Útlendingamálin eru Angelu Merkel dýrkeypt
Morgunblaðið föstudag 29. júní
Fundur leiðtogaráðs ESB hófst í Brussel í gær og honum lýkur í dag. Í aðdraganda hans hefur athyglin beinst að deilu innan þýsku ríkisstjórnarinnar. Hún er milli kristilegu systurflokkanna (CDU/CSU) en ekki þeirra og jafnaðarmanna (SPD). Kristilegu flokkarnir, tveir mið-hægri-flokkar, hafa verið þungamiðja þýskra stjórnmála í um það bil 70 ár. Nú hefur jafnvel verið spurt hvort samstaða þeirra kunni að rofna vegna mismunandi útlendingastefnu.
Straumur farand- og flóttafólks til Þýskalands hefur stórlega minnkað frá árinu 2015 þegar Angela Merkel kanslari (CDU) ákvað að tekið skyldi á móti öllum sem komu frá Sýrlandi og Norður-Afríku til Þýskalands. Talan ein og hálf milljón er gjarnan nefnd til að lýsa fjöldanum sem þá leitaði skjóls hjá Þjóðverjum. Nú fyrst er komið að pólitískum skuldadögum Merkel.
Haustið 2017 var gengið til þingkosninga í Þýskalandi. Kristilegir héldu stöðu sinni sem stærsti þingflokkurinn, jafnaðarmenn fóru halloka en Alternative für Deutschland (AfD), nýr flokkur hægra megin við CDU/CSU, sigraði í kosningunum og varð þriðji stærsti þingflokkurinn.
Andstaða við útlendingastefnu Merkel var helsta baráttumál AfD. Að kosningum loknum tók það Merkel tæplega hálft ár að mynda stjórn að nýju með SPD. Hún eftirlét SPD embætti fjármálaráðherra. Horst Seehofer, leiðtogi CSU, varð innanríkisráðherra og fékk þar með framkvæmd útlendingastefnunnar í sínar hendur. Fyrir rúmum hálfum mánuði kynnti hann í 63 liðum hvernig hann ætlaði að standa að gæslu þýskra landamæra. Hann sagði Merkel hafa samþykkt 62,5 liði. Spurning er hvort 0,5 sem eftir eru verða til að fella stjórn Merkel og jafnvel sundra samstöðu CDU og CSU.
Kosningar í Bæjaralandi
Sambandslýðveldið Þýskaland skiptist í 16 sambandslönd og er Fríríkið Bæjaraland (Freistaat Bayern) syðst þeirra. Landið er annað fjölmennasta sambandslandið með um 13 milljónir íbúa, en stærst að flatarmáli, um 70.000 ferkílómetrar. Fyrir utan landamæri að öðrum þýskum sambandslöndum liggja landamæri Bæjaralands að Tékklandi og Austurríki.
CSU, Kristilega sósíalsambandið, hefur verið ráðandi flokkur Bæjaralands frá síðari heimsstyrjöld. Forsætisráðherra landsins hefur komið úr röðum flokksins síðan 1957 og frá 1966 (fyrir utan kjörtímabilið 2008 til 2013) hefur flokkurinn átt meirihluta á þingi í höfuðborginni München. Nú á flokkurinn 101 þingmann af 180 á þingi Bæjaralands.
Kosið verður til þingsins í október 2018 og sækir AfD í fyrsta sinn gegn CSU. Einfalda lýsingin á því sem greinir á milli CDU og CSU er að Bæjaraflokkurinn sé íhaldssamur á sviði félagsmála og íhlutunarsamur á sviði fjármála. Þetta er áherslumunur milli flokka sem í sjö áratugi hafa átt samleið þótt stundum hafi slest upp á vinskapinn og nú illilega í útlendingamálunum.
Horst Seehofer vill reka alla hælisleitendur sem sótt hafa um hæli eða skráð sig í öðru ESB/Schengen-landi tafarlaust frá Þýskalandi. Dublin-reglugerðin, hluti Schengen-samstarfsins, gerir ráð fyrir að umsóknir allra hælisleitenda séu teknar til athugunar sé óskað hælis við landamæri ríkis og eigi hælisleitandinn rétt á að dveljast í viðkomandi landi á meðan umsóknin er vegin og metin.
Angela Merkel vildi ekki að Seehofer gripi til einhliða aðgerða af þessu tagi. Hafa yrði samráð um málið innan ESB og helst ná sameiginlegri niðurstöðu á leiðtogaráðsfundinum 28. og 29. júní, Seehofer skyldi halda að sér höndum fram yfir fundinn og samþykkti hann það.
