Stríðið í Úkraínu og áhrifin á Ísland
Ræða á fundi Sambands eldri sjálfstæðismanna, miðvikudag 23. mars 2022.
Það sem gerst hefur í Úkraínu á fjórum vikum frá því að Vladimir Pútin skipaði rússneska hernum að ráðast inn í landið hefur haft meiri áhrif á skipan öryggismála í okkar heimshluta og heiminum öllum en nokkur annar viðburður frá því að Sovétríkin hrundu fyrir þrjátíu árum.
Þá brugðust íslensk stjórnvöld við og gerð var úttekt á hvort ástæða væri til að móta nýja stefnu í utanríkis- og öryggismálum þjóðarinnar. Niðurstaða úttektarinnar lá fyrir í mars 1993. Meginniðurstaðan var að aðildin að NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin hefðu varanlegt gildi til að tryggja öryggishagsmuni þjóðarinnar.
Þessi meginstefna hefur ekki breyst síðan þrátt fyrir brottför bandaríska varnarliðsins 30. september 2006. Eftir hana tók við regluleg loftrýmisgæsla frá Keflavíkurflugvelli á vegum flugherja NATO-ríkja, fyrst Frakka í maí 2008.
Snemma árs 2014 komu hingað einnig sænskar og finnskar orrustuþotur til æfinga undir forsjá norska flughersins. Staðfesti það nánara samstarf Svía og Finna með herstjórnum NATO.
Innlimun Rússa á Krímskaga í mars 2014 og upphaf hernaðar með stuðningi þeirra gegn Úkraínu leiddi til breytinga á varnarsamstarfinu innan NATO sem beindist meira að sameiginlegum vörnum í Evrópu en áður.
Haustið 2015 lá fyrir að bandaríska varnarmálaráðuneytið vildi endurbæta mannvirki á Keflavíkurflugvelli til að þau þjónuðu nýrri gerð eftirlits- og kafbátaleitarvéla.
Vilji íslenskra stjórnvalda til aukins varnarsamstarfs vegna breyttra aðstæðna var staðfestur með viðauka-yfirlýsingu við varnarsamninginn sem ráðherrar Íslands og Bandaríkjanna rituðu undir sumarið 2016.
Yfirlýsingin og framkvæmd hennar féll að niðurstöðu leiðtogafundar NATO í Varsjá sumarið 2016. Þar var ákveðið að stórefla varnir Eystrasaltslandanna og Póllands auk þess að greina hættur á N-Atlantshafi. Ákvörðunin um auknar varnir í austri var nýmæli. Sama er að segja um að líta yrði til Norður-Atlantshafs og greina hættur þar.
Tíu árum eftir lokun Keflavíkurstöðvarinnar hafði hættumat NATO vegna Norður-Atlantshafs gjörbreyst.
Á árinu 2018 ákváð Bandaríkjastjórn að endurræsa 2. flota sinn, Atlantshafsflotann, sem lagt var 2011. Árið 2019 endurvakti NATO flotastjórn í Norfolk í Virginu-ríki í Bandaríkjunum. Þar var áður yfirherstjórn Keflavíkurstöðvarinnar.
Haustið 2018 var mikil NATO-flota- og heræfing haldin á N-Atlantshafi og í Norður-Noregi, Trident Juncture 2018. Hún hófst hér á landi með komu margra herskipa til landsins og æfingu hermanna á landi.
Í æfingunni sigldi bandarískt flugmóðurskip í fyrsta sinn í rúmlega 30 ár norður með strönd Noregs og norður fyrir heimskautsbaug.
Síðsumars 2019 sendi bandaríski flugherinn í fyrsta sinn háþróuðustu sprengjuþotu sína, B-2 Spirit, til eldsneytistöku á Keflavíkurflugvelli. Síðsumars 2021 voru þrjár þotur af þessari gerð í tæpar þrjár vikur til æfinga á vellinum.
Nú 14. mars 2022 hófst mesta heræfing NATO í Norður-Noregi til þessa í rúm þrjátíu ár. Þar fara Norðmenn fyrir meira en 30.000 manna liði frá 27 löndum, hundruð flugvéla og um 50 skipa þar sem breskt flugmóðurskip er í forystu.
Heræfingin Norður-Víkingur 2022 fer fram hér á landi og á hafinu í kringum landið dagana 2.-14. apríl næstkomandi. Æfðar verða varnir sjóleiða og leit og björgun. Æfingar af þessu tagi hafa verið hér reglulega í 40 ár. Um 700 hermenn taka þátt í æfingunni.
