Ládeyða við sumarhlé alþingis
Við upphaf sumarhlés í störfum alþingis má velta fyrir sér hvort öll stórátakamál séu horfin á stjórnmálavettvangi. Barátta við verðbólgu er næsta hversdagslegt viðfangsefni íslenskra stjórnmálamanna. Þeir eiga í handraðanum allt sem þarf til að lemja hana niður. Verkfærin eru öflugri en á árum áður. Vandinn er að ná samstöðu um hvernig eigi að beita þeim.
Með átta flokka á alþingi er flóknara en oft áður að mynda nauðsynlega samstöðu. Allir vilja að sín rödd heyrist og fjölmiðlamenn hlaupa á eftir hverjum sem kvartar og kveinar. Stundum minna fréttatímar á frásagnir af því þegar stjórnarherrar opnuðu hásætissalinn og leyfðu þegnum sínum náðarsamlegast að leggja fram bænaskrár. Munur á fréttum og kvörtunum þrýstihópa er horfinn í ríkisútvarpinu.
Við Alþingishúsið á Austurvelli (mynd: mbl.is).
Ládeyðuna eftir átökin við faraldurinn má rekja til skorts á viðfangsefnum á borð við stórvirkjanir eða ákvarðanir um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Stærsta málið um þessar mundir snýr að samfélaginu sjálfu, straumi innflytjenda til landsins og áhrifunum á samfélagsgerðina.
Á alþingi var tekist á um þau mál í vetur vegna frumvarps um breytingar á útlendingalögum sem varð að lokum að orða mjög mildilega til að meirihluti veitti því brautargengi. Við stöndum enn að baki nágrannaþjóðum þegar litið er til þeirra verkfæra sem þær hafa smíðað til að takast á við þetta viðfangsefni.
Undir þinglok var ákveðið að láta hjá líða að afgreiða frumvarp dómsmálaráðherra um brýna breytingu á lögreglulögunum. Því er meðal annars ætlað að færa afbrotavamir hér nær því sem gildir annars staðar á Norðurlöndunum.
Þar starfa alls staðar sérstakar stofnanir innan lögreglu sem hafa það hlutverk að stemma stigu við afbrotum sem geta raskað öryggi ríkisins. Það fer illa á því að innan flokks forsætisráðherra sem fer með formennsku í þjóðaröryggisráði skuli sumir þingmenn skipa sér í sveit með Pírötum og taka þátt í að ala á tortryggni í garð lögreglu.
Þjóðaröryggisstefnan var uppfærð á þinginu í vetur en í hana skortir það sem nú birtist til dæmis skýrt í varnarmálastefnu Dana til næstu tíu ára þar sem þeir setja Norður-Atlantshaf og norðurslóðir ofar en Eystrasaltið í fyrsta sinn þegar þeir líta til eigin öryggis, Færeyja og Grænlands. Ræddu forystumenn landanna þriggja framkvæmd nýju stefnunnar á fundi í Nuuk nú í vikunni.
Utanríkismálanefnd undir formennsku VG-þingmannsins Bjarna Jónssonar hefur ekkert frumkvæði í varnar- og öryggismálum. Formanninum tókst meira að segja að stöðva framgang máls frá utanríkisráðherra um framkvæmd EES-samningsins sem nýtur stuðnings yfirgnæfandi meirihluta þingmanna. Er fáheyrt að stjórnarþingmanni í nefndarformennsku líðist slík vinnubrögð.
Hér eru nefnd mál sem samið var um að næðu ekki fram að ganga fyrir sumarhlé. Mörg ágæt mál hljóta brautargengi og skulu þau ekki reifuð hér fyrir utan að minnast á hve vel hefur til tekist við að rétta stöðu ríkissjóðs undanfarna mánuði. Endurspeglar sú velgengni þá „blússandi fart“ sem er á þjóðarskútunni. Hún líkist nú orðið helst yfirfullu skemmtiferðaskipi.
Stjórnarandstaðan hefur sitt að segja um hvort samkomulag næst um gang mála síðustu daga fyrir þinghlé. Þess má minnast þegar Miðflokkurinn efndi til lengsta málþófs þingsögunnar í sumarbyrjun 2019 vegna þriðja orkupakkans og ári síðar, 2020, tóku miðflokksmenn syrpu sem bar svip málþófs um samgönguáætlun fyrir sumarhlé þingsins.
Það er rétt mat stjórnarandstæðinga að málþóf vegna mála sem í raun eru léttvæg skili engu þegar á reynir. Miðflokkurinn gerði tvisvar málþófsmistök og galt þess með litlu fylgi í þingkosningunum 2021. Tveggja manna þingflokkur hans hefur síðan enga burði til að stöðva framgang mála á þingi.
Viðreisn á næstminnsta þingflokkinn. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir flokksformaður og þrjú flokkssystkin hennar tóku smárispu að morgni miðvikudags 7. júní vegna samkomulagsins um sumarhlé. Þau hörmuðu öll að ekki væri gert ráð fyrir að afgreiða tillögu um að framlengja undanþágu vegna tollfrjáls innflutnings frá Úkraínu.
Þorgerður Katrín taldi að innlendum hagsmunaöflum hefði með „herkvaðningu“ tekist að stoppa þetta mjög táknræna mál. Yrði illa séð í Úkraínu að tollfrelsið gilti ekki áfram. Hún lét þess ekki getið að sjálf gekk hún erinda hagsmunaafla í málflutningi sínum, það er þeirra sem vilja með öllum ráðum, einkum þó tollfrelsi, draga máttinn úr íslenskum landbúnaði.
Hvarvetna þar sem gripið er til breytinga sem þrengja hag bænda viðkomandi lands vegna aðstoðar við Úkraínumenn er gripið til mótvægisaðgerða í þágu innlendu bændanna. Hér gildir ekki regla stríðsins að eins dauði sé annars brauð. Finna verður hóflegt jafnvægi. Um nauðsyn þess er til dæmis fjallað í fyrstu landbúnaðarstefnunni fyrir Ísland sem alþingi samþykkti 1. júní 2023.
Friðsemd lokadaganna fyrir sumarhlé alþingis ber með sér að stjórnarandstaðan vilji sigla lygnan sjó eða telji sig ekki hafa stöðu til annars. Skiljanlegt er að Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, kjósi kyrrð þegar hún kemur nú að samningagerð um afgreiðslu þingmála. Fylgið hefur flotið til Samfylkingarinnar með undirstraumum í logninu.
Skortur á átakamálum um það sem til framtíðar horfir ber með sér að einbeittan baráttuvilja skorti í stjórnarsamstarfið. Þar kjósi menn einnig frekar að halda sjó en fara í brimskaflinn. Ríkisstjórnin verður þó að virða kraftinn í þjóðlífinu.