5.5.2017

Brusselmenn sýna Bretum yfirgang

Morgunblaðsgrein 5. maí 2017

Í gær, fimmtudaginn 4. maí, var opinber útgáfudagur bókar eftir Yanis Varoufakis, fyrrverandi fjármálaráðherra Grikkja. Í bókinni, Adults in the Room, lýsir hann tilraunum sínum til að bjarga efnahag Grikkja eftir hrunið 2008 og viðræðum við fulltrúa Evrópusambandsins, Seðlabanka evrunnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þríeykið svonefnda. Lýsingar Varoufakis sýna hve sterk undirtök Þjóðverja voru. Þeir knúðu meira að segja franska ráðherra til að ganga á bak orða sinna gagnvart Varoufakis. 


Grikkinn varar nú bresku stjórnina við að láta ESB draga sig inn í köngulóarvefinn sem fulltrúar sambandsins spinni jafnan til að veikja stöðu viðmælenda sinna. 

Höfuðráð Varoufakis til Theresu May er að hún forðist eins og heitan eldinn að setjast að samningaborðinu með ESB-mönnum. Geri Bretar það verði þeir dregnir inn í langvaranlegt stríð þar sem þeir verði niðurlægðir hvað eftir annað.  Frá Brussel muni menn nýta sér ólíka afstöðu breskra stjórnmálamanna, etja saman landshlutum og fylkingum.

Varoufakis segir að fulltrúar ESB muni þæfa viðræðurnar. Fyrst kynni þeir kostnaðinn við skilnaðinn og vilji fá hann viðurkenndan áður en þeir tali um framtíðarviðskipti. Til að villa um nýti þeir ESB-hringekjuna svo að bresku fulltrúarnir viti ekki alltaf við hverja þeir eigi að tala.

 „Þegar þið leggið fram hófsama tillögu bregðast þeir við henni með því að stara skilningslausir á ykkur og láta eins og þið hefðuð farið með þjóðsöng Svía fyrir þá. Þetta er varnarleikur þeirra,“ segir Varoufakis við Ambrose Evans-Pritchard á The Telegraph.

Varoufakis er sérfræðingur í „leikjakenningum“ og hann er sannspár fyrstu leikina í tafli Breta við ESB.

Harka af hálfu ESB

Theresa May, forsætisráðherra Breta, boðaði til þingkosninga 8. júní í því skyni að styrkja umboð sitt í úrsagnarviðræðunum við ESB. Það er ESB-mönnum í hag að fylgi May verði sem minnst. Þeir hika ekki við að blanda sér í kosningabaráttuna. Stuðningsmenn May segja það gert með þegjandi samþykki Þjóðverja.

Gamalkunnir bandamenn Brusselmanna koma fram á völlinn í Bretlandi eins og Tony Blair, fyrrverandi leiðtogi Verkamannaflokksins. Orðalag í samningsumboði ESB-manna sem formlega var kynnt miðvikudaginn 3. maí gefur færi á að skapa úlfúð innan Bretlands vegna stöðu Norður-Írlands.

Vilji Bretar styrkja stöðu sína með viðræðum við einstök ESB-ríki stendur þeim ekkert slíkt til boða. Á leiðtogafundi 27 ESB-ríkja laugardaginn 29. apríl var einróma samþykkt að aðeins ESB-fulltrúar mundu ræða við Breta í krafti samningsumboðsins. 

Með umboðinu er hafnað ósk Breta um svonefndar samhliða-viðræður.  Það er að samhliða því sem rætt verði um fjárhagslegt uppgjör og framtíðarstöðu ESB-borgara verði rætt um framtíðartengsl Breta og ESB. Þá er einnig blásið á óskir Breta um að hraða viðræðunum um peningana og réttarstöðu ESB-borgaranna. Fjárhæðin er mikil, allt að 100 milljörðum evra segir The Financial Times. Alls er talið að 3,2 milljónir ESB-borgara séu í Bretlandi og 1,2 Breta í öðrum ESB-ríkjum.