Þessi samantekt um þróun öryggismála með beinni tengingu við Norður-Atlantshaf gefur hugmynd um vatnaskilin sem urðu eftir að Pútin hóf að ögra Úkraínumönnum 2014.
Nú er sagt að NATO, ESB og einstök Evrópuríki hafi brugðist alltof linlega við ofríki Pútins árið 2014. Léttvæg viðbrögðin hafi beinlínis freistað Pútins til að ráðast inn í Úkraínu að nýju. Yrði honum refsað yrði það svo máttlaust að hann kæmist auðveldlega í gegnum skaflinn.
Liður í viðbrögðum Pútins við refsiaðgerðunum 2014 var að efla rússneskan landbúnað og sjávarútveg. Á þann hátt mætti búa Rússa betur undir að standa á eigin fótum. Setti hann meðal annars innflutningsbann á fisk og kjöt frá Íslandi i samræmi við þessa stefnu sína.
Í stað þess að flytja út sjávarafurðir til Rússlands hófu íslensk fyrirtæki að flytja þangað hátækni til veiða og vinnslu. Þau viðskiptasambönd rofnuðu við innrásina nú.
Myndin er tekin yfir hluta salarins í Valhöll rétt fyrir 12.00, miðvikudaginn 23. mars 2022.
Viðbrögð íslenskra stjórnvalda febrúar – mars 2022.
Ísland er samstíga bandalags- og samstarfsríkjum í aðgerðum til stuðnings Úkraínu og tekur fullan þátt í víðtækum þvingunaraðgerðum gagnvart Rússlandi. Stuðningur íslenskra stjórnvalda hefur m.a. falist í framlögum til mannúðarstarfs og neyðarviðbragða á vegum Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðastofnana.
Íslensk stjórnvöld ákváðu 27. febrúar 2022 að loka íslenskri lofthelgi fyrir umferð rússneskra loftfara.
Matvælaráðherra afturkallaði 8. mars undanþágu fyrir rússneska togara til löndunar og umskipunar í íslenskum höfnum. Framferði Rússa gerði óverjandi að viðhalda sérstökum undanþágum þeim til hagsbóta.
Öll tvíhliða samskipti hafa rofnað milli Íslands og Rússlands. Vangaveltur eru um að vísa sendiherra Rússa á Íslandi úr landi. Þess hefur beinlínis verið krafist í þingræðu.
Tilkynnt var 2. mars að Ísland væri í hópi 39 ríkja sem hefðu kært Rússa vegna innrásarinnar til saksóknara Alþjóðasakamáladómstólsins.
Ríkin sjö sem starfa með Rússum í Norðurskautsráðinu frystu 3. mars öll samskipti við þá. Þess er þó vænst að ráðið lifi næstu 14 mánuði þar til Norðmenn taka við formennsku í því af Rússum.
Norræna ráðherranefndin ákvað 3. mars að stöðva tafarlaust allt samstarf við Rússland og Hvíta-Rússland. Allar áætlanir, verkefni og starfsemi í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi stöðvuðust.
Utanríkisráðherrar aðildarríkja Eystrasaltsráðsins samþykktu 4. mars að meina Rússum þátttöku í allri starfsemi Eystrasaltsráðsins.
Aðildarríki Barentsráðsins gerðu 9. mars tímabundið hlé á samstarfi við Rússland á vettvangi ráðsins.
Ráðherranefnd Evrópuráðsins ákvað samhljóða á sérstökum aukafundi 16. mars að vísa Rússlandi úr Evrópuráðinu. Rússar hefðu með árás sinni á Úkraínu brotið gróflega gegn stofnsáttmála og grunngildum stofnunarinnar. Hún stendur vörð um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið.
Samskipti íslenskra og rússneskra stjórnvalda hafa aldrei verið minni síðan stjórnmálasamband var tekið upp milli ríkjanna árið 1943, fyrir tæpum 80 árum. Viðskipti þjóðanna rofnuðu aldrei og voru mikil í kalda stríðinu, Sovétmenn seldu hingað olíu og bíla en við fisk og iðnvarning til þeirra.
Hvarvetna skipta samstaða þjóða og sameiginleg mótmæli máli. Rétt má gera sér í hugarlund hvílíkt hneyksli væri og í andstöðu við þjóðarhagsmuni hefðu íslensk stjórnvöld ákveðið að taka aðra afstöðu en hér er lýst.
