10.6.2023

Ládeyða við sumarhlé alþingis

Við upp­haf sum­ar­hlés í störf­um alþing­is má velta fyr­ir sér hvort öll stór­átaka­mál séu horf­in á stjórn­mála­vett­vangi. Bar­átta við verðbólgu er næsta hvers­dags­legt viðfangs­efni ís­lenskra stjórn­mála­manna. Þeir eiga í hand­raðanum allt sem þarf til að lemja hana niður. Verk­fær­in eru öfl­ugri en á árum áður. Vand­inn er að ná sam­stöðu um hvernig eigi að beita þeim.

Með átta flokka á alþingi er flókn­ara en oft áður að mynda nauðsyn­lega sam­stöðu. All­ir vilja að sín rödd heyr­ist og fjöl­miðlamenn hlaupa á eft­ir hverj­um sem kvart­ar og kvein­ar. Stund­um minna frétta­tím­ar á frá­sagn­ir af því þegar stjórn­ar­herr­ar opnuðu há­sæt­issal­inn og leyfðu þegn­um sín­um náðarsam­leg­ast að leggja fram bæna­skrár. Mun­ur á frétt­um og kvört­un­um þrýsti­hópa er horf­inn í rík­is­út­varp­inu.

1016458Við Alþingishúsið á Austurvelli (mynd: mbl.is).

Lá­deyðuna eft­ir átök­in við far­ald­ur­inn má rekja til skorts á viðfangs­efn­um á borð við stór­virkj­an­ir eða ákv­arðanir um stöðu Íslands í sam­fé­lagi þjóðanna. Stærsta málið um þess­ar mund­ir snýr að sam­fé­lag­inu sjálfu, straumi inn­flytj­enda til lands­ins og áhrif­un­um á sam­fé­lags­gerðina.

Á alþingi var tek­ist á um þau mál í vet­ur vegna frum­varps um breyt­ing­ar á út­lend­inga­lög­um sem varð að lok­um að orða mjög mildi­lega til að meiri­hluti veitti því braut­ar­gengi. Við stönd­um enn að baki ná­grannaþjóðum þegar litið er til þeirra verk­færa sem þær hafa smíðað til að tak­ast á við þetta viðfangs­efni.

Und­ir þinglok var ákveðið að láta hjá líða að af­greiða frum­varp dóms­málaráðherra um brýna breyt­ingu á lög­reglu­lög­un­um. Því er meðal ann­ars ætlað að færa af­brota­vam­ir hér nær því sem gild­ir ann­ars staðar á Norður­lönd­un­um.

Þar starfa alls staðar sér­stak­ar stofn­an­ir inn­an lög­reglu sem hafa það hlut­verk að stemma stigu við af­brot­um sem geta raskað ör­yggi rík­is­ins. Það fer illa á því að inn­an flokks for­sæt­is­ráðherra sem fer með for­mennsku í þjóðarör­ygg­is­ráði skuli sum­ir þing­menn skipa sér í sveit með Pír­öt­um og taka þátt í að ala á tor­tryggni í garð lög­reglu.

Þjóðarör­ygg­is­stefn­an var upp­færð á þing­inu í vet­ur en í hana skort­ir það sem nú birt­ist til dæm­is skýrt í varn­ar­mála­stefnu Dana til næstu tíu ára þar sem þeir setja Norður-Atlants­haf og norður­slóðir ofar en Eystra­saltið í fyrsta sinn þegar þeir líta til eig­in ör­ygg­is, Fær­eyja og Græn­lands. Ræddu for­ystu­menn land­anna þriggja fram­kvæmd nýju stefn­unn­ar á fundi í Nuuk nú í vik­unni.

Ut­an­rík­is­mála­nefnd und­ir for­mennsku VG-þing­manns­ins Bjarna Jóns­son­ar hef­ur ekk­ert frum­kvæði í varn­ar- og ör­ygg­is­mál­um. For­mann­in­um tókst meira að segja að stöðva fram­gang máls frá ut­an­rík­is­ráðherra um fram­kvæmd EES-samn­ings­ins sem nýt­ur stuðnings yf­ir­gnæf­andi meiri­hluta þing­manna. Er fá­heyrt að stjórn­arþing­manni í nefnd­ar­for­mennsku líðist slík vinnu­brögð.

