Finnar sýna staðfestu
YLE birti 2. desember 2021 frétt um að Sauli Niinistö Finnlandsforseti teldi Vladimir Pútin ekkert hafa um það að segja hvort ríki gengju í NATO eða ekki.
Finnska ríkisstjórnin skýrði föstudaginn 10. desember frá því að hún hefði ákveðið að kaupa 64 bandarískar F-35 orrustuþotur fyrir tæpa 5 milljarða evra. Þá kynnti stjórnin 5 milljarða fjárfestingaráætlun í þágu varna landsins að auki.
Fyrir nokkrum árum ákváðu Norðmenn að kaupa 52 orrustuþotur af þessari gerð. Þeir hafa fengið nokkrar afhentar og sumar þeirra hafa stundað gæsluflug frá Keflavíkurflugvelli. Danir keyptu 27 F-35 þotur og fengu þá fyrstu til tilrauna í apríl 2021.
Það tók Finna sex ár að undirbúa ákvörðunina um orrustuþotukaupin. Að lokum stóð valið milli þriggja tegunda, tveggja bandarískra: F-35 og Super Hornet, og sænsku Gripen-þotnanna. Áður höfðu Eurofighter Typhoon og franska Rafale helst úr lestinni.
Timo Kivinen, yfirmaður finnska hersins.
Timo Kivinen, yfirmaður finnska hersins, sagði við YLE, finnska ríkisútvarpið, laugardaginn 11. desember að ákvörðunin um að kaupa F-35 hefði ekki áhrif á varnarsamstarf Finna og Svía. Af sænskum fjölmiðlum má þó ráða að þar urðu stjórnvöld fyrir verulegum vonbrigðum með að sænsku þotunum skyldi hafnað.
Kivinen sagði að ráðamenn Finnlands og Svíþjóðar vildu dýpka varnarsamstarf þjóðanna og herir landanna stæðu saman að erinstæðum, tvíhliða aðgerðaráætlunum.
Finnski herforinginn taldi ekki líkur á hernaðarleg staða á Eystrasalti batnaði á næstunni. Ástandið í Úkraínu smitaði frá sér út á Eystrasaltssvæðið. Finnar fylgdust náið með framvindunni við landamæri Úkraínu. Engin bein hernaðarleg ógn beindist þó að Finnum um þessar mundir.
Í frétt YLE af samtalinu við Kivinen er minnt á að Vladimir Pútin Rússlandsforseti ítreki nú að Rússar vilji ekki að NATO stækki meira til austurs. Rússar virðist vilja að skipan öryggismála í Evrópu taki mið af „áhrifasvæðum“. Í ár hafi Rússar aukið og minnkað hernaðarlegan viðbúnað sinn í nágrenni Úkraínu, Kivinen segi að hugsanlega verði beitt hervaldi jafnvel þótt allir reyni fyrst að komast að niðurstöðu með viðræðum. Finnski herinn taki mið af því sem gerist á þessu svæði en í næsta nágrenni Finnlands, sem á löng sameiginleg landamæri með Rússlandi, gerist ekkert sem sé áhyggjuefni. Engin hernaðarógn steðji að Finnum.
YLE birti 2. desember 2021 frétt um að Sauli Niinistö Finnlandsforseti teldi Vladimir Pútin ekkert hafa um það að segja hvort ríki gengju í NATO eða ekki. Fréttastofan STT spurði Niinistö hvað hann segði um þá skoðun Pútins að Rússar fengju „lagalega skuldbindingu“ um að NATO stækkaði ekki í austur. Finnlandsforseti svaraði með tölvubréfi og sagðist ekki sjá neinar líkur á samningi um þetta:
„Ákvarðanir um aðild nýrra ríkja eru teknar af umsóknarríkinu og þrjátíu aðildarríkjum NATO, aðildarákvarðanir eru í höndum umsækjandans og NATO-ríkjanna.“
Rússar minnast nú að 30 ár eru frá hruni Sovétríkjanna, sjá hér . Pútin lýsti hruninu á sínum tíma sem heimssögulegum sorgarviðburði. Hann á við vaxandi gagnrýni á heimavelli að glíma, ekki síst frá gömlum kommúnistum. Það kann að gleðja þá að rússneski herinn sýni Úkraínumönnum vígtennurnar og alið sé á NATO-óvild.