EES í 25 ár
Ráðstefnan í dag staðfesti þá skoðun mína að ESA og EFTA-dómstóllinn eru lykilþættir í því að EES-samstarfið dafni.
Í dag sat ég fróðlega, vel heppnaða og vel sótta ráðstefnu á vegum ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, og EFTA-dómstólsins. Ég var einn ræðumanna en ræðu mína má lesa hér .
Ráðstefnan var haldin í Brussel í tilefni af 25 ára afmæli EES-samningsins. Tæplega 400 manns sóttu hana, þar á meðal margir frá Íslandi.
Ég tek undir með íslenskum ræðumönnum á fundinum sem kváðu svo fast að orði að EES-samningurinn væri mikilvægasti samningur sem gerður hefði verið af íslenska lýðveldinu. Ég hefði sett aðildina að NATO í sömu skúffu og varnarsamninginn við Bandaríkin.
Mér er óskiljanlegt að Davíð Oddsson og Jón Baldvin Hannibalsson, forsætisráðherra og utanríkisráðherra, á þeim tíma sem EES-samningurinn var gerður skuli grafa undan honum með því að styðja aðför miðflokksmanna að honum vegna þriðja orkupakkans.
Í panel eftir ræðu mína sátu: Hans-Christian Gabrielsen, leiðtogi norska alþýðusambandsins, Krystyna Kowalik-Banczyk, dómari í almennri deild ESB-dómstólsins, Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, og Hildur Hjörvar, lögfræðingur við Mannréttindadómstól Evrópu,
Pakkinn er ekkert í stóra samhenginu. Hann breytir ekki öðru en því að Orkustofnun fær aukið vald til að tryggja hag neytenda.
Í ályktun alþingis er settur fyrirvari um innleiðingu varðandi sæstreng. Lögfræðingar sem halda því fram að samþykkt pakkans kalli yfir okkur lagningu sæstrengs horfa fram hjá þessum fyrirvara og eru enn meira utangátta en ef einhverjum dytti í hug að krefjast þess með vísan til innleiðingar EES-ákvæða um járnbrautir og vatnaleiðir að íslensk yfirvöld samþykktu járnbraut til Keflavíkur eða siglingaleið um Ölfusá.
Halda þessir lögfræðingar að einhverjir kvarti til ESA vegna þess að ekki séu járnbrautir eða skipaskurðir á Íslandi? Og ESA taki slíka kvörtun til meðferðar vegna brota á reglum um innri markaðinn?
Arnar Þór Jónsson héraðsdómari og aðrir sem lýst hafa lögfræðilegum skoðunum skulda okkur svar við spurningum af þessu tagi. Vissulega verður rétturinn til að kvarta til ESA ekki tekinn af neinum. ESA ber hins vegar ekki nein skylda til að segja skoðun á kvörtunum vegna innri markaðarins.
Ráðstefnan í dag staðfesti þá skoðun mína að ESA og EFTA-dómstóllinn eru lykilþættir í því að EES-samstarfið dafni.