3.9.2021

Styrmir Gunnarsson - minning

Styrmir Gunnarsson var einstaklega kraftmikill, öflugur og hugsjónaríkur ritstjóri Morgunblaðsins. Hann naut trausts fólks í öllum greinum þjóðlífsins. Hann sýndi öllum þann trúnað sem er einkenni góðra blaðamanna. Hann var kröfuharður við sjálfan sig og einstaklega agaður. Frá morgni og þar til blaðið fór í prentun síðla kvölds var hann vakinn og sofinn yfir öflun frétta, vinnslu þeirra og frágangi.

Þegar Matthías Johannessen og Styrmir ritstýrðu Morgunblaðinu af miklum metnaði var rekstur blaðsins arðbær og gaf ritstjórum svigrúm til að kosta nokkru til við öflun og vinnslu frétta. Sé blaðinu frá þessum árum flett má sjá að efnistök voru önnur og dýpri en nú tíðkast. Áskrift að blaðinu var mikil. Ekki þurfti að haga forsíðu eða fréttavali og efnistökum á þann veg að höfðaði til kaupenda með uppslætti um eitthvað sem þótti vænlegt til að auka söluna.

Styrmir tók virkan þátt í að breytta starfsháttum á ritstjórninni með nýrri tækni. Þar var Morgunblaðið í fararbroddi og einnig með netútgáfunni mbl.is sem ávann sér fljótt vinsælda og mikillar útbreiðslu.

Alúð við innra starf á ritstjórn Morgunblaðsins gaf því styrk og trúverðugleika út á við. Rödd blaðsins var áhrifamikil í samfélaginu hvort sem litið er til stjórnmála, menningarmála eða annarra mikilvægra grunnstoða góðs og heilbrigðs samfélags.

StyrHqdefaultStyrmir Gunnarsson

Áður fyrr var talað um Morgunblaðsmenn, Tímamenn og Þjóðviljamenn í umræðum um stuðning kjósenda við Sjálfstæðisflokkinn, Framsóknarflokkinn og Sósíalistaflokkinn/Alþýðubandalagið.

Í ritstjóratíð Styrmis voru dregin skil á milli Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins. Sjálfstæði blaðsins kallaði á meiri íhugun og rökstuðning við ritun ritstjórnargreina en þegar þær snerust um að túlka flokkslínu á jákvæðan hátt. Sjálfstæðið kallaði einnig á festu gagnvart stjórnmálamönnum sem töldu sjálfsagt að blaðið túlkaði stefnu þeirra og störf gagnrýnislaust. Þarna reyndi oft á viðnámsþrótt Styrmis sem hélt málstað blaðsins fram af festu. Hann lét þó aldrei af hollustu sinni við sjálfstæðisstefnuna. Viðhorf hans markaðist mjög af stefnu og starfsháttum Sjálfstæðisflokksins á viðreisnarárum sjöunda áratugarins. Blasti það við öllum sem lásu greinar hans allt til lokadags.

Síðasta samstarfsverkefni okkar Styrmis snerist um útgáfu vefsíðunnar Evrópuvaktarinnar. Til hennar stofnuðum við, báðir komnir á eftirlaun, til að berjast gegn áformum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Styrmir taldi baráttunni ekki lokið árið 2015 þar sem alþingi hefði ekki samþykkt afturköllun ESB-umsóknarinnar. Hann beitti sér síðan fyrir að stofnað var félag innan Sjálfstæðisflokksins til að árétta nauðsyn varðstöðunnar um fullveldi þjóðarinnar sem var honum hjartans mál. Hann var síður en svo talsmaður einangrunar Íslands heldur vildi að við stæðum í báðar fætur í alþjóðasamstarfi.

Yfir öllum samskiptum við Styrmi er mikil birta. Hann var ljúfur og góður vinur. Umhyggjusamur með viðkvæma lund.

Blessuð sé minning Styrmis Gunnarssonar.