11.12.2021

Vígreifir Rússar minnast hruns

Morgunblaðið, laugardag 11. desember 2021.

Þess er nú minnst að 30 ár eru frá því að Sov­ét­rík­in urðu að engu. Upp­lausn rík­is­ins hófst árið 1988 þegar stjórn­völd í Eistlandi lýstu lýðveldið sjálf­stætt inn­an sov­éska sam­bands­rík­is­ins. Lit­há­ar urðu hins veg­ar fyrst­ir til að segja skilið við Sov­ét­rík­in og lýsa yfir sjálf­stæði 11. mars 1990.

Aðskilnaður Eystra­salts­ríkj­anna frá Sov­ét­ríkj­un­um hlaut viður­kenn­ingu í sept­em­ber 1991. Síðan kom Belovezha-samn­ing­ur­inn 6. des­em­ber 1991. Með hon­um samþykktu Bor­is Jelts­in, for­seti SFSR, Sov­éska sósíal­íska sam­bands­rík­is­ins Rúss­lands, Leonid Kra­vtsjuk, for­seti Úkraínu, og Stan­islav Shus­hkevit­sj, flokks­formaður í Hvíta-Rússlandi, að koma á fót Sam­veldi sjálf­stæðra ríkja (CIS) í stað Sov­ét­ríkj­anna.

Öll frá­far­andi lýðveldi Sov­ét­ríkj­anna gengu í sam­veldið nema Eystra­salts­rík­in og Georgía. Var Sam­veldi sjálf­stæðra ríkja form­lega stofnað með Alma-Ata-skjal­inu 21. des­em­ber 1990. Í því voru Armen­ía, Azer­baij­an, Hvíta-Rúss­land, Kazakhst­an, Kirg­hizst­an, Molda­vía, Rúss­land, Tajikist­an, Tur­k­men­ist­an, Ukraína og Uz­bekist­an. Georgia gekk í sam­veldið 1993.

Mik­haíl Gor­bat­sjov, for­seti Sov­ét­ríkj­anna, sagði af sér 25. des­em­ber 1991 og fól Bor­is Jelt­sín for­seta­valdið ásamt lykl­um að sov­ésk­um kjarn­orku­vopn­um. Jelt­sín varð þá for­seti Rúss­neska sam­bands­rík­is­ins. Að kvöldi sama dags var rauður fáni Sov­ét­ríkj­anna dreg­inn niður á Kreml­ar­k­astala og að húni var dreg­inn þrílit­ur fáni Rúss­lands. Sov­éska þingið staðfesti 26. des­em­ber 1991 sjálf­stæði fyrr­ver­andi sov­ésku lýðveld­anna og Sov­ét­rík­in voru form­lega úr sög­unni. Kalda stríðinu var end­an­lega lokið.

Úkraína sagði skilið við stofn­an­ir Sam­veld­is sjálf­stæðra ríkja árið 2018. Eystra­salts­rík­in þrjú eru nú í NATO og Evr­ópu­sam­band­inu (ESB). Stjórn­völd Úkraínu, Georgíu og Molda­víu hafa lýst áhuga á að sigla í kjöl­far Eystra­salts­ríkj­anna við mikla reiði ráðamanna í Moskvu.

Https-_cdn.cnn.com_cnnnext_dam_assets_211209001500-012-russia-ukraine-border-tension-120821Joe Biden Bandaríkjaforseti og Vladimir Púrin Rússlandsforseti á fjarfundi 7. desember 2021.

Vla­dimir Pút­in Rúss­lands­for­seti réðst inn í Georgíu árið 2008, lagði und­ir sig hluta Úkraínu árið 2014 og mik­il tog­streita er í Molda­víu vegna ítaka Rússa þar. Pút­in og fé­lag­ar eru í nán­um sam­skipt­um við ráðamenn Serbíu og stunda und­ir­róður og óvinafagnað í ríkj­um á Balk­anskaga sem áður lutu stjórn Títós ein­ræðis­herra í Júgó­slav­íu.

Ná­grannaþjóðir Rússa og Hví­trússa ótt­ast valda­brölt og ögr­an­ir stjórn­valda land­anna. Vegna NATO- og ESB-aðild­ar eiga Eystra­saltsþjóðirn­ar staðfasta banda­menn sem hafa skuld­bundið sig með samn­ing­um og herafla til að leggja þeim lið á hættu­stund. Sama verður ekki sagt um Úkraínu­menn sem sjá allt að 175.000 rúss­neska her­menn við landa­mæri sín og grun­ar að Pút­in sendi þá gegn sér í upp­hafi næsta árs eða jafn­vel fyrr. Fros­in jörð auðveld­ar þung­um vígdrek­um að sækja fram á slétt­un­um.

