7.3.2021 10:35

Frá Ríó í Árbæjarsafn

Orðavalið sýnir að boðskapurinn er ofar því sem almennt setur svip á stjórnmálaumræður. Hann er í anda þess að flytja gömlu húsin í Árbæ aftur á sinn stað.

Hér á síðunni má sjá grein sem ég birti föstudaginn 5. mars í Morgunblaðinu um kolefnisbindingu í moldu. Þess verður minnst á næsta ári að 30 ár eru liðin frá Ríó-ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, 1992, þar sem lagður var grunnur að margvíslegum aðgerðum til að draga úr mengun af mannavöldum. Síðan hafa verið samþykktir alþjóðasamningar á ýmsum sviðum til að ná Ríó-markmiðunum og staldra ég við loftslagssamningana sem kenndir eru við Kyoto og París. Íslenska ríkið gekkst undir skuldbindingar með báðum samningum og nú hefur Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) verið falið eftirlit með því að íslenska þjóðin fullnægi Parísar-skuldbindingunum.

Í grein minni lít ég einkum til þess hvernig virkja má bændur og aðra sem landið yrkja í þessu skyni. Við höfum fjölmörg tækifæri til þess enda ráðum við yfir miklu landi og vatni. Ég tel að nálgast eigi viðfangsefnið á jákvæðan hátt, án boða og banna, nýta eigi hvert tækifæri sem náttúran gefur og styrkja menn til góðra verka í stað þess að leggja á þá hömlur.

2015-05-17_15.22.13Úr Árbæjarsafni (mynd Borgarsögusafn).

Þetta viðhorf stangast á við kröfu þeirra sem vilja nota alþjóðasamningana til að breyta lífsháttum og steypa alla í það mót sem þeir ákvarða. Þetta viðhorf birtist meðal annars í grein sem Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG og formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkurborgar, birti í Morgunblaðinu föstudaginn 5. mars. Þar segir hún að undir sinni stjórn og félaga sinna ætli Reykjavík „ekki að verða eftirbátur annarra stórborga (!)“. Telur hún gríðarlega fjölgun hjólreiðafólks til marks um það og fólk gangi oftar til og frá vinnu, taki oftar strætó og þeim fækki hlutfallslega sem nota einvörðungu einkabílinn til að komast allra sinna ferða. Er þetta svo? Hlutfallslega hefur notkun á strætó til dæmis ekkert breyst áratugum saman. Hvernig mælir Líf þessa breytingu?

Hún hefur tileinkað sér þá stefnu að ekki beri að fjölga akreinum, með því aukist vandinn. Spyrja má hvort hún sé á móti lagningu Sundabrautar. Þá vill hún endurheimta „mikið almannarými í borgarlandinu sem hefur farið undir bílastæði sem standa mestmegnis auð hálfan sólarhringinn“. Hún segir að það sé loftslagsmál að fækka bílastæðum í borginni um 2%, það er um rúmlega 600 stæði á ári af rúmlega 30.000 stæðum. Það á með öðrum orðum að ganga á bílastæði um alla borgina. Merki um þessa aðför að stæðum sést til dæmis við Efstaleiti, við hlið Útvarpshússins, og á Hlíðarenda. Þá verður æ verra að leggja bíl í miðborginni. Líf segir að ánægja borgarbúa aukist í réttu hlutfalli við fækkun bílastæða og bætir við:

„Fækkun bílastæða í borginni er því ekki knúin áfram af hatri á einkabílnum heldur er hún knúin áfram af ást til ferðafrelsisins, náttúrunnar og hagsmuna allra borgarbúa og er því ekki á kostnað annarra.“

Orðavalið sýnir að boðskapurinn er ofar því sem almennt setur svip á stjórnmálaumræður. Hann er í anda þess að flytja gömlu húsin í Árbæ aftur á sinn stað í miðborginni og fækka þar með bílastæðum, menn geti lagt í Ráðhúskjallaranum í staðinn segja talsmenn þess. Menn leggja utan við hliðið á Árbæjarsafni og ganga á milli gömlu húsanna. Líklega hefur enginn séð það fyrir í Ríó 1992 að ákvarðanir þar breyttu miðborg Reykjavíkur í Árbæjarsafn.