3.9.2021 8:47

Botninn í fjölmiðlun

Formaður blaðamannafélagsins bindur allar vonir við að stjórnmálaflokkarnir átti sig á að þeir verði að taka fjölmiðlana upp á sína arma.

Í dag, 3. september, er Styrmir Gunnarsson (83 ára) borinn til grafar. Hann lét sig þjóðmál miklu skipta í 60 ár og síðasta dag sinn las hann próförk að pistli í Morgunblaðinu sem birtist þegar hann var allur. Í blaðinu er hans minnst með 12 blaðsíðna myndskreyttu sérblaði og þar segir meðal annars á forsíððu:

„Styrmir veiktist af heilaslagi 2. febrúar sl. [2021] og glímdi eftir það við helftarlömun. Fleiri flókin veikindi fylgdu í kjölfarið. Hans eindregna ósk var að fara heim, og það tókst með stuðningi góðs fólks í byrjun ágúst. Við tóku bjartir dagar við skrif og samveru með fjölskyldu og vinum með útsýni út á sjó og sól. En það fór svo að húmaði að og Styrmir lést um hádegisbil 20. ágúst. Þá hafði hann fyrr um morguninn lokið við að lesa próförk af síðasta pistli sínum í Morgunblaðið og senda hann aftur til blaðsins.“

Hér má lesa minningargrein sem ég ritaði í blaðið.

Það er minni reisn yfir íslenskum fjölmiðlum núna en á blómaskeiði Morgunblaðsins í ritstjóratíð Matthíasar og Styrmis.

Einhvern daginn núna var rætt við Sigríði Dögg Auðunsdóttur, formann Blaðamannafélags Íslands, á rás 1 í ríkisútvarpinu og lýsti hún þeirri trú sinni að staða íslenskra fjölmiðla gæti ekki versnað „Ég held að við séum komin á botninn“ er haft eftir henni á ruv.is.

CIMA-Cover-Banner-no-words-New-Book-1Formaður blaðamannafélagsins bindur allar vonir við að stjórnmálaflokkarnir átti sig á að þeir verði að taka fjölmiðlana upp á sína arma og skilja að í stöðunni sé „bara spurning um það hvort þú viljir fjölmiðla sem eru ríkisstyrktir eða enga fjölmiðla“. Það verði að halda fjölmiðlum úti með skattfé almennings, þetta sé ekki spurning um hvort það skuli gert heldur hve djúpt eigi að fara í vasa skattgreiðenda. Þá segir á ruv.is:

„Hún [Sigríður Dögg] segir að enginn fótur sé fyrir því að vegið verði að sjálfstæði fjölmiðla með því að styrkja þá með þessum hætti. „Um leið og þú útskýrir fyrir fólki að RÚV er miðill sem er 100% ríkisstyrktur og þar er sú fréttastofa sem veitir stjórnvöldum mest aðhald. Það hefur sýnt sig í fjölmiðlaumræðu síðustu ára.““

Þetta er ömurleg framtíðarsýn. Hvers vegna leggur formaðurinn ekki til að skrefið verði stigið til fulls og ríkið haldi eitt úti fjölmiðli? Sé fyrir hendi 100% ríkisrekin, trúverðug og gagnrýnin fréttastofa hvers vegna þá að reka aðra eða aðrar á kostnað skattgreiðenda?

Færa má fyrir því rök að brotalömin í íslenskri fjölmiðlun felist í aðhaldsleysi í fjárútlátum til ríkisútvarpsins. Það hefur skapað þessu opinbera hlutafélagi einokunarstöðu á kostnað annarra fjölmiðla sem hafa síminnkandi burði til að standast samkeppnina við opinbera hlutafélagið.

Hvarvetna átta menn sig á að hæfilegt jafnvægi milli opinberra aðila og einkaaðila er nauðsynlegt. Þetta jafnvægi er ekki fyrir hendi í íslenska heilbrigðiskerfinu og ekki heldur í fjölmiðlarekstri. Á báðum sviðum er kreppa sem má leysa með auknu svigrúmi einkaaðila og minni hlut ríkisins án þess að einblína á skattgreiðendur sem bjargvætti.