28.12.2018

Fullveldið, stjórnarskráin og alþjóðasamstarf

Morgunblaðið, 28. desember 2018

Nú rennur á enda árið 2018 þegar þess var minnst að Ísland hefur verið fullvalda ríki í eina öld. Tímamótunum var fagnað á ýmsan hátt.

Til dæmis voru fluttir fjórir fyrirlestrar í Hlöðunni að Kvoslæk í Fljótshlíð undir samheitinu Fullveldið og hlíðin fagra: Sveinbjörn Rafnsson, fyrrv. prófessor talaði um upphaf sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, Finn Magnússon og Bjarna Thorarensen; Sveinn Yngvi Egilsson prófessor um vinagleði: félagslega þýðingu bókmennta í þjóðernislegu samhengi; Marion Lerner dósent um menntun og vísindi í þágu þjóðar, Tómas Sæmundsson og ferðabók hans og  Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur um Tómas Sæmundsson, sjálfstæðisbaráttuna og fullveldið 1918.

Sameiginlegt með öllum þessum fyrirlestrum var að þá mátti tengja þjóðmenningunni, Fjölnismönnum og þar með þeim þeirra sem í nokkur ár var prestur að Breiðabólstað í Fljótshlíð, sr. Tómasi Sæmundssyni (1807-1841).

Hann fór í mennta- og menningarferð um Evrópu og vildi að henni lokinni stuðla að því að Íslendingar tækju sér margt til fyrirmyndar sem hann sá og heyrði. Efnahagsframfarir yrðu ekki án þess að opna þjóðfélagið fyrir nýjum straumum, betri menntun og nútímalegum vinnubrögðum.

Alþjóðasamstarf

Stjórnarskráin tengir okkur við sjálfstæðisbaráttuna á 19. öld. Hún er gjöf frá Danakonungi árið 1874 og stendur enn á þeim grunni. Árið 1920 kom stjórnarskrá fullvalda Íslands til sögunnar og síðan lýðveldisins Íslands árið 1944. Stjórnskipuleg samfella nær þannig allt aftur til ársins 1874. Stjórnarskráin er hluti þjóðmenningar okkar þótt umræður um hana séu einkum á lögfræðilegum grunni.

Þingræðisreglan er reist á stjórnarskránni frá 1874 þótt hún sé hvergi skráð í henni. Hún er stjórnarskrárvenja, reglan varð virk hér árið 1904 þegar Hannes Hafstein varð ráðherra heimastjórnarinnar. Vegna 100 ára afmælis heimastjórnarinnar stóð alþingi að ritun og útgáfu fræðirits um þingræði á Íslandi.

Í tilefni af 100 ára afmæli fullveldisins beitti alþingi sér fyrir útgáfu fræðirits um „inntak fullveldisréttar er Ísland öðlaðist að þjóðarétti árið 1918“.  Gaf Sögufélag það út undir heitinu: Frjálst og fullvalda ríki, Ísland 1918-2018. Þar er rætt um fullveldið, breytingar á alþjóðavettvangi og sívaxandi samvinnu þjóða.

Greta_Gunnarsdottir-UNSCFulltrúi Íslands kynnir afstöðu stjórnvalda á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Þjóðabandalagið kom til sögunnar eftir fyrri heimsstyrjöldina þegar Íslendingar voru orðnir fullvalda. Þrátt fyrir aðstoð Dana við framkvæmd utanríkismála Íslands fylgdu Danir og Íslendingar ólíkri utanríkisstefnu. Danir voru til dæmis aðilar að Þjóðabandalaginu en Íslendingar ekki. Þótt Þjóðabandalagið bannfærði Ítali eftir innrás þeirra í Eþíópíu árið 1935 seldu Íslendingar fisk til Ítalíu.

Eftir síðari heimsstyrjöldina varð töf á aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum af því að hún þótti brjóta gegn hlutleysisstefnu Íslendinga. Stofnaðildin að NATO árið 1949 innsiglaði endanlegt brotthvarf frá hlutleysi.

Árið 1950 varð Ísland aðili að Evrópuráðinu, 1952 að Norðurlandaráði, 1970 að EFTA, Fríverslunarsamtökum Evrópu, 1973 að ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, og árið 1994 að EES, evrópska efnahagssvæðinu svo að nokkuð sé nefnt.

