18.1.2023 10:08

Danir deila hart um bænadag

Forsætisráðherrann gaf ekkert eftir í málinu í stefnuræðu sinni í danska þjóðþinginu þriðjudaginn 17. janúar. Ræðst á næstu dögum hve lengi stjórnin heldur í þessa hörðu afstöðu.

Meirihlutastjórnin sem Mette Frederiksen, leiðtogi danskra jafnaðarmanna, myndaði með Venstre og Moderaterne (SVM-stjórnin) myndaði fyrir jól boðaði brottfall kóngsbænadagsins (d. store bededag), það er frídags að vori. Sjá um sögu hans hér.

Ríkisstjórnin ætlar að afmá daginn sem frídag með lögum og afla með því 3,2 milljörðum d. kr. í ríkiskassann á ári – tæplega 70 milljarðar ísl. kr. Er markmið stjórnarinnar að nota féð til að fjármagna danska herinn.

Forsætisráðherrann gaf ekkert eftir í málinu í stefnuræðu sinni í danska þjóðþinginu þriðjudaginn 17. janúar. Ræðst á næstu dögum hve lengi stjórnin heldur í þessa hörðu afstöðu. Andstaðan harðnar einnig.

Um helgina sagði Birthe Rønn Hornbechs sig úr Venstre vegna andstöðu við afhelgun dagsins. Hún hefur verið þingmaður og ráðherra flokksins, í raun meðal helstu og öflugustu andlita hans.

Stjórnmálaskýrendur velta fyrir sér hvaða leið stjórnarandstaðan velji til að stöðva framgang málsins. Er meðal annars staldrað við ákvæði í 42. gr. stjórnarskrárinnar um að þriðjungur þingmanna á þjóðþinginu geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um samþykkt lagafrumvarp enda komi krafan fram innan þriggja virkra daga frá því að þingið samþykkti frumvarpið sem lög.

Ákvæði stjórnarskrárinnar var lögfest árið 1953 sem öryggisventill þegar Landstinget hvarf í Danmörku. Það var talið gegna aðhalds- og eftirlitshlutverki til að forða þjóðinni frá hroðvirkni við lagasetningu.

105613

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, í danska þjóðþinginu.

Einu sinni, árið 1963, hefur þetta ákvæði verið virkjað í Danmörku. Þá fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um ný jarðalög og hafnaði þjóðin þeim. Stjórnmálamenn hafa síðan forðast að beita ákvæðinu vegna hörkunnar sem kann að hlaupa í átök af þessu tagi fyrir utan að þeir vilja hafa þingbundna afgreiðslu lagafrumvarpa í hávegum.

Vegna þess hve minnihlutastjórnir eru tíðar í Danmörku er samráðsferli milli flokka við myndun meirihluta um mál á þinginu vel slípað og minnkar þörf fyrir að beita hótunarvopni á borð við þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú situr hins vegar meirihlutastjórn sem sameinar stóru flokkanna til vinstri og hægri. Að sýna henni í tvo heimana vegna máls eins og þessa er freistandi í augum margra andstæðinga hennar.

Andstaðan við að afhelga kóngsbænadaginn sameinar verkalýðshreyfinguna, sósíalista og þjóðernissinnaða íhaldsmenn. Þá er reiði innan þjóðkirkjunnar vegna þess að ekkert samráð var haft við forystumenn hennar þegar gengið var frá stjórnarsáttmálanum og brottfall stóra bænadagsins ákveðið.

Danskir biskupar sendu yfirlýsingu til kirkjumálaráðherrans og lögðust gegn fækkun helgidaga, þeir skipti máli jafnt fyrir boðun kristinnar trúar og samheldni í þjóðfélaginu. Í samtali við Berlingske viðurkennir Peter Birch, biskup í Helsingør stifti, að boðun trúarinnar ráðist ekki af helgi þessa bænadags. Málið snúist frekar um einangraða afstöðu ríkisstjórnarinnar og hve skynsamlegt sé að sækja mál sem snýr að dönsku þjóðarsálinni á þennan hátt.