31.10.2019 10:48

Bretland: einsflokksstjórn á undanhaldi

Frá árinu 1935 hefur engin ríkisstjórn í Bretlandi stuðst við meirihluta kjósenda. Þegar flokkshollusta minnkar og kjósendur flakka á milli fleiri flokka en áður hefur það áhrif á kosningaúrslitin.

Boris Johnson var kjörinn leiðtogi Íhaldsflokksins og þar með forsætisráðherra 23. júlí 2019. Þremur dögum síðar sagði í grein minni í Morgunblaðinu:

„Michael Gove er áfram ráðherra. Þeir Johnson börðust hlið við hlið fyrir brexit en síðan rofnaði pólitískt bandalag þeirra. Gove undirbýr nú úrsögn úr ESB án samnings. Við hlið sína hafa Johnson og Gove nú Dominic Cummings, heilann á bakvið sigur útgöngusinna þvert á allar spár í brexit-atkvæðagreiðslunni árið 2016.

Snúi Boris Johnson málum sér í vil á 98 dögum og leiði Breta úr ESB bregst pólitíska náðargáfan honum ekki. Hann hefur lagt allt undir í þágu brexit. Þunginn sem hann leggur á brexit án samnings kann að breyta afstöðu Brussel-manna. Liðsskipan ráðherra og ráðgjafa gefur til kynna að kosningar séu í kortunum. Það er öflugasta vopnið til að hreyfa við þingmönnum.“

Þetta hefur gengið eftir. Þunginn sem Boris Johnson lagði á 31. október og úrsögn þá hvað sem það kostaði hreyfði við Brusselmönnum. Hann þokaði brexit áfram í þinginu en þingið setti honum skorður varðandi dagsetninguna. Þá lá fyrir að boða til kosninga og þingið samþykkti það að lokum með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða, kosið verður til þings 12. desember.

Boris Johnson er legið á hálsi að standa ekki við stóru orðin um úrsögn 31. október. Hann fékk ekki umboð þingsins til að stíga það skref. Hann valdi eina kostinn í stöðunni, þann sem alltaf var í kortunum og Íhaldsflokkurinn og ríkisstjórnin hafa nefnt allt frá því að Boris Johnson varð flokksleiðtogi.

Martin Kettle, dálkahöfundur mið-vinstra blaðsins The Guardian, birtir í dag grein þar sem hann minnir á að á 30 árum fram til 2010 hafi allar kosningar í Bretlandi leitt til þess að einn flokkur fékk hreinan meirihluta þingmanna. Á níu árum sem síðan eru liðin hafa kosningaúrslit tvisvar skilað Bretum þingi án hreins meirihluta eins flokks. Í fyrra tilvikinu myndaði íhaldsmaðurinn David Cameron stjórn með aðild frjálsra demókrata, í seinna tilvikinu studdist flokkssystir hans Theresa May við DUP-flokkinn á Norður-Írlandi. Þótt enginn geti sagt fyrir um úrslitin 12. desember bendir margt til þess að þing án meirihlutaflokks komi saman eftir þær.

British_election_creditshutterstockFlokkum hefur fjölgað í Bretlandi, að minnsta kosti sjö flokkar fá hugsanlega menn kjörna auk þriggja á Norður-Írlandi. „Við búum í Bretlandi þar sem losnað hefur um pólitíska hollustu sem er léttvægari en áður,“ segir Kettle. Þetta á ekki aðeins við um Bretland eins og íslenskir stjórnmálamenn hafa kynnst.

Kettle segir að þessi staðreynd birtist ekki í málflutningi stóru flokkanna. Boris Johnson og Jeremy Corbyn láti eins og um einvígi sé að ræða. Þessi afneitun mótist af óskhyggju.

Frá árinu 1935 hefur engin ríkisstjórn í Bretlandi stuðst við meirihluta kjósenda. Þegar flokkshollusta minnkar og kjósendur flakka á milli fleiri flokka en áður hefur það áhrif á kosningaúrslitin. Ekki batnar staðan fyrir stjórnmálamennina þegar árekstur verður milli þjóðarviljans eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslu og þingviljans eins og hann birtist í afstöðu kjörinna fulltrúa fólksins á þingi. Að þessu leyti brexit leitt til straumhvarfa