5.3.2021

Kolefnisbinding í mold

Fram­kvæmd alþjóðasamn­inga um lofts­lags­mál set­ur sí­fellt meiri svip á sam­skipti þjóða. Hvað sem líður áliti á spálíkön­um um hlýn­un jarðar eru samn­ing­arn­ir blá­köld staðreynd. Við þjóðrétt­ar­skuld­bind­ing­ar ber að standa.

Kyoto-bók­un­in er bók­un við ramma­samn­ing Sam­einuðu þjóðanna (SÞ) um lofts­lags­breyt­ing­ar, Ríó-samn­ing­inn frá ár­inu 1992. Bók­un­in var samþykkt í japönsku borg­inni Kyoto í lok árs 1997. Ramma­samn­ingi SÞ er ætlað að koma í veg fyr­ir hættu­lega rösk­un á lofts­lags­kerf­inu af manna­völd­um, tryggja mat­væla­fram­leiðslu í heim­in­um og að efna­hagsþróun sé sjálf­bær.

Ísland full­gilti Kyoto-bók­un­ina 23. maí 2002. Í bók­un­ina var sett sér­stakt ákvæði fyr­ir lít­il hag­kerfi sem kallað er ís­lenska ákvæðið. Þar er brugðist við vanda smáþjóða, ein­stök verk­efni geta haft mik­il hlut­falls­leg áhrif á heild­ar­los­un þeirra á efn­um sem valda gróður­húsa­áhrif­um. Kyoto-bók­un­in gilti til 2020 og er sérá­kvæðið nú úr sög­unni.

Climate-change-definition-meaning

 

Í skjól ESB


Á fyrsta skuld­bind­ing­ar­tíma­bili Kyoto-bók­un­ar­inn­ar (2008-2012) fékk Ísland rýmri heim­ild­ir en önn­ur þróuð ríki, auk tíma­bund­inn­ar og skil­yrtr­ar und­anþágu fyr­ir nýja stóriðju enda nýtti hún end­ur­nýj­an­lega orku.

Þegar leið að öðru skuld­bind­ing­ar­tíma­bili (2013-2020) var ljóst að los­un frá stóriðju myndi falla und­ir viðskipta­kerfi ESB og að frek­ari und­anþága fyr­ir stóriðju inn­an Kyoto-bók­un­ar­inn­ar yrði tor­sótt.

Árið 2005 kom Evr­ópu­sam­bandið á fót viðskipta­kerfi með los­un­ar­heim­ild­ir gróður­húsaloft­teg­unda í tengsl­um við mót­vægisaðgerðir ESB sam­kvæmt Kyoto-bók­un­inni. Viðskipta­kerfið, ETS (e. Em­issi­on Tra­ding System), er helsta stjórn­tæki sam­bands­ins til að ná fram sam­drætti í los­un gróður­húsaloft­teg­unda.

Samið var við ESB um að Ísland færi und­ir sam­eig­in­legt mark­mið með ríkj­um ESB á tíma­bil­inu 2013 til 2020. Það leysti vanda Íslands varðandi stóriðju, þar sem stóriðjan var þá ekki inn­an beinna skuld­bind­inga Íslands gagn­vart Kyoto-bók­un­inni og engra sérá­kvæða reynd­ist þörf.

Ísland fékk út­hlutað heim­ild­um um los­un sem var utan viðskipta­kerf­is­ins, þ.e. frá sam­göng­um, sjáv­ar­út­vegi, land­búnaði, minni iðnaði og meðferð úr­gangs. Skuld­bind­ing­ar þar voru einkum reiknaðar út frá þjóðarfram­leiðslu á mann. Þar er Ísland með háa kröfu, en á móti kom að Ísland samdi um að mega nýta ávinn­ing af skóg­rækt og land­græðslu á móti los­un, sem er heim­ilt í Kyoto-bók­un­inni en ríki ESB máttu ekki nýta sér sam­kvæmt innri regl­um sam­bands­ins.

 

Und­ir ESA-eft­ir­lit

Par­ís­ar­sam­komu­lagið frá 12. des­em­ber 2015 tók við af Kyoto-bók­un­inni sem gilti til 2020. Mark­mið sam­komu­lags­ins er að stöðva aukn­ingu í út­blæstri gróður­húsaloft­teg­unda á heimsvísu og ná að halda hnatt­rænni hlýn­un inn­an við 2°C.

Ísland hélt áfram sam­floti við ESB eft­ir niður­stöðuna í Par­ís og sömdu Íslend­ing­ar og Norðmenn við ESB um fyr­ir­komu­lag sam­starfs­ins árið 2019. Var þessi skip­an þátt­töku í alþjóðasam­starfi um lofts­lags­mál lög­fest hér árið 2020 með breyt­ing­um á lofts­lagslög­um frá 2012.

Um þetta allt gild­ir of­ur­flókið reglu­verk en þó er ein­falt að átta sig á því að þjóðrétt­ar­lega hafa ís­lensk stjórn­völd skuld­bundið sig til að starfa inn­an þess og lög hafa verið sett sem staðfesta að EES-sam­starfið víkkaði út fyr­ir EES-samn­ing­inn með ákvörðunum alþing­is og lög­fest­ingu í lofts­lags­mál­um. Eft­ir­lits­stofn­un EFTA, ESA, fylg­ist nú með fram­kvæmd ís­lenskra stjórn­valda og Íslend­inga á þess­um skuld­bind­ing­um.

