Árangursríkt Reykholtsverkefni
Reynslan af Reykholtsverkefninu og skipulag þess gat af sér nýtt enn stærra rannsóknarverkefni undir heitinu Ritmenning íslenskra miðalda.
Þetta er skrifað í Reykholti í Borgarfirði þar sem því var fagnað í Snorrastofu kvöldið 26. nóvember að Reykholtsverkefninu svonefnda er lokið. Verkefnið hófst árið 1999 og nú 20 árum síðar kynnti Guðrún Sveinbjarnardóttir fornleifafræðingur bók sína Reykholt í ljósi fornleifanna. Þá kynntu:
Benedikt Eyþórsson, sagnfræðingur
Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu
Egill Erlendsson, landfræðingur
Guðrún Sveinbjarnardóttir, fornleifafræðingur
Helgi Þorláksson, sagnfræðingur.
Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri, sem lengi sat í stjórn Snorrastofu leiddi umræður fræðimannanna í pallborði.
Reykholt hefur aldrei verið mikil bújörð. Það skipti Snorra Sturluson ekki miklu þegar hann bjó um sig hér því að hann átti jarðir víða, þar á meðal kostajörðina Stafholt þar sem hann bjó um fimm ára skeið. Sel Reykholts hafa verið rannsökuð sérstaklega og fræðimennirnir töldu mikilvægt að þeim rannsóknum yrði fylgt eftir meðal annars með fornleifagreftri.
Fornleifarannsóknirnar hafa leitt líkur að því að Snorri hafi reist virki í Reykholti eftir að hann sneri frá Noregi sem lendur maður árið 1218. Í Noregi aðeins verið 15 lendir menn konungs og þeim var skylt að sýna vald sitt meðal annars með því að búa vel og glæsilega. Áður var Snorri gerður að skutulssveini konungs, það er herforingja.
Minnt var á að við lítum gjarnan til Þjóðveldisbæjarins skammt frá Búrfellsvirkjun þegar hugað er að híbýlum manna á þjóðveldisöld. Rannsóknir í Reykholti leiða líkur að því að hér hafi staðið nokkur timburhús innan virkisveggjar. Snorri hefur kynnst slíkri húsagerðarlist í ferð sinni til Noregs og Svíþjóðar og flutt hana með sér hingað. Þessi hús hafi komið í stað torfbæja í stíl Þjóðveldisbæjarins.
Í máli manna var staðfest hve mikilvægt væri að á áþreifanlegan hátt væri unnt að benda á staðinn þar sem Snorri bjó og sjá rústir bæjar hans eftir fornleifagröftinn. Þá er saga kirkjunnar á staðnum ekki síður merkileg og leiðir gröfturinn margt í ljós um hana.
Þótt Reykholtsverkefnið hafi verið formlega kvatt er sama að segja um það og öll verkefni sem snúa að slíkum rannsóknum að þeim lýkur aldrei. Ávallt má finna nýja spennandi þræði til að rekja.
Reynslan af Reykholtsverkefninu og skipulag þess gat af sér nýtt enn stærra rannsóknarverkefni undir heitinu Ritmenning íslenskra miðalda sem ég vék að í upphafsorðum málþingsins í gærkvöldi – ávarpið má lesa hér.
Málþingið var vel sótt af heimamönnum í Borgarfirði sem sýna starfi Snorrastofu mikinn áhuga og vinsemd.
Gistiaðstaða í Reykholti er eins og hún gerist best. Undir handarjaðri Snorrastofu er aðstaða til að taka á móti gestum og skipuleggja ráðstefnur. Netsamband er öruggt og gott! Auk þess er hér glæsilegt Fosshótel með góðum veitingastað.