25.1.2023 9:22

Enn um þriðja orkupakkann

Tilefni greinarinnar hér 8. desember var að vekja athygli á að dómarar í undirrétti og millirétti í Noregi höfnuðu sjónarmiði Nei til EU um afgreiðslu orkupakkans.

Ólafur Ísleifsson hagfræðingur var kjörinn á þing fyrir Flokk fólksins árið 2017, hann var síðan um skeið utan flokka á þing en gekk svo í Miðflokkinn. Hann náði ekki endurkjöri í þingkosningum 2021. Sem þingmaður gekk hann hart fram gegn þriðja orkupakkanum svonefnda, það er EES-reglum um samkeppni á orkumarkaði.

Um þetta mál var mikið deilt. Hér á þessari vefsíðu var á sínum tíma tekin eindregin afstaða gegn andstæðingum þriðja orkupakkans. Stundum síðan hefur verið minnt á málið hér með vísan til málaferla andstæðinga orkupakkans í Noregi, Nei til EU, gegn norska ríkinu. Var það síðast gert 8. desember 2022 eins og lesa má hér.

Þessi texti frá því í desember varð til þess að þriðjudaginn 24. janúar 2023 birtir Ólafur Ísleifsson grein um málið og gerir mér upp þá skoðun að það sé „óleyfilegt sjónarmið“ að telja þriðja orkupakkann ekki samrýmast íslenskum hagsmunum. Þessu hefur aldrei verið haldið fram hér, vissulega er mönnum leyfilegt að halda fram skoðunum sem aðrir telja rangar, skárra væri það í lýðræðisríki.

3

Þessi teikning birtist á sínum tíma á vefsíðunni Vatnsiðnaður.

Tilefni greinarinnar hér 8. desember var að vekja athygli á því að dómarar í undirrétti og millirétti í Noregi höfnuðu því sjónarmiði Nei til EU að norska stórþingið hefði átt að líta á innleiðingu þriðja orkupakkans í Noregi sem meiriháttar framsal á fullveldi.

Nei til EU sneri sér einmitt til Íslands og tókst að virkja hér háværan hóp andstæðinga við þriðja orkupakkann eftir samþykkt stórþingsins í von um að meirihluti alþingismanna legðist gegn pakkanum og hann yrði því ekki að EES-reglum – á alþingi tækist andstæðingum pakkans það sem þeim misheppnaðist á stórþinginu.

Tímabundin ítök Norðmanna hafa verið mikil í íslensku atvinnulífi í áranna rás og margt gott af þeim leitt. Pólitíska íhlutunin vegna þriðja orkupakkans var allt annars eðlis og á hana er eðlilegt að minna þegar ljóst er að Nei til EU varð ekki aðeins undir á stórþinginu heldur einnig fyrir dómstólum. Dómsmálinu lauk einmitt í þann mund sem skrifað var um lyktir þess hér á síðuna.

Í grein sinni vísar Ólafur Ísleifsson til greinargerðar tveggja lögfræðilegra ráðunauta íslensku ríkisstjórnarinnar um áhrif samþykktar þriðja orkupakkans. Má skilja orðs hans á þann veg að ráðunautarnir hafi bundið hendur hans í málinu. Hvað sem því leið samþykkti meirihluti alþingis orkupakkann. Ólafur og félagar settu á svið vel skipulagt málþóf sem skilaði engu á þingi og ekki heldur í þingkosningunum í september 2021. Fyrir þær lá orkupakkamálið í þagnargildi – Miðflokkurinn sá sér ekki hag af að flagga því.

Í færslunni hér var þögn Miðflokksins lýst með þeim orðum að andstæðingarnir hefðu kosið að sópa málinu undir teppið enda hefði þetta verið vanhugsuð aðför „að málstað þeirra sem í raun er annt um fullveldi og reisn Íslands í samstarfi Evrópuþjóða“.

Ekkert í síðbúinni andmælagrein Ólafs Ísleifssonar hnekkir þessari skoðun. Að Íslendingar hefðu átt að beita neitunarvaldi í EES-samstarfinu vegna þessa máls er fráleitt.