Þá beittu Íslendingar sé mjög fyrir gerð hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kom til sögunnar árið 1982. Hann tryggði þjóðinni forræði yfir 200 sjómílna efnahagslögsögunni en lagði einnig á hana skyldur.

Allar ákvarðanir stjórnvalda um þessi efni hafa verið teknar innan ramma stjórnarskrárinnar. Árið 1874 sá enginn sá þessa þróun fyrir og eru engin ákvæði um aðild að alþjóðastofnunum í stjórnarskránni. Framkvæmdarvaldshöfum er veitt heimild til að semja við önnur ríki og verða almennt að leita samþykkis alþingis við slíkum samningum.

Í desember 2005 vann sérfræðinganefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar skýrslu um þróun hennar að beiðni nefndar sem vann þá að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þar segir: „... er rétt að geta þess að enn sem komið er hefur aðild Íslands að milliríkjasamningi ekki kallað á breytingar á stjórnarskránni þótt aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið hafi vakið upp ýmsar umræður um þau efni.“

Þetta var sagt árið 2005, 11 árum eftir aðildina að EES. Hafði þá verið fjallað um ýmis stjórnskipuleg álitamál tengd aðildinni, til dæmis þátttökuna í Schengen-samstarfinu árið 2001.

Endalausar umræður

Flumbrugangurinn í stjórnarskrármálinu undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur og stjórnar hennar á árunum 2009 til 2013 hleypti illu blóði í allar umræður um breytingar á stjórnarskránni. Sömu sögu er að segja um æðið sem rann á meirihluta alþingis um nauðsyn aðildar að ESB. Enn hefur ekki tekist að reka á brott illu andana sem hlupu í stjórnmálalífið vegna þessa. Þeir eru meðal þess versta sem hrunið leiddi af sér.

Tilraun til sátta um afgreiðslu stjórnarskrárbreytinga var gerð með skipun nefndar undir árslok 2013 eftir að stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks settist að völdum. Þá fór enn ein stjórnarskrárnefndin af stað og setti sér að ræða fjögur mál: framsal valdheimilda, þjóðareign á náttúruauðlindum, þjóðaratkvæðagreiðslur og umhverfismál.

Sigurður Ingi Jóhannsson, þá orðinn forsætisráðherra, mælti fyrir frv. til stjórnskipunarlaga 1. september 2016, skömmu áður en þing var rofið og gengið til kosninga. Frumvarpið var reist á umræðum á 50 fundum stjórnarskrárnefndarinnar var það „millileið“ að sögn flutningsmanns. Í því var ekki minnst á framsal valdheimilda.

Í janúar 2018 boðaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að stjórnarskráin yrði endurskoðuð í heild á þessu og næsta kjörtímabili. Markmiðið væri að stjórnarskráin endurspegli „sem best sameiginleg grunngildi þjóðarinnar og renni traustum stoðum undir lýðræðislegt réttarríki þar sem vernd mannréttinda er tryggð,“ eins og sagði í tilkynningu ráðherrans sem skipaði síðan Unni Brá Konráðsdóttur lögfræðing, fyrrv. þingforseta, til að halda utan um málið.

EES-aðild í stjórnarskrá

Því má velta fyrir sér hvort 25 ára aðild að EES-samningnum hafi leitt til stjórnskipunarvenju. Fræðimenn á sviði stjórnskipunarréttar deila um það en eru sammála um að tregða stjórnmálamanna til að breyta stjórnarskránni og leyfa framsal valdheimilda sé illskiljanleg. Það sé hættulaust að viðurkenna fullum fetum í stjórnarskrá nauðsyn reglu um að gefa eftir valdheimildir á skýrt afmörkuðu sviði. Í því felist ekki annað en viðurkenning á þátttöku Íslendinga í alþjóðasamstarfi. Betra sé að móta reglu sem setji þátttökunni mörk í stað þess að stofna til ágreinings sem umboðslausum fræðimönnum sé síðan ætlað að leiða til lykta með álitsgerðum.

Fræðimenn getur greint á um hvort EES-gerð sé þess eðlis að hún rúmist innan stjórnarskrárinnar. Þeir eru hins vegar allir sammála um að laga beri stjórnarskrána að alþjóðasamstarfi. Eftir þeim ráðum fara stjórnmálamenn þó ekki.

Ótti stjórnmálamanna ræðst af andstöðu við aðild Íslands að ESB. Þar tengjast illu andarnir sem áður er getið. Þá má kveða niður með því að festa aðildina að EES eina í stjórnarskrána.