Þótt CSU búi sig undir átök við AfD í komandi kosningum hefur flokkurinn ekki síður auga á því sem gerist í austurrískum og ítölskum stjórnmálum. Sebastian Kruz, kanslari Austurríkis, er í forystu þeirra innan ESB sem vilja harða útlendingastefnu. Ný stjórn á Ítalíu hefur einnig gripið til harðra ráðstafana gagnvart fólki á ólöglegri ferð yfir Miðjarðarhaf. Matteo Salvini innanríkisráðherra vill einnig reka 500.000 ólöglega innflytjendur frá Ítalíu.
Í desember 2017 tók ný ríkisstjórn við völdum í Austurríki með mið-hægri-flokkinn ÖVP í forsæti en hægriflokkinn FPÖ með innanríkismálin. Miðvikudaginn 20. júní var sameiginlegur fundur ríkisstjórna Austurríkis og Bæjaralands í Linz í Austurríki og voru útlendingamál þar á dagskrá.
Pólitísk áhrif frá Austurríki og Ítalíu eru meiri í Bæjaralandi en öðrum sambandslöndum Þýskalands. CSU-menn telja sig verða að sýna hörku á borð við nágranna sína, jafnt gagnvart Merkel og öðrum.
Lítið skjól í Brussel
Efnt var í skyndi til 16 ESB-ríkja leiðtogafundar í Brussel sunnudaginn 24. júní að undirlagi Merkel. Tillögu hennar um fund í Berlín var hafnað og Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, vildi ekki boða fundinn. Það kom í hlut Jean-Claudes Junckers, forseta framkvæmdastjórnar ESB, að fara að ósk Þýskalandskanslara.
Enginn sameiginlegur árangur náðist á fundinum. Merkel hafði vonað að ná samkomulagi við Giuseppe Conte, nýjan forsætisráðherra Ítalíu, um eitthvað sem róaði Seehofer en það mistókst.
Lars Rasmussen Løkke, forsætisráðherra Danmerkur, og Sebastian Kruz kanslari vinna að hugmynd um sérstaka móttöku- og brottvísunarstöð hælisleitenda utan ESB, helst í Norður-Afríku. Ítalir vilja þetta líka.
Fulltrúar Póllands og Ungverjalands sátu ekki leiðtogafundinn 24. júní. Þeir eru hins vegar á leiðtogaráðsfundinum núna og árétta harða andstöðu við kvótastefnuna sem Merkel hefur fylgt, það er að hvert ESB-ríki verði skyldað til að taka sinn hlut hælisleitenda frá Ítölum.
Xavier Bettel, forsætisráðherra Lúxemborgar, sagði eftir litla leiðtogafundinn: „Þetta mál snýst ekki um hve lengi Merkel getur haldið lífi sem kanslari.“
ESB breytir um stefnu
Austurríkismenn efndu til sérstakrar æfingar þriðjudaginn 26. júní með her og lögreglu til að loka landamærum sínum gagnvart Slóveníu. Sögðu yfirvöld að þetta væri gert vegna óvissunnar um stefnu Þjóðverja og þess sem væri að gerjast á flóttamannaleiðum í Balkanlöndunum.
Að kvöldi sama dags komu forystumenn stjórnarflokkanna CDU, CSU og SPD saman í Berlín til að ráða ráðum sínum. Að morgni miðvikudags 27. júní voru skilaboðin þessi: Staðan er mjög alvarleg. Ekkert samkomulag milli CDU og CSU og formaður SPD getur engu svarað um hvort sambandsþingið verði rofið og boðað til kosninga. Biðstaða fram yfir fund leiðtogaráðs ESB.
Líf stjórnar Angelu Merkel er í húfi. Útlendingamálin eru kanslaranum dýrkeypt. Í þeim hafa hins vegar orðið þáttaskil innan ESB. Stefnan um kvótaskiptingu hælisleitenda er á undanhaldi. Nú er rætt hvaða aðferðum skuli beitt til að reka hælisleitendur frá einstökum löndum og halda þeim í sérstökum búðum í Norður-Afríku. Líklegt er að leiðtogaráð ESB ákveði að stórefla Frontex, landamærastofnun Evrópu, til að gæta ytri Schengen-landamæranna. Stefna harðlínumanna eins og Seehofers verður stefna ESB. Stjórn Merkel er borgið.