Atlaga Stundarinnar að opnum umræðum
Þarna var því ekki aðeins um samspil við úrvinnslu gagna að ræða heldur samhæfða fjölmiðlaaðgerð af nýju tagi sem vert er að veita athygli.
Hér var í gær vikið að þeim eftirleik sem orðið hefur vegna nýjustu atlögunni að Samherja. Hún skekur innviði fyrirtækisins og leiðir til rannsókna hér en ekki síst í Namibíu þar sem yfirvöld hafa þegar gripið til aðgerða gegn einstaklingum sem koma við sögu í málinu.
Þeir sem hafa forystu um að ræða málið í
fjölmiðlum hér eru annars vegar á fréttastofu ríkisútvarpsins sem heldur úti þættinum
Kveik og hins vegar á vefsíðunni Stundinni. Tilgangur fréttastofunnar er að kveikja umræður og koma
þannig hreyfingu á hluti sem hún telur ámælisverða og hefur það tekist mjög vel
í þessu Namibíu-Samherjamáli. Opinberir rannsóknaraðilar eru með málið í sínum
höndum og ferst vafalaust vel úr hendi að leiða það til lykta. Á Stundinni reka menn trippin á sinn hátt.
Sú hlið málsins sem hér hefur verið til umræðu snýr að því hvernig staðið er að meðferð málsins í fjölmiðlum. Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vakti réttilega máls á því á FB laugardaginn 23. nóvember að fréttastofa ríkisútvarpsins lét sem um lögbrot væri að ræða þegar sagt var frá vopnaflugi Atlanta til Sádi Arabíu, mansali á kínverskum veitingastað á Akureyri, gjaldeyrisbroti Samherja og skattalagabrotum ráðamanna tengdum Vafningi og Wintris. „Að vísu hefur fréttastofa RUV ekki verið farsæll uppljóstrari og reyndust þessi mál á sandi byggð. Bundnar eru þó talsverðar vonir við að nýjustu uppljóstranir um skattalagabrot, peningaþvætti og mútur eigi einhverja stoð í raunveruleikanum,“ segir Brynjar.
Í Namibíu-Samherjamálinu var um samspil þriggja aðila að ræða áður en fréttir birtust: WikiLeaks, Stundarinnar og Kveiks. Kristinn Hrafnsson, ritstjóri WikiLeaks, lét ekki sitt eftir liggja að hvetja til aðgerða gegn Samherja hér á landi. Vefsíðan Stundin sendi frá sér prentað blað sama þriðjudagskvöld og Kveikur var með Namibíu-Samherjamálið í sjónvarpinu. Þarna var því ekki aðeins um samspil við úrvinnslu gagna að ræða heldur samhæfða fjölmiðlaaðgerð af nýju tagi sem vert er að veita athygli.
Vegna þess sem hér var sagt miðvikudaginn 13. nóvember, daginn eftir sjónvarpsþáttinn, hefur verið vegið að mér úr ýmsum áttum og Jón Trausti Reynisson, ritstjóri Stundarinnar, birtir til dæmis mynd af mér á vefsíðunni 22. nóvember 2019 með fólki sem hann segir að hafi tekið sig til „við að veita Samherja skjól og gott veður“.
Dylgjur af þessu tagi eru gjarnan liður í fjölmiðlabáli af þessu tagi. Upphafsmennirnir standast ekki þá freistingu að búa sér til óvini í von um að upphefja sjálfa sig enn meira á þeirra kostnað. Að vera settur í þetta ranga ljós er eins og að fá á sig slettu úr drullupolli þegar maður á sér einskis ills von á gangstétt við umferðargötu.
Mér sýnist Samherjamenn hafa fulla burði til að takast á við þessi mál án minnar aðstoðar. Ég andmæli hins vegar þessum tilraunum til að þagga niður í þeim sem skoða fjölmiðlavinnubrögðin. Grein Jóns Trausta varð til þess að ég kynnti mér aðeins eignarhald Stundarinnar og þá sem standa þar að baki. Sé ég ekki betur en í þeim hópi séu útgerðarfyrirtæki sem eiga hagsmuna að gæta víða um heim meðal annars í Afríku. Þarna er kannski efni í nýjan Kveiks-þátt?