13.12.2019 10:40

Boris vinnur stórsigur

Nú vann Íhaldsflokkurinn undir Boris Johnsons forystu mesta meirihluta á þingi frá 1987 þegar Margaret Thatcher leiddi flokkinn.

Eftir að Boris Johnson varð forsætisráðherra í júlí 2019 skrifaði ég grein í Morgunblaðið 26. júlí 2019 undir fyrirsögninni: Boris á brexit-bylgjunni:

„Michael Gove er áfram ráðherra. Þeir Johnson börðust hlið við hlið fyrir brexit en síðan rofnaði pólitískt bandalag þeirra. Gove undirbýr nú úrsögn úr ESB án samnings. Við hlið sína hafa Johnson og Gove nú Dominic Cummings, heilann á bakvið sigur útgöngusinna þvert á allar spár í brexit-atkvæðagreiðslunni árið 2016.

Snúi Boris Johnson málum sér í vil á 98 dögum og leiði Breta úr ESB bregst pólitíska náðargáfan honum ekki. Hann hefur lagt allt undir í þágu brexit. Þunginn sem hann leggur á brexit án samnings kann að breyta afstöðu Brussel-manna. Liðsskipan ráðherra og ráðgjafa gefur til kynna að kosningar séu í kortunum. Það er öflugasta vopnið til að hreyfa við þingmönnum.“

Boris Johnson hefur tekist það sem margir töldu óframkvæmanlegt. Hann náði nýjum viðskilnaðarsamningi við ESB. Eftir að þingmenn höfnuðu honum boðaði hann til þingkosninga sem fram fóru í gær, 12. desember. Í þeim vann Íhaldsflokkurinn undir hans forystu mesta meirihluta á þingi frá 1987 þegar Margaret Thatcher leiddi flokkinn.

IhLDÍhaldsmenn fagna sigri á kosninganótt.


Íhaldsflokkurinn fær 365 þingmenn, 66 fleiri en árið 2017, 43,6% atkvæða (+1,2 frá 2017).

Verkamannaflokkurinn fær 203 þingmenn, tapaði alls 42, hlaut 33,6% (-7,8 frá 2017).

Skoski þjóðarflokkurinn (SNP) fékk 48 þingmenn, 13 fleiri en 2017, og 3,6% atkvæða (+0,8 frá 2017).

Frjálslyndi flokkurinn fékk 11 þingmenn, tapaði 10, þar með leiðtoga sínum Jo Swinson. Flokkurinn fékk 11,6% (+ 4,6 frá 2017).

Verkamannaflokkurinn er í sárum. Hann hefur tapað fernum kosningum í röð og nú fær Jeremy Corbyn náðarhögg sem leiðtogi. Niðurstaða allra stjórnmálaskýrenda er að hvarvetna þar sem frambjóðendur Verkamannaflokksins og annarra flokka ræddu við kjósendur í dyragættinni eins og gert er í breskri kosningabaráttu hafi þeim verið bent á að þeir vildu ekki Corbyn-ríkisstjórn.

Þegar litið er yfir kort af Bretlandi sem sýnir hvernig kjósendur skipa sér á bak við flokka sést að Verkamannaflokkurinn fær mikið fylgi í London og nágrenni. Þessir kjósendur vildu ekki fara úr ESB og þeir stóðu í gær að baki Jeremy Corbyn og flokki hans. Fylgið hrundi hins vegar af Verkamannaflokknum í Norður-Englandi þar sem hann hefur árum saman átt öruggu fylgi að að fagna.

Það segir mikla sögu um breska kosningakerfið að þótt fylgi Íhaldsflokksins aukist ekki nema um 1 stig frá 2017 fjölgar þingmönnum hans um 47. Þetta má rekja til „innrásar“ flokksins og sigra í kjördæmum þar sem meirihlutinn studdi áður Verkamannaflokkinn.