9.5.2017 16:29

Brusselmenn draga í land vegna leka um May

Nú hefur Jean-Claude Juncker játað að það hafi verið „alvarleg mistök“ að leka frásögn af viðræðum sínum við May.

Sunnudaginn 30. apríl birtist löng grein í sunnudagsútgáfu þýska blaðsins Frankfurter Allgemeine Zeitung þar sem sagt var frá kvöldverðarfundi sem Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sat með Theresu May, forsætisráðherra Breta, í Downingstræti 10 miðvikudaginn 26. apríl.

Í grein í Morgunblaðinu föstudaginn 5. maí sagði ég stuttlega frá lekanum í þýska blaðið og viðbrögðum Breta við honum. Greinina má lesa hér.

Nú hefur Jean-Claude Juncker játað að það hafi verið „alvarleg mistök“ að leka frásögn af viðræðum sínum við May. Hann sagði í samtali við þýska Handelsblatt mánudaginn 8. maí. „Sú staðreynd að sagt frá þessu samtali í fjölmiðlum var alvarleg mistök.“ Hann sagði einnig: „Ég á ágætt samband við May. Hún er hörð í horn að taka.“

Áður hafði komið fram að Angelu Merkel Þýskalandskanslara mislíkaði lekinn og Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, hvatti til meiri „þagmælsku“.

Juncker sagði að hann væri ekki ábyrgð á neyðarlegri frásögn af fundi hans og May. Hún brást við með því að saka ESB um að reyna að blanda sér í þingkosningar í Bretlandi og „troða okkur undir“ í Brexit-viðræðunum.

Forsætisráðherrann sakaði evrópska stjórnmálamenn og embættismenn um að sitja á launráðum í von um að hafa „afgerandi áhrif“ á niðurstöðu bresku þingkosninganna í júní með því að senda frá sér „hótanir“ í garð Breta. Skriffinnar ESB hefðu „rangtúlkað“ afstöðu Breta til Brexit og sumir þeirra vildu ekki „viðræðurnar skili árangri“.

Eftir að May hafði hitt Elísabetu drottningu til að ræða þingrofið og kosningarnar við hana sagði forsætisráðherrann:

 „Samningsafstaða Breta í Evrópu hefur verið rangtúlkuð af fjölmiðlum á meginlandinu. Samningsafstaða framkvæmdastjórnar ESB hefur harðnað. Evrópskir stjórnmálamenn og embættismenn hafa haft í hótunum við Breta. Allt er þetta tímasett af ásettu ráði til að hafa áhrif í úrslit þingkosninganna.“

Sambandið súrnaði milli manna á æðstu stöðum vegna lekans úr Downingstræti og ráðamenn ESB telja skynsamlegt að lýsa skömm sinni á lekanum þótt hann sé úr þeirra herbúðum.

Að ímynda sér að Brusselmenn grípi ekki til sömu aðferða að nýju telji þeir að henta sér er barnaskapur. Bretar eru meira á varðbergi en áður.