23.3.2022 16:58

Alls staðar þrengir að Pútin

Erfitt er að sjá hana brúaða eða hvernig Vladimir Pútin getur snúið til baka sem alvöru þátttakandi í viðræðum á alþjóðavettvangi. Hann hefur brotið allar brýr að baki sér.

Í hádeginu í dag (23. mars) flutti ég ræðu og svaraði spurningum á fjölmennum og málefnalegum fundi Sambands eldri sjálfstæðismanna (SES) í Valhöll. Umræðuefnið var stríðið í Úkraínu og áhrif þess á Ísland. Eins og sjá má á erindinu tók ég saman stutt yfirlit yfir ýmsar ákvarðanir íslenskra stjórnvalda og stjórnvalda nágrannaþjóðanna á þeim fjórum vikum sem liðnar eru frá því að innrásin hófst.

Af því sem ég tók saman og setti í samhengi við það sem gerðist eftir að Pútin lagði undir sig Krímskaga og hóf að herja á Úkraínumenn árið 2014 má auðveldlega sjá að þeir atburðir sem við lifum og sjáum í beinni útsendingu 24/7 skilja eftir svo djúpa gjá milli Rússa og annarra Evrópuþjóða að erfitt er að sjá hana brúaða eða hvernig Vladimir Pútin getur snúið til baka sem alvöru þátttakandi í viðræðum á alþjóðavettvangi. Hann hefur brotið allar brýr að baki sér.

FOichewXEAIfzuiSagt er að maðurinn við hraðbankann í Istanbul sé landflótta háttsettur ráðgjafi Pútins.

Í dag var skýrt frá því að Anatolíj Tsjubais, einn þeirra sem lengst hefur þraukað í efstu röðum rússneska stjórnkerfisins, hefði flúið land til að mótmæla stjórnarháttum og stríðsrekstri Pútins. Tsjubais á rætur allt aftur til þess að Boris Jeltsín var forseti Rússland. Gegndi Tsjubais lykilhlutverki við einkavæðingu rússneskra ríkisfyrirtækja á tíunda áratugnum og lagði grunn að auðmannakerfinu sem stuðlaði ásamt öryggislögreglunni að valdatöku Pútins.

Fram til 2020 stjórnaði hann tæknifyrirtækinu Rusnano. Þá var sagt að honum hefði verið boðið að „taka við norðurslóðum“ (Arctic), var litið á það sem stöðulækkun innan stjórnarklíkunnar þar sem olíurisinn Rosneft og ríkiskjarnorkusamsteypan Rosatom hefðu öll ráð í hendi sér á norðurslóðum.

Af þessu tilefni var haft eftir Tsjubais: „þótt ég njóti þess að aka utan vegar í freðmýrunum er ástæðulaust að fela mér stjórn mála á norðurslóðum“.

Nú hefur þessi áhrifamaður sem sagt yfirgefið Kremlarkastala og í blaðinu Kommersant birtist 23. mars mynd af manni við hraðbanka í Istanbúl í Tyrklandi og sagt að þar sé Tsjubais að ná sér í reiðufé.

Þessi frétt og fréttir um hreinsanir á ráðgjöfum Pútins sem sakaðir eru um að gefa honum rangar upplýsingar um hvernig rússneskum hermönnum yrði tekið í Úkraínu benda til vaxandi vandræða í Kreml. Þá vekur undrun hve margir rússneskir hershöfðingjar hafa verið drepnir á vígvellinum í Úkraínu. Að þeir skuli almennt vera í skotfæri er talið til marks um að æðstu stjórnendur þurfi að beita sér úti á vígvellinum sjálfum til að halda hermönnum við efnið. Fjöldi fallinna rússneskra hermanna er á reiki en líklegt er að þeir séu í kringum 10.000.

Hve lengi grimmd Pútins dugar til að halda stríðinu áfram kemur í ljós en grimmdin leggst af sífellt meiri þunga á almenna borgara í Úkraínu og vekur æ meiri óhugnað utan landsins. Þá magnast vandræðin í Rússlandi sjálfu og innsta hring Pútins.