29.6.2018 11:57

ESB-leiðtogar auka hörku í útlendingamálum

Á maraþonfundi leiðtogaráðs ESB um útlendingamál var stefnunni breytt til móts við sjónarmið harðlínumanna.

Í gær (28. júní) birtist á vefsíðu alþingis ítarlegt svar Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar, þingmanns Flokks fólksins, um fjölda hælisleitenda og lengd dvalartíma þeirra hér á landi. Eins og sést af svarinu ( sem sjá má hér ) gilda flóknar reglur um þetta efni. Í svarinu kemur fram að hér hafi tekist að stytta tímann sem það tekur að afgreiða umsóknir þeirra sem engan rétt eiga á hæli hér.

Gegn þessu langa ferli mála sem leiða til höfnunar um hæli vill Horst Seehofer, innanríkisráðherra Þýskalands, snúast þegar hann segir að það eigi að halda þeim utan Þýskalands sem eigi augljóslega engan rétt til hælis þar. Angela Merkel kanslari vildi ekki að ákvörðun Seehofers um þetta efni yrði einhliða heldur hluti af ESB-lausn.

Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, var kampakátur eftir að málamiðlun náðist í útlendingamálum í leiðtogaráði ESB.

Leitað var að þessari lausn á maraþonfundi leiðtogaráðs ESB sem lauk ekki fyrr en á sjötta tímanum í morgun að Brussel-tíma. Niðurstaða fundarins var gleðiefni fyrir þá sem vilja hert eftirlit á landamærum. Þar er að finna óljóst orðaða málamiðlun sem gerir ráð fyrir lokuðum móttöku- og brottfararstöðvar fyrir hælisleitendur í ESB-ríkjum sem bjóða aðstöðu til slíks.  Þá er einnig gert ráð fyrir að hæfi flótta- og farandfólks til að sækja um hæli innan ESB verði kannað áður en það kemur til ESB-landa. Samþykkt var að ESB veitti ríkjum í Norður-Afríku eða Mið-Austurlöndum fjárhagslega aðstoð ef þau vildu opna stöðvar til að meta þetta hæfi, „svæðisbundnar stöðvar fyrir brottför“ eins og það er orðað. Landamærastofnun Evrópu, Frontex, verður efld á næstu árum til að styrkja gæslu á ytri landamærum Schengen-svæðisins.

Merkel sagði að einnig hefði verið samþykkt að herða innra eftirlit til að stöðva hælisleitendur frá því að velja að geðþótta ESB-hælisumsóknarríki. Ítalski forsætisráðherrann, Giuseppe Conte, sagðist „sáttur“ við niðurstöðuna. Ítalir stæðu ekki lengur einir gegn straumi flóttafólks yfir Miðjarðarhaf sem þeir vilja stöðva. Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis, sagði niðurstöðuna jákvæða. Það væri gleðiefni að loks beindist athygli að ytri landamærunum. Samstaðan væri „mikilvægt skref í rétta átt“.

Horfið er frá stefnunni um að útdeila hælisleitendum á ESB-ríki eftir kvótareglu. Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, barðist hart gegn þeirri stefnu og var hann sáttur við málamiðlunina í leiðtogaráðinu.

Í morgun (29. júní) birtist grein eftir mig í Morgunblaðinu ( sjá hér ) um að útlendingamálin yrðu dýrkeypt fyrir Angelu Merkel. Þar spái ég því stjórn hennar lifi af deilu Merkel og Seehofers enda halli ESB sér að stefnu Seehofers. Það gerðist í Brussel í nótt.