11.6.2023 12:58

Ekkert í undirdjúpunum

Arnar Þór sakar mig um að ráðast „á persónu formanns utanríkismálanefndar“. Það hef ég hvergi gert heldur gagnrýnt vinnubrögð sem ég tel forkastanleg hjá nefndarformanni. 

Við þinglok var látið undir höfuð leggjast að afgreiða frumvarp utanríkisráðherra um breytingu á einni grein laganna um EES-samninginn frá 1993 til að tryggja betur að íslensk stjórnvöld standi við þjóðréttarskuldbindingu sína samkvæmt 35. grein samningsins.

Hér á síðunni og í grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær (10. júní) sjá hér hef ég gagnrýnt að formanni utanríkismálanefndar alþingis, Bjarni Jónsson (VG), líðist að tefja umfjöllun nefndarinnar um þessu einu lagagrein og útiloka þannig að breytingartillaga ráðherrans fái afgreiðslu.

Af 19 umsögnum sem nefndinni barst eru þeir taldir á fingrum annarrar handar sem hafa horn í síðu frumvarpsins, að halda því fram að það brjóti í bága við stjórnarskrá stenst ekki, enda snýr málið að íslenskum lögskýringum á EES-samningnum og fyrirmælum alþingis til dómenda með lagatexta.

Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir ranglega í texta á FB 10. júní að „meginástæðan fyrir þessari stöðvun málsins“ í nefndinni sé að í henni hafi opinberast að málið sé „mun alvarlegra, stærra, flóknara og viðsjárverðara en fyrsta umræða í þingsal gaf til kynna“. Sakar hann þingmenn um að hafa skautað „létt yfir þau stjórnskipulegu álitamál sem hér reynir á“.

DownloadeftaÍ þessari nýju byggingu í Brussel eru EFTA og EES-stofnanir til húsa.

Formaður nefndarinnar hefur ef til vill kallað Arnar Þór fyrir nefndina og kemur ekki á óvart að hann telji sig hafa opinberað nefndarmönnum nýjan sannleika. Um áhrif þeirrar opinberunar má efast enda er mikill meirihluti þingmanna hlynntur frumvarpi ráðherrans. Hlutverk þingnefndarformanns er ekki að standa í vegi fyrir að vilji meirihlutans njóti sín heldur að greiða fyrir að hann nái fram að ganga. Á þetta við í öllum málum og er grunnþáttur lýðræðislegra stjórnarhátta. Hafi Arnari Þór tekist að sannfæra nefndarformanninn um að hann þjóni lýðræðinu með virðingarleysi fyrir vilja meirihlutans má kannski kenna það við opinberun þótt hún sé skaðvænleg.

Arnar Þór sakar mig um að ráðast „á persónu formanns utanríkismálanefndar“. Það hef ég hvergi gert heldur gagnrýnt vinnubrögð sem ég tel forkastanleg hjá nefndarformanni. Hvergi hefur komið fram að ágreiningur sé um þetta mál innan utanríkismálanefndar eða að nefndarmenn óski eftir lengri tíma vegna þess.

Arnar Þór kallar það sem ég hef sagt um þetta mál á opinberum vettvangi „kafbátahernað, úr undirdjúpunum, í þágu ESB innan Sjálfstæðisflokksins“. Þessi orð eru vísvitandi rangfærsla á afstöðu minni. Ég mæli ekki með aðild Íslands að ESB. Þótt Arnari Þór kunni að þykja það undarlegt ýtir málflutningur hans frekar undir áhuga sjálfstæðismanna á ESB-aðild en viðhorf þeirra sem styðja EES-samstarfið.

Arnar Þór segir ekki hvaðan hann hefur umboð til að fella þann dóm að viðhorf mín brjóti gegn „grundvallarstefnu Sjálfstæðisflokksins um lýðræðislegt stjórnarfar, frelsi einstaklingsins til orðs og athafna og fullveldi Íslands“.

Að fella dóma sem þennan yfir þeim sem standa með og styðja með rökum stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur mótað og samþykkt er sannarlega öfugsnúið.