja þess vegna banna honum að tala á opinberum vettvangi.
Tilætlunarsemin er ótakmörkuð eins og þegar Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sem hvarf úr stóli sínum þegar Kjærsgaard talaði, krefst þess af Steingrími J. Sigfússyni, forseta alþingis, að hann tali ekki um hlut hennar á þann hátt sem hann gerði!
Snerist þetta ekki um framkomu fólks sem hefur boðið sig fram og hlotið kjör til setu á alþingi væri ástæðulaust að fjalla um þetta furðuspil allt saman. Einn þáttur þess er að Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, telur að ég ætli að segja honum hvaða stefnu Samfylkingin eigi að hafa í útlendingamálum.
Pia Kjærsgaard brást við framgöngu Helgu Völu með því að minna hana á að systurflokkur Samfylkingarinnar í Danmörku fylgdi harðri stefnu í útlendingamálum. Ég minni á þá staðreynd í grein minni. Viðbrögð formanns Samfylkingarinnar eru þessi á FB föstudaginn 27. júlí:
„Pólitískar ráðleggingar Björns Bjarnasonar eru hér með afþakkaðar.
Sumt gerir flokkur einfaldlega ekki þó það gæti hugsanlega snapað einhver atkvæði!“
Stefna Samfylkingarinnar í útlendingamálum er hennar mál (hver er hún?). Hitt er fréttaefni víða um Evrópu að jafnaðarmannaflokkar þar líta nú til útlendingastefnu danska flokksins í von um að með henni myndist fyrirstaða gegn fylgistapi.