Nýr fjölmiðlastormur um Samherja
Þeir telja sig hafa afhjúpað stórfellt hneyksli og spillingu í Namibíu vegna viðskipta Samherja. Umræðurnar eru á frumstigi.
Enn einu sinni er skollinn á fjölmiðlastormur vegna atlögu fréttastofu ríkisútvarpsins að stórfyrirtækinu Samherja. Nú vegna viðskipta í Namibíu og fiskveiða í lögsögu landsins. Á sínum tíma var þróunaraðstoð Íslendinga beint í ríkum mæli að Namibíu. Sneri hún meðal annars að fiskveiðum, stjórn þeirra og útgerð. Eins og almennt tíðkast urðu þá til viðskiptatækifæri fyrir fyrirtæki í landinu sem aðstoðina veitti. Nýtti Samherji sér þau með þeim afleiðingum sem þrír aðilar keppast nú við að lýsa á dramatískan hátt, Kveikur, fréttaskýringaþáttur ríkisútvarpsins, vefsíðan Stundin og WikiLeaks.
Þeir telja sig hafa afhjúpað stórfellt hneyksli og spillingu í Namibíu vegna viðskipta Samherja. Umræðurnar eru á frumstigi. Fréttamaður ríkisútvarpsins vildi t.d. fá það alveg á hreint í samtali við Loga Einarsson, formann Samfylkingarinnar, í fréttum klukkan 09.00 að morgni 13. nóvember að hann mundi taka málið upp á alþingi. Logi sagði þetta „stórpólitískt mál“ sem yrði að ræða á alþingi og hann bætti við:
„Þetta auðvitað beinir sjónum að okkar kerfi
og auðlindum og mikilvægi þess að við fáum auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Við
þorum að taka umræðuna um fiskveiðistjórnunarkerfið okkar og umgengni um aðrar
auðlindir. Það blasir við að þetta er stórpólítískt mál í öllum skilningi þess
orðs.“
Þorsteinn Már Baldvinsson og Jóhannes Stefánsson.
Fréttamaður spurði Loga ekki nánar út í þessa furðulegu yfirlýsingu hans. Hvernig getur frásögn ríkisútvarpsins sem ætlað er að sýna fram á spillingu í Namibíu snert stjórnarskrá Íslands og auðlindaákvæði í henni? Að tengja ástandið í Namibíu fiskveiðistjórnunarkerfinu á Íslandi er of langsótt.
Drífa Snædal, forseti ASÍ, sá rautt eftir Kveik og útkomu sérblaðs Stundarinnar í tilefni sjónvarpsþáttarins að kvöldi þriðjudags 12. nóvember. Drífa sagði á Facebook að þarna hefði birst mynd af „heimsvaldasinnuðum, gráðugum arðræningjum sem einskis svífast. Körlum sem þykjast samfélagslega ábyrgir hér á landi en gæti ekki verið meira sama um aðstæður þjóðar suður í Afríku. Körlum sem komu í kjölfar vel heppnaðar þróunarsamvinnu og ryksuguðu upp auðlindir í eigin þágu, höguðu sér eins og svívirðilegustu nýlenduherrar. Þróunarsamvinnunni var hætt vegna hrunsins sem varð einmitt vegna svona hegðunar. Ógeðslegt!“
Þarna er ekki skafið utan af hlutunum og vegið harkalega að körlum sérstaklega og einu öflugasta fyrirtæki landsins.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir að fyrirtækið kannist ekki við vinnubrögðin sem Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður félagsins í Namibíu, hafi lýst í Kveik. Það séu mikil vonbrigði að komast að því að Jóhannes hafi tekið þátt í gagnrýnisverðum viðskiptaháttum.
Kristinn Hrafnsson, ritstjóri WikiLeaks, brást við þessum orðum Þorsteins í ríkisútvarpinu að morgni 13. nóvember og í fréttum klukkan 09.00 var eftir Kristni haft að gerðar hefðu „verið tilraunir til að sverta mannorð Jóhannesar Stefánssonar, fyrrverandi verkefnastjóra Samherja í Namibíu“. Hann hafi „haft mjög takmarkaða prókúru til að millifærsla af reikningum Samherja. Þær hafi verið framkvæmdar af stjórnendum Samherja á Íslandi“.
Að ritstjóri WikiLeaks blandi sér í útleggingar á skjölum sem birtast á vefsíðunni sem hann stjórnar kann að vera regla á þeim bæ. Boðar Kristinn að eftir nokkrar vikur muni sjónvarpsstöðin al Jazeera birta „seinni hluta“ málsins.
Fjölmiðlastormurinn er rétt að byrja og enginn veit enn hvern hann fellir. Síðast þegar Samherji og fréttastofa ríkisútvarpsins lentu í sambærilegum átökum sigraði Samherji að lokum eftir margra ára stríð. Reynslan sýnir að rétt sé að spyrja að leikslokum.