Í byrj­un vik­unn­ar birt­ist hér í blaðinu grein eft­ir Carl Bildt, fyrrv. ráðherra í Svíþjóð. Þar dreg­ur hann upp þá skugga­legu mynd að sam­tím­is eða um svipað leyti gefi þeir fyr­ir­mæli um hernað, Valdimir Pút­in gegn Úkraínu og Xi Jin­ping Kína­for­seti gegn Taív­an. Báðir telja sig hafa ástæðu til vald­beit­ing­ar, Pút­in til að halda Úkraínu á áhrifa­svæði sínu og Xi til að tryggja fram­gang stefn­unn­ar um eitt ríki – tvö kerfi.

Þegar Pút­in komst til valda árið 2000 var ótt­inn við NATO ekki efst­ur á blaði í áróðri hans eins og nú. Stofnað hafði verið til sam­starfs Rússa og NATO. Því var ekki slitið fyrr en nú fyr­ir skömmu.

Við brott­för banda­ríska varn­ar­liðsins héðan árið 2006 svöruðu Banda­ríkja­menn ábend­ing­um um að viðbúnaður hér hefði gildi vegna Rússa á Norður-Atlants­hafi á þann veg að kvíði af þess­um sök­um væri ástæðulaus: Rúss­ar væru banda­menn NATO-þjóðanna og floti þeirra í rúst eins og ríkið sjálft.

Leiðtog­ar NATO-ríkj­anna gáfu árið 2008 grænt ljós á aðild Georgíu og Úkraínu að banda­lag­inu án nokk­urra tíma­setn­inga. Pút­in tel­ur sig eiga að ákveða hvar rík­in skipa sér en hvorki stjórn­end­ur þeirra né NATO. Rúss­ar hafa þó ekk­ert neit­un­ar­vald um þetta efni.

Pút­in hef­ur hvað eft­ir annað látið reyna á hve langt hann kemst. Hon­um líðst að herða tök á eig­in þjóð með fang­els­un and­stæðinga sinna og tak­mörk­un­um á skoðana- og tján­ing­ar­frelsi. Hann læt­ur nú reyna á staðfestu nýrr­ar rík­is­stjórn­ar í Þýskalandi sam­hliða áreiti í garð Banda­ríkja­stjórn­ar og NATO.

Evr­ópuþjóðir eru háðar jarðgasi frá Rússlandi. Þegar ut­an­rík­is­ráðherr­arn­ir Ant­ony Blin­ken og Sei­geij Lavr­or hitt­ust hér í Hörpu í maí 2021 féll Blin­ken frá and­stöðu við nýja rúss­neska gas­leiðslu til Þýska­lands, Nord Stream 2.

Joe Biden Banda­ríkja­for­seti sagði við Pút­in á fjar­fundi 7. des­em­ber 2021 að stjórn sín gæti enn stöðvað Nord Stream 2. Þá mætti enn herða efna­hags­leg­ar refsiaðgerðir. Rúss­um kann að verða bannað að nota staðlaða sam­skipta­kerfið SWIFT til alþjóðlegra færslna á milli banka.

Berlín­ar­múr­in og Sov­ét­rík­in hrundu án þess að til vopnaðra átaka kæmi eða mann­skæðra uppþota. Nú á 30 ára af­mæli sov­éska hruns­ins minn­ir ástandið á það sem var í Kúbu­deil­unni fyr­ir tæp­um 60 árum þegar spenna magnaðist vegna sov­éskra kjarnaflauga á Kúbu í óþökk Banda­ríkja­stjórn­ar. Hvað ger­ist næst? spurðu menn með önd­ina í háls­in­um. Deil­an leyst­ist friðsam­lega á ög­ur­stund og til varð sam­skipta­kerfi milli aust­urs og vest­urs sem stuðlaði að trausti og stöðug­leika þrátt fyr­ir ágrein­ing.

Hvað ger­ist næst? spyrja menn og líta til Pút­ins og liðsafla hans. Óviss­an ein veld­ur kvíða og hættu – meiri en nokkru sinni und­an­far­in 30 ár.