Hér eru nefnd mál sem samið var um að næðu ekki fram að ganga fyr­ir sum­ar­hlé. Mörg ágæt mál hljóta braut­ar­gengi og skulu þau ekki reifuð hér fyr­ir utan að minn­ast á hve vel hef­ur til tek­ist við að rétta stöðu rík­is­sjóðs und­an­farna mánuði. End­ur­spegl­ar sú vel­gengni þá „blúss­andi fart“ sem er á þjóðarskút­unni. Hún lík­ist nú orðið helst yf­ir­fullu skemmti­ferðaskipi.

Stjórn­ar­andstaðan hef­ur sitt að segja um hvort sam­komu­lag næst um gang mála síðustu daga fyr­ir þing­hlé. Þess má minn­ast þegar Miðflokk­ur­inn efndi til lengsta málþófs þing­sög­unn­ar í sum­ar­byrj­un 2019 vegna þriðja orkupakk­ans og ári síðar, 2020, tóku miðflokks­menn syrpu sem bar svip málþófs um sam­göngu­áætlun fyr­ir sum­ar­hlé þings­ins.

Það er rétt mat stjórn­ar­and­stæðinga að málþóf vegna mála sem í raun eru létt­væg skili engu þegar á reyn­ir. Miðflokk­ur­inn gerði tvisvar málþófsmis­tök og galt þess með litlu fylgi í þing­kosn­ing­un­um 2021. Tveggja manna þing­flokk­ur hans hef­ur síðan enga burði til að stöðva fram­gang mála á þingi.

Viðreisn á næst­minnsta þing­flokk­inn. Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir flokks­formaður og þrjú flokks­systkin henn­ar tóku smárispu að morgni miðviku­dags 7. júní vegna sam­komu­lags­ins um sum­ar­hlé. Þau hörmuðu öll að ekki væri gert ráð fyr­ir að af­greiða til­lögu um að fram­lengja und­anþágu vegna toll­frjáls inn­flutn­ings frá Úkraínu.

Þor­gerður Katrín taldi að inn­lend­um hags­muna­öfl­um hefði með „herkvaðningu“ tek­ist að stoppa þetta mjög tákn­ræna mál. Yrði illa séð í Úkraínu að toll­frelsið gilti ekki áfram. Hún lét þess ekki getið að sjálf gekk hún er­inda hags­muna­afla í mál­flutn­ingi sín­um, það er þeirra sem vilja með öll­um ráðum, einkum þó toll­frelsi, draga mátt­inn úr ís­lensk­um land­búnaði.

Hvarvetna þar sem gripið er til breyt­inga sem þrengja hag bænda viðkom­andi lands vegna aðstoðar við Úkraínu­menn er gripið til mót­vægisaðgerða í þágu inn­lendu bænd­anna. Hér gild­ir ekki regla stríðsins að eins dauði sé ann­ars brauð. Finna verður hóf­legt jafn­vægi. Um nauðsyn þess er til dæm­is fjallað í fyrstu land­búnaðar­stefn­unni fyr­ir Ísland sem alþingi samþykkti 1. júní 2023.

Friðsemd loka­dag­anna fyr­ir sum­ar­hlé alþing­is ber með sér að stjórn­ar­andstaðan vilji sigla lygn­an sjó eða telji sig ekki hafa stöðu til ann­ars. Skilj­an­legt er að Kristrún Frosta­dótt­ir, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, kjósi kyrrð þegar hún kem­ur nú að samn­inga­gerð um af­greiðslu þing­mála. Fylgið hef­ur flotið til Sam­fylk­ing­ar­inn­ar með und­ir­straum­um í logn­inu.

Skort­ur á átaka­mál­um um það sem til framtíðar horf­ir ber með sér að ein­beitt­an bar­áttu­vilja skorti í stjórn­ar­sam­starfið. Þar kjósi menn einnig frek­ar að halda sjó en fara í brimskafl­inn. Rík­is­stjórn­in verður þó að virða kraft­inn í þjóðlíf­inu.