4.1.2019 10:20

Árétting vegna EES-umræðu

Stjórnarskráin ekki staðið í vegi fyrir aðild Íslands að EES eða þeim breytingum sem orðið hafa á samstarfinu í 25 ár.

Á liðnu ári urðu til hér samtökin Frjálst land sen vinna gegn aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu. Sigurbjörn Svavarsson er formaður þeirra og ritar hann grein í Morgunblaðið í dag í tilefni af grein minni í blaðinu fyrir viku, sem lesa má hér.

Sigurbjörn segir að ég sé „formaður endurskoðunarnefndar um EES-samninginn“. Hópurinn vinnur ekki að endurskoðun samningsins heldur leggur mat á kosti og galla þess að eiga aðild að EES. Nú um áramótin voru einmitt 25 ár liðin frá upphafi aðildarinnar.

Þá segir hann mig ganga „svo langt að leggja að jöfnu þingræðisregluna og EES-samninginn sem stjórnskipunarreglu“. Þingræði á Íslandi er reist á stjórnskipunarvenju og einnig að dómstólar skeri úr um hvort lög standist stjórnarskrá eða ekki. Um þessar venjur er ekki deilt. Að í grein minni sé tekið af skarið um að aðildin að EES hafi getið af sér stjórnskipunarvenju er rangt hjá Sigurbirni. Ég bendi þvert á móti á skort á samstöðu meðal fræðimanna um þetta mál. Þá er eðlilegt að aðrir kostir séu skoðaðir, til dæmis sá að taka mið af staðreyndum og heimila hreinlega aðild að EES í stjórnarskránni.

Eðli málsins samkvæmt getur formaður félags sem vill Ísland úr EES ekki fallist á slíka tillögu.

Esa.width-720Sigurbjörn segir að með grein minni hafi ég „ætlað að draga fjöður yfir gagnrýni á að þróun til miðstýringar í ESB sé verið að yfirfæra á Ísland í gegnum EES-samninginn, og í stað þess að ræða og takast á við þá óheillaþróun er stjórnarskránni kennt um að vera fyrir EES-samningnum“.

Í fyrsta lagi hefur stjórnarskráin ekki staðið í vegi fyrir aðild Íslands að EES eða þeim breytingum sem orðið hafa á samstarfinu í 25 ár. Úr öllum álitaefnum hefur verið leyst á grundvelli lögfræðilegra álitsgerða.

Í öðru lagi snertir miðstýring innan ESB ekki EES-samninginn á annan hátt en þann að taka verður á nýjum álitaefnum og leysa úr þeim innan ramma samningsins. Að það sé aukin miðstýring að vald sé fært frá framkvæmdastjórn ESB til sérgreindra stofnana með afmarkað og skýrt eftirlitsvald vegna framkvæmdar laga og reglna liggur ekki í augum uppi.

Í þriðja lagi hefur EES-aðildin skapað „innlenda hagsmuni“ þar sem hún er þjóðinni hagkvæm. Reglur sem leiddar eru í lög til að standa við samninginn leiða ekki allar þetta af sér, fjölmargar liggja óvirkar í lagasafninu. Að líta á þær sem ógn við þjóðarhagsmuni er alrangt.