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti 2. mars með 141 atkvæði tillögu til stuðnings sjálfstæði Úkraínu með kröfu um að Rússar kölluðu allan herafla sinn sklyrðislaust á brott úr landinu. Fulltrúar aðeins fjögurra ríkja, Eritreu, Hvíta-Rússlands, Norður-Kóreu og Sýrlands auk Rússlands greiddu atkvæði gegn tillögunni, 35 sátu hjá.
Alþjóðlega andúðin á innrásinni er yfirgnæfandi.
Ákvarðanir einstakra ríkja
Þegar litið er til áhrifanna á ákvarðanir einstakra vestrænna ríkisstjórna vöktu vatnaskilin í Þýskalandi mesta athygli.
Boðað var til aukafundar í þýska sambandsþinginu að morgni sunnudags 27. febrúar. Þar flutti jafnaðarmaðurinn Olaf Scholz kanslari 30 minútna ræðu sem kollvarpaði stefnunni í öryggis- og varnarmálum sem þýska stjórnin hafði fylgt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.
Þjóðverjar hafa lagt til hliðar Nord Stream 2 gasleiðsluna sem liggur ónotuð á botni Eystralts og bíður þess eins að verða opnuð. Þeir ætla markvisst að hætta orkuviðskiptum við Rússa. Þýski herinn verður stórefldur og þýsk vopn verða send til Úkraínu.
Fleiri þjóðir hafa síðan fetað i fótspor Þjóðverja og boðað aukin útgöld til varnarmála í því skyni að ná viðmiðinu innan NATO um að þau nemi 2% af vergri landsframleiðslu.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, kynnti að kvöldi sunnudags 6. mars „þjóðarsátt um danska öryggismálastefnu“. Hækkun útgjalda til varnarmála yrði meiri en Danir hefðu kynnst um langt árabil.
Svíar eru utan NATO en föstudaginn 18. mars tilkynnti Peter Hultqvist varnarmálaráðherra þeirra að í ár yrðu útgjöld til sænskra varnarmála aukin um 3 milljarða SEK (41 mia ISK). Þetta væri skref til að nálgast 2% útgjaldamarkmiðið sem gilti hjá NATO-ríkjunum. Tveir milljarðar af fjárhæðinni renna til hervarna en 800 milljónir til almannavarna.
Finnar eru utan NATO eins og Svíar en báðar þjóðirnar nálgast aðild að bandalaginu stig af stigi. Rúm 60% Finna styðja nú NATO-aðild samkvæmt könnunum. Hermálaútgjöld í Finnlandi nema nú 2,15% af vergri landsframleiðslu.
Finnar drógu aldrei saman varnir sínar á sama hátt og Svíar. Í desember 2021 skýrði finnska ríkisstjórnin frá því að fram til ársins 2030 yrði 9,4 milljörðum dollara varið til kaupa á 64 hátækni F-35 orrustuþotum frá Bandaríkjunum.
Norska ríkisstjórnin tilkynnti föstudaginn 18. mars að útgjöld til norskra hermála yrðu aukin um 3 milljarða NOK í ár (45 mia ISK) í því skyni að efla varnir Noregs í norðri, nálægt landamærum Rússlands.
Féð verður notað til að styrkja viðveru norska flotans í norðri, auka þjálfun hermanna og varaliða, auka birgðir skotfæra, eldsneytis og tækja. Þá verður ennig lögð áhersla á að bæta aðstöðu til að taka á móti liðsauka frá bandalagsþjóðum, styrkja netvarnir og njósnir.
Íslendingar hafa átt aðild að samningsbundnu varnarsmastarfi norrænu ríkjanna frá því að það hófst árið 2009.
Meginbreyting í norrænu varnarsamstarfi varð eftir árið 2014 þegar Svíar og Finnar urðu nánustu samstarfsþjóðir NATO með sérstaka samninga við Bandaríkin.
Frá upplausn Kalmarsambandsins 1523 hafa norrænu ríkin aldrei átt nánara samstarf í öryggismálum en nú, það er í 600 ár.
Þróunin á vettvangi NATO
Vladimir Pútin lýsti yfir stríði á hendur Úkraínumönnum fimmtudaginn 24. mars. Strax daginn eftir var efnt til fjarfundar æðstu manna NