27.11.2019

Reykholtsverkefnið kvatt

Athöfn í Snorrastofu 26. nóvember 2019

Við komum hér saman til að kveðja Reykholtsverkefnið. Að það sé gert á þennan hátt hér í Reykholti er svo sannarlega vel við hæfi.

Vil ég í upphafi máls míns þakka öllum sem að verkefninu hafa komið á undanförnum 20 árum og þeim sem hingað koma í kvöld til að kynna það sem áunnist hefur með verkefninu.

Í huga okkar sem stöndum að Snorrastofu ríkir enginn vafi um gildi verkefnisins og lít ég þá bæði til fræðilegs árangurs og fordæmisins sem verkefnið hefur orðið.

Hér munum við sjá betur en áður að Reykholtsverkefnið er þverfaglegt, alþjóðlegt miðaldarannsóknarverkefni á sviði bókmennta, fornleifafræði, landafræði og sagnfræði.

SnorralaugVið Snorralaug í Reykholti í Borgarfirði.

Í miðpunkti verkefnisins var Snorri Sturluson, ævi og störf, og Reykholt í tíð hans. Sameiginlegur rammi verkefnisins varð hugtakið „miðstöð“ og hvernig Snorri mótaði þá miðstöð í Reykholti.

Hér verður kynnt ný bók Guðrúnar Sveinbjarnardóttur, Reykholt í ljósi fornleifanna. Rannsóknir undir forystu Guðrúnar á fornleifunum hafa vakið mesta athygli á verkefninu enda hafa tvær veglegar bækur verið gefnar út um þær í samvinnu við Þjóðminjasafnið.

Bergur Þorgeirsson var nýráðinn forstöðumaður Snorrastofu þegar verkefninu var ýtt úr. Honum hefur af fræðilegum áhuga, þrautseigju og einstakri útsjónarsemi í fjármálum tekist að leiða verkefnið til lykta.

Það lá síður en svo í hlutarins eðli að tækist að skapa nægilega öflugan fræðilegan ramma um störf undir merkjum Snorrastofu til að vinna svo umfangsmikið rannsóknarverkefni.

Markmiðið náðist og nú er Reykholtsverkefnið fyrirmynd enn víðtækara verkefnis undir heitinu Ritmenning íslenskra miðalda.

Við Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og ég sem stjórnarformaður Snorrastofu rituðum 22. ágúst 2019 hér á þessum stað undir samstarfsyfirlýsingu um þverfaglegar rannsóknir á ritmenningu íslenskra miðalda. Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, hafði áður ritað undir yfirlýsinguna. Í henni felst fyrirheit um að frá og með árinu 2020 muni ríkissjóður leggja 35 m. kr. á ári í fimm ár til rannsókna á ritmenningu íslenskra miðalda. Guðrún Nordal er formaður fagráðs vegna verkefnisins en Snorrastofa sér um daglega umsýslu. Aðrir í fagráðinu eru Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður og Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri Rangárþings ytra og formaður Oddafélagsins.

Markmiðið með verkefninu er að efla rannsóknir á ritunarstöðum forníslenskra handrita, og þá sérstaklega klaustrum og lærdómssmiðstöðum á Íslandi þar sem ritmenning blómstraði á miðöldum. Rannsakaðar verða minjar og vistfræði tengd þessum stöðum, ásamt athugun á handrita- og bókmenningu þeirra. Biskupsstólarnir eru ekki innan ramma verkefnisins.

Sameinaðar verða rannsóknir á sviði hug- og raunvísinda. Varpa skal ljósi á ritmenningarstaðina og tengsl þeirra við landsnytjar, byggðarþróun og bókmenntasköpun. Þá verða kannaðar norrænar og vestur-evrópskar hliðstæður. Meginathyglin beinist ekki að því sem stendur í handritunum heldur hagrænum hliðum samfélagsins á ritunartíma þeirra.

Stefnt er að útgáfu rits með þverfaglegum heildarniðurstöðum. Vonir standa til að hægt verði að gera nákvæmar lýsingar á þeim bókmenntastöðum sem verða fyrir valinu og að frekari rök verði færð fyrir menningarlegu vægi þeirra handrita og bókmenntaverka sem ritstofunum tengjast.

Góðir gestir!

Af þessari stuttu lýsingu sjáið þið að þeir sem staðið hafa að Reykholtsverkefninu undanfarin 20 ár skila ekki aðeins merkum rannsóknaniðurstöðum heldur hafa þeir einnig lagt grunn að enn víðtækara verkefni sem reist er á sömu hugmyndafræði.

Sá reginmunur er á upphafi ritmenningarverkefnisins og Reykholtsverkefnisins að því fyrrnefnda fylgir góður heimanmundur.

Fyrir 20 árum var lagt af stað með tvær hendur tómar í ferð sem að lokum bar ríkulegan ávöxt eins og við kynnumst hér í kvöld.

Þetta er vert að hafa hugfast á þessum merku tímamótum.

Ég ítreka þakkir mínar til þeirra sem staðið hafa að Reykholtsverkefninu og segi athöfnina setta.