Í stuttu máli má segja að hér hafi orðið hljóðlát bylt­ing á rétt­ar­stöðu þjóðar­inn­ar frá því að fyrstu skref­in voru stig­in með Kyoto-bók­un­inni árið 1997. Hafa ekki orðið nein­ar sam­bæri­leg­ar stjórn­mála­deil­ur um alþjóðlega hlið þess­ara mála og jafn­an verða þegar tekn­ar eru ákv­arðanir um þjóðrétt­ar­leg mál­efni sem hafa bein áhrif á efna­hags- og at­vinnu­starf­semi lands­manna.

Nú und­ir lok fe­brú­ar 2021 sendu stjórn­völd upp­færð mark­mið ís­lenska rík­is­ins í lofts­lags­mál­um til skrif­stofu lofts­lags­samn­ings Sam­einuðu þjóðanna. Mark­miðin eru sam­eig­in­leg með Evr­ópu­sam­band­inu og Nor­egi. Þau fela í sér sam­drátt í los­un, um 55% eða meira til árs­ins 2030, miðað við árið 1990. Hlut­ur Íslands í mark­miðinu er 29% sam­drátt­ur í los­un til árs­ins 2030 miðað við árið 2005, varðandi los­un utan viðskipta­kerf­is ESB.

 

Virkja verður mold­ina

Mönn­um er gjarnt að líta til sam­drátt­ar í stóriðju og sam­göng­um þegar hugað er að leiðum til að minnka út­blást­ur. Það skýrist þó sí­fellt bet­ur að ekki tekst að ná markverðum ár­angri til mót­væg­is við gróður­húsa­áhrif­in án þess að virkja mold­ina, það er auka kol­efn­is­bind­ingu með land­notk­un. Rík­is­stjórn­in ákvað í des­em­ber 2020 að efla aðgerðir á sviði land­notk­un­ar til að auðvelda Íslend­ing­um að ná settu marki um kol­efn­is­hlut­leysi fyr­ir 2040.

Í júlí 2019 gaf um­hverf­is- og auðlindaráðuneytið út áætl­un um bætta land­nýt­ingu í þágu lofts­lags­mála. Þar voru kynnt­ar fimm aðgerðir sem eiga að stuðla að auk­inni kol­efn­is­bind­ingu og bættri land­notk­un í þágu lofts­lags­mála:

(1) Efl­ing ný­skóg­rækt­ar til kol­efn­is­bind­ing­ar; (2) efl­ing land­græðslu til kol­efn­is­bind­ing­ar; (3) hert­ar tak­mark­an­ir á fram­ræslu vot­lend­is og bætt eft­ir­lit; (4) átak í end­ur­heimt vot­lend­is og (5) sam­starf við sauðfjár­bænd­ur um minni los­un gróður­húsaloft­teg­unda og aukna bind­ingu kol­efn­is við bú­skap og land­notk­un.

Þess­um aðgerðum er meðal ann­ars fylgt fram af sam­tök­um og áhuga­manna­hóp­um og má í því sam­bandi nefna þessi verk­efni:

Vot­lend­is­sjóður er sjálf­seign­ar­stofn­un sem vinn­ur að end­ur­heimt vot­lend­is, stöðvar los­un kolt­ví­sýr­ingsí­gilda, efl­ir líf­fræðilega fjöl­breytni, fugla­líf og bæt­ir vatns­bú­skap í veiðiám.

Kol­efn­is­brú­in snýst um að rækt­end­ur um land allt geti með plönt­un og um­hirðu skóga, kol­efnis­jafnað sína eig­in starf­semi og selt þá þjón­ustu til annarra, jafn­vel til stórra og meðal­stórra fyr­ir­tækja. Lögð er áhersla á að ferlið sé vottað og út­tekt­araðilar sann­reyni að um­sam­in rækt­un fari fram með til­heyr­andi kol­efn­is­bind­ingu.

Skóg­rækt­ar­fé­lag Íslands og Land­vernd stofnuðu og standa að Kolviði með það að mark­miði að Íslend­ing­ar verði fyrsta þjóð heims til að kol­efnis­jafna út­blást­ursáhrif sam­göngu­tækja sinna með skóg­rækt og upp­græðslu lands.

Lofts­lagsvænn land­búnaður er verk­efni þar sem bænd­um og öðrum land­eig­end­um gefst kost­ur á að efla þekk­ingu á aðgerðum til að draga úr kol­efn­is­spori land­búnaðar­ins með breyttri land­nýt­ingu, rækt­un, áburðarnotk­un og fóðrun, auk kol­efn­is­bind­ing­ar. Þeir sem afla sér þess­ar­ar þekk­ing­ar öðlast rétt til styrk­umsókna til að hrinda aðgerðum í fram­kvæmd.

Tengsl land­notk­un­ar og land­búnaðar við lofts­lags­breyt­ing­ar eru mun víðtæk­ari en birt­ist í þess­um verk­efn­um. Þau sýna hins veg­ar svart á hvítu bein áhrif alþjóðlegra lofts­lags­samn­inga hér.

Þarna er ekk­ert vikið að mat­væla­fram­leiðslu, garð- eða gras­rækt og búfjár­haldi. Rann­sókn­ir sýna þó að beit er ekki síður áhrifa­mik­il til að binda kol­efni en rækt­un skóga og því er haldið fram að kol­efni bundið í jarðvegi vegna beit­ar geym­ist þar leng­ur en ger­ist í skógi.

Veg­ferðin inn­an ramma þess­ara víðtæku og skuld­bind­andi alþjóðasamn­inga er rétt að hefjast. Fram­kvæmd þeirra stend­ur okk­ur mun nær og hef­ur meiri áhrif á dag­legt líf okk­ar en marg­ir eldri og gam­al­grón­ir samn­ing­ar.