Dagur íslenskrar tungu í BBC
Hér á síðunni má kynnast sögu dags íslenskrar tungu frá því að efnt var til hans í fyrsta skipti 16. nóvember 1996 sjá hér .
Þegar fyrsta ræðan var flutt sá enginn fyrir hver framvindan yrði. Allt hefur þróast á góðan og skemmtilegan hátt varðandi daginn. Ferðamannastraumurinn mikli krefst mikillar aðgæslu í þágu tungunnar, meiri en nú er sýnd. Um sama leyti og dagsins var minnst í fyrsta sinn beindist athyglin að því sem þá var kallað tungutækni en nú máltækni, það er að tryggja stöðu íslenskunnar í rafrænni veröld. Að því er nú unnið af mikilli festu.
Dagur íslenskrar tungu vekur athygli erlendis eins og kemur fram í þessu tölvubréfi sem Baldur Símonarson (bsim@hi.is) sendir þeim sem eru á póstlista hans til að fræðast um tónlistarviðburði. Baldur segir í bréfinu sem sent er í dag:
„Ágætu viðtakendur
Til hamingju með dag íslenskrar tungu.
Ég hlusta oft á BBC Radio 3 í snjallsíma, hljómgæði eru góð, nema kannski fyrir píanó. Upp úr kl. 8:30 í morgun hlustaði ég á þáttinn Breakfast í umsjá Petrocs Trelawny, en hann var á dagskrá frá 6:30-9:00. Ég heyrði hann kynna þriðja þátt Sláttu, píanókonert Jórunnar Viðar með Steinunni Birnu Ragnarsdóttur. Hann átti nokkuð erfitt með framburð nafnanna. Undir lokin lék Víkingur Ólafsson etýðu eftir Philips Glass og þá lét Petroc Trelawny þess getið að í dag væri dagur íslenskrar tungu. Þetta kom mér ánægjulega á óvart. En hann lét þess getið að hann notaði þetta tækifæri til þess að kynna íslenska tónlist og flytjendur.
Nokkru eftir að þættinum lauk, fann ég slóð hans á netinu, og þátturinn er aðgengilegur til 15. desember. Unnt er að hlusta á hann í tölvum.
Að loknu fréttayfirliti hófst þátturinn á því að umsjónarmaður gat þess að að nú væri dagur íslenskrar tungu. Síðan var leikin Hughreysting (Consolation) eftir Jón Leifs. Seinna á þættinum heyrðist Ísland ögrum skorið með Voces Masculorum (eftir 37 mín.) og strax á eftir Björt mey og hrein (Spilmenn Rikinis). Slátta kemur eftir 2 tíma og 2 mín. Þættinum lýkur eftir 2 tíma 25 mín. með leik Víkings.
Petroc Trelawny er breskur útvarpsmaður, f. 1971. Hann er ættaður frá Kornbretalandi (Cornwall) og tekur því ekki vel ef sagt er að hann sé enskur, eins og Walesbúar gera, svo að ekki sé minnst á Skota.
Það kemur satt að segja býsna oft fyrir að ég heyri íslenska tónlist eða tónlistarmenn á BBC Radio 3. Hilary Finch er líklega sá gagnrýnandi í Bretlandi sem hefur verið duglegastur við að kynna íslenska tónlist.
Með góðri kveðju,
Baldur Símonarson“