Nei til EU tapar orkupakkamálinu
Þegar dómararnir líta á efni málsins eru þeir ekki í neinum vafa um að valdframsalið til ESA/ACER sé takmarkað. Það snúi að tæknilegum og faglegum málum á afmörkuðu sviði og umfangið sé takmarkað.
Æsinginn í þriðja orkupakkamálinu hér á landi mátti að verulega rekja til áróðurs samtakanna Nei til EU sem börðust gegn innleiðingu pakkans í Noregi. Þar í landi segjast menn berjast gegn ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators) samstarfsstofnun orkuregluvarða. Nei til EU taldi að norska stórþingið hefði beitt rangri aðferð árið 2018 þegar það samþykkti þriðja orkupakkann, hefði átt að krefjast aukins meirihluta á þingi vegna þess mikla inngrips sem gildistakan hefði fyrir fullveldi Noregs.
Fór Nei til EU með málið fyrir dómstóla. Töpuðu samtökin málinu í undirrétti í nóvember 2021 og miðvikudaginn 7. desember 2022 féll dómur þeim í óhag á millidómstigi í Borgarting lagmannsrett. Niðurstaða dómaranna er að stórþingið hafi staðið rétt að samþykkt og innleiðingu þriðja orkupakkans.
Í norsku stjórnarskránni eru tvö ákvæði sem koma til álita við framsal á valdi til yfirþjóðlegra stofnana, sé um takmarkað framsal að ræða (n. lite inngripende) dugar einfaldur meirihluti á stórþinginu (26. gr. stjskr.) sé um rýmra framsal að ræða (n. mer enn lite inngripende) þurfa þrír fjórðu þingmanna að samþykkja það (115. gr. stjskr.).
Félagar í Nei til EU mótmæla þriðja orkupakkanum til stuðnings lögfræðingi sínum.
Þar sem Noregur er eins og Ísland utan ESB var um framsal á valdi til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) að ræða. Lagmannsretten segir að við mat á þeirri aðferð sem stórþingið velur við afgreiðslu mála verði dómstólar að stíga varlega til jarðar ætli þeir að hafna afstöðu þingsins. Dómarar verði með öðrum orðum almennt að virða þá aðferð sem þingið velji við meðferð mála. Í þessu tilviki hafi þingið talið að um takmarkað framsal væri að ræða.
Þegar dómararnir líta á efni málsins eru þeir ekki í neinum vafa um að valdframsalið til ESA/ACER sé takmarkað. Það snúi að tæknilegum og faglegum málum á afmörkuðu sviði og umfangið sé takmarkað. Þótt orkumál vegi þungt samfélagslega og stjórnmálalega er það mat dómstólsins að þetta sérgreinda valdframsal hafi ekki sérstök áhrif á þessum sviðum – það sé því takmarkað (n. lite inngripende).
Í dóminum eru nefnd nokkur dæmi um að norsk stjórnvöld geti haft áhrif á niðurstöðu máls fari það til ESA með óskuldbindandi tilmælum frá ACER. Stjórnvöld hafi andmælarétt, þau geti skipt sér af ferlinu og farið fram á endurupptöku. Íþyngjandi ákvörðunum ESA megi einnig skjóta til dómstóla. Niðurstaðan er að stórþingið hafi farið að 26. gr. stjskr. við afgreiðslu málsins.
Þetta mál var lagt fyrir lagmannssretten 31. október 2022 en í nóvember 2021 tapaði Nei til EU málinu í undirrétti, tingretten.
Nú verður forvitnilegt að sjá hvort sljákki í þeim sem fóru mikinn og mest til að bregða fæti fyrir afgreiðslu þriðja orkupakkans hér á landi með stöðugum tilvísunum til málstaðar Nei til EU, meðal annars málaferlanna sem nú er lokið.
Það skýrist sífellt betur hve fráleitt uppþotið vegna þriðja orkupakkans var hér á landi. Verður þess minnst, kjósi ekki allir að sópa því undir teppið, sem vanhugsaðrar aðfarar að málstað þeirra sem í raun er annt um fullveldi og reisn Íslands í samstarfi Evrópuþjóða.