16.11.1996

Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu
16. nóvember 1996

Fyrir réttu ári samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína þess efnis, að framvegis yrði fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar skálds helgaður íslenskri tungu. Í samræmi við það er nú, hinn 16. nóvember, efnt til dags íslenskrar tungu í fyrsta sinn.

Tómas Guðmundsson skáld komst þannig að orði um Jónas Hallgrímsson: “Hin skamma ævi þessa hugljúfa snillings er bundin svo djúpum rótum tilveru hvers manns, er mælir íslenzka tungu, að naumast verður sá maður, sem ekki kann honum nokkur skil, með öllu talinn góður Íslendingur. Í ljóðum Jónasar Hallgrímssonar hefur þjóðin fundið þá ættjörð, sem hún ann heitast, og það er veglegra og vandasamara hlutverk að vera Íslendingur fyrir það, að hann hefur ort og lifað."

Frekari og betri rökstuðning er ekki unnt að finna fyrir þeirri ákvörðun, að tengja dag íslenskrar tungu nafni listaskáldsins góða. Jónas var auk þess í hópi Fjölnismanna, sem vildu hlut móðurmálsins sem mestan og gerðu afdráttarlausar kröfur um þjóðlegt og tigið málfar. Í formála Fjölnis er lögð áhersla á, að tungurnar séu höfuðeinkenni þjóðanna og síðan segir: “Eingin þjóð verður fyrri til enn hún talar mál útaf fyrir sig, og deyi málin deyja líka þjóðirnar, eða verða að annari þjóð."

Þótt enginn dragi í efa réttmæti þess, að fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar sé helgaður móðurmálinu, kann einhverjum að þykja framtakið óþarft. Rök mín fyrir því eru þessi:

Dagur íslenskrar tungu er hátíðisdagur móðurmálsins. Hann er dagur, sem Íslendingar nota til að íhuga sérstöðuna, sem endurspeglast í tungunni. Dagurinn er alls ekki síðasta vígi dauðvona þjóðtungu, heldur merki um hina staðfestu vissu Íslendinga, að þeir eiga sér eigin sögu og menningararfleifð.

Áhugi á því að leggja rækt við tunguna er mjög mikill. Sjást þess víða merki. Eru margir, sem vilja láta að sér kveða í því skyni. Með því að efna til dags íslenskrar tungu ætti að vera unnt að tryggja sameiginlegt átak. Við vitum öll, að margar hendur vinna létt verk.

Áreitið á tunguna er meira en nokkru sinni fyrr. Upplýsingar streyma að okkur eftir nýjum leiðum og engum dettur í hug að stífla þær. Á hinn bóginn er nauðsynlegt að minna á þá staðreynd, að tungumálið er tækið, sem við nýtum til að miðla þekkingu og afla hennar. Hún er öflugasta, þjóðlega verkfæri okkar. Íslenskan mótar handbragð okkar Íslendinga í þekkingarsamfélaginu og hún gefur framlagi okkar til þess sérstakt gildi. Með því að leggja rækt við sérkenni tungunnar styrkjum við hlut okkar í hinu alþjóðlega samfélagi.

Á sama tíma og samstarf þjóða eykst og auðveldara verður að koma skoðunum sínum hindrunarlaust á framfæri við heiminn allan, leggja einstaklingar og þjóðir meiri rækt en áður við uppruna sinn og sögu. Ætti það ekki að koma okkur Íslendingum á óvart, því að við lítum þannig á, að sagan, landið og tungan skapi okkur helst sérstöðu í samfélagi þjóðanna. Töpum við þessum sérkennum, mun ekki líða á löngu, þar til við glötum viljanum til þeirrar baráttu, sem hefur á ótrúlega skömmum tíma breytt íslenska þjóðfélaginu úr bændasamfélagi í háþróað og auðugt þekkingar-, þjónustu- og iðnaðarsamfélag án þess að menningararfleifð okkar hafi lotið í lægra haldi fyrir erlendum menningarstraumum.

Um það er ekki deilt, að þekking á erlendum tungumálum er mikilvægari en áður við nýjar alþjóðlegar aðstæður og með meiri áherslu á arðbær störf byggð á rannsóknum og vísindum. Rækt við móðurmálið er hins vegar forsenda þess, að menn geti tileinkað sér aðrar tungur.

Ég gæti þannig fært mörg fleiri rök fyrir því, að við efnum til dags íslenskrar tungu. Hér hef ég kosið að nefna þau, sem snerta átök þjóðarinnar í samtímanum. Hinu hef ég sleppt, sem lýtur beint að rækt við menningararfinn. Lít ég þannig á, að skyldan við hann sé okkur í blóð borin. Við vitum öll, að án tungunnar hverfur íslenska þjóðin inn í stærra samfélag eins og Fjölnismenn töldu á sínum tíma. Raunar blasir við, að það yrði inn í hinn enskumælandi heim, því að Norður-Atlantshafið, sem umlykur okkur, er menningarlegt yfirráðasvæði hinna öflugu enskumælandi nágranna okkar í austri og vestri.

Ég tel hin fjölbreyttu og ánægjulegu viðbrögð, sem dagur íslenskrar tungu hefur vakið, til marks um, að Íslendingar vilji eindregið leggja rækt við móðurmál sitt. Sá vilji ræður úrslitum um lok þeirrar ferðar, sem við hefjum hér í dag.

Á vegum menntamálaráðuneytisins hefur verið leitast við að undirbúa daginn með því að virkja sem flesta. Dagur íslenskrar tungu er ekki minningardagur heldur tilefni til að gera betur, huga að nýjum leiðum til að vekja áhuga á gildi þess að tala og rita íslensku.

Vil ég á þessari stundu þakka þeim, sem hafa annast skipulag átaksins í tengslum við daginn. Fól ég það starf sérstakri framkvæmdastjórn en í henni sitja Kristján Árnason, prófessor, formaður Íslenskrar málnefndar, Njörður P. Njarðvík prófessor, Ólafur Oddsson menntaskólakennari, Sigmundur Ernir Rúnarsson fréttamaður, og Þorgeir Ólafsson deildarsérfræðingur í menntamálaráðuneytinu, sem jafnframt er formaður stjórnarinnar. Jónmundur Guðmarsson deildarsérfræðingur hefur verið verkefnisstjóri hennar.

Strax og fréttir bárust af því fyrir ári, að ríkisstjórnin hefði fallist á tillögu mína, kom fram víðtækur áhugi á málinu. Meðal þeirra, sem sögðust að eigin frumkvæði vilja leggja málstaðnum lið, var Íslandsbanki, sem veitir fjárstyrk, er ákveðið var, að rynni til einstaklings, sem að mati framkvæmdastjórnar hefði með sérstökum hætti lagt tungunni lið með störfum sínum og annarri viðleitni. Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar verða veitt í fyrsta skipti hér á eftir og vil ég þakka bankanum þennan stórhug og stuðning við framtakið, var frumkvæði hans hvatning öllum, sem að undirbúningnum komu.

Tilefni þessarar samkomu okkar hér í dag er einmitt að heiðra þá, sem hafa lagt tungunni lið. Athöfnin hér í Listasafni Íslands er einungis einn þáttur af mörgum, sem tengjast þessum degi. Fjölbreytnin á að stuðla að því að vekja sem flesta til umhugsunar um móðurmálið. Í dag og undanfarna daga hefur verið bryddað upp á ýmsu, sem tengist tungunni. Raunverulegt átak byggist á þátttöku margra aðila, sem spanna meginsvið þjóðlífsins. Framkvæmdastjórn dagsins lagði höfuðáherslu á frjálsa þátttöku fyrirtækja, stofnana, samtaka og félaga, leit hún raunar fremur á sig sem umsjónarmann en stjórnanda. Vil ég hér með þakka öllum, sem með frumkvæði, áhuga og góðum vilja hafa lagt málinu lið. Vona ég, að strax á fyrsta degi íslenskrar tungu hafi tekist að renna styrkum stoðum undir framtakið á komandi árum.

Hverjum degi þarf að velja sitt þema og tryggja þannig innra samræmi þessa langtímaverkefnis. Slíku þema er ætlað að vera almennt viðmið, einkum í starfi skóla, þótt hverjum og einum hafi verið og sé frjálst að nálgast tilefni dagsins á eigin forsendum. Framkvæmdastjórnin ákvað, að í ár skyldi Jónas Hallgrímsson, líf hans og list, setja svip sinn á daginn og því eru einkunnarorð hans - Móðurmálið mitt góða - frá Jónasi komin.

Góðir áheyrendur!

Matthías Johannessen, skáld og ritstjóri, segir í nýlegri bók sinni Um Jónas, að með Jónasi Hallgrímssyni hefjist nútíminn í íslenskri ljóðagerð. Lífsstarf hans eigi rætur í fornri menningu þjóðarinnar og alþjóðlegum viðhorfum, en ljóðlist hans sé jafnnútímaleg og kvæði Steins Steinars, atómskáldanna og arftaka þeirra, tungutakið án stirðleika eldri skáldskapar og fylgi vandförnu einstigi talmáls og bókmenntalegrar arfleifðar.

Orðrétt segir Matthías: “Jónas lifir með okkur, við eigum hann að; en hann er ekki daglegur gestur í lífi okkar; sjaldnast er vitnað í hann.... En samt er hann eins og einhver goðsöguleg vera á stalli og ef við ímynd hans eða orðstír væri amazt risu menn upp til að mótmæla."

Og Matthías líkir Jónasi við ljóðið, sem er óáleitið og endingargott, til þess sé vitnað í þrengingum, það vaxi inn í vitund okkar, sterkt og lífseigt eins og grasið.

Tómas Guðmundsson sagði veglegra og vandasamara að vera Íslendingur fyrir það, að Jónas Hallgrímsson hefur ort og lifað. Við skulum hvorki víkjast undan vegsemdinni né vandanum.

Megi ljóðið, Jónas og móðurmálið mitt góða vera sterkt og lífseigt eins og grasið í vitund íslensku þjóðarinnar. Stuðli dagur íslenskrar tungu að því, er til nokkurs unnið.