ESB-menn ætla fyrst að ræða um skilnaðar-skilmálanna og síðan um stöðu Bretlands gagnvart ESB. Samkvæmt 50. gr. ESB-sáttmálans eru Bretar í ESB  til 29. mars 2019. Að þeim tíma liðnum er Bretland eins og hvert annað þriðja ríki gagnvart sambandinu. ESB ætlar að koma Bretum í tímaþröng.

Theresa May niðurlægð


Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, og menn hans sátu kvöldverðarfund með Theresu May í London miðvikudaginn 26. apríl. Sunnudaginn 30. apríl birti Frankfurter Allgemeine Sonntagszeitung frásögn sem lekið var um fundinn. 

Lekinn sýnir að ESB-menn beita öllum ráðum gegn Theresu May. Af henni er dregin sú mynd að hún viti ekki sitt rjúkandi ráð, átti sig ekki enn á hvað felist í úrsögninni, Brexit. Hugmyndir hennar um tímamörk og fjárhæðir séu fjarri öllu lagi.

Þýska blaðið segir að Jean-Claude Juncker hafi hringt til Angelu Merkel Þýskalandskanslara morguninn eftir kvöldverðinn og sagt henni að May væri „úti að aka“ og í „öðru sólkerfi“. Merkel hafi tekið mark á honum eins og sjá megi í þingræðu hennar fimmtudaginn 27. apríl þar sem hún vari Breta við að „gera sér grillur” vegna ESB-viðræðnanna.

May sagði Juncker að Bretar þyrftu ekki að greiða neitt skilnaðargjald, slíkt væri hvergi áskilið í ESB-sáttmálum. Juncker svaraði May að ESB væri ekki „golfklúbbur“.  Aðild að ESB gætu menn ekki slitið án frekari greiðsluskuldbindinga. 

Juncker kvaddi May með orðunum: „Ég fer úr Downing stræti með tíu sinnum meiri efasemdir en þegar ég kom hingað.“ Þá hafi ESB-menn metið stöðuna þannig að yfir 50% líkur væru á að ekki tækjust Brexit-samningar.

Theresa May sagði að ekki ætti að taka mark á þessu „Brussel-slúðri“. Það sýndi hins vegar að viðræðurnar yrðu „harðar“. Þá fengi Jean-Claude Juncker að kynnast því að hann ætti í höggi við „fjári erfiða konu“. Breskur álitsgjafi segir þetta ekki lýsa þvermóðsku May heldur hugrekki hennar.

Ranghugmyndir


Theresa May og Bretar ættu nú að skilja hvað bíður þegar sest er að viðræðum við ESB-menn um mál sem þeim er ekki að skapi. 

Augljóst er að lekinn og eftirleikur Brusselmanna hefur eflt baráttuanda meðal úrsagnarsinna í Bretlandi. Einn þeirra sagði í blaðagrein: „Bara ef Marx-bræður væru enn á lífi og gætu gert klassíska gamanmynd um Evrópusambandið þar sem Juncker léki sjálfan sig. Mikið erum við heppin að þessi aulalega ímynd, hrokafullu, eigingjörnu ESB-elítunnar kemur ekki til með að hafa neitt að gera með framtíðarhorfur okkar eigin, kæra lands.“ 

Telji Brusselmenn að þeir styrki stöðu ESB með því að sýna Bretum þvermóðsku eru það ranghugmyndir. Samhliða því sem þeir efla andstöðu við sig meðal Breta grafa þeir undan stuðningi við miðstjórnarvaldið í Brussel innan allra ESB-ríkjanna. May vill ná fram þjóðarvilja Breta. Að traðka á honum verður Brusselmönnum hvergi til framdráttar.

Ráðið til Theresu May frá Yanis Varoufakis er einfalt: Bretar sæki tafarlaust um aðild að evrópska efnahagssvæðinu með ósk um að fá þar sjö ára umþóttunartíma. „Þeir gætu ekki neitað þessu. Þeir hefðu ekkert til að standa á,“ segir hann um Brusselmenn.

Undir þessa hvatningu skal tekið. Hún er skynsamlegasta leið Breta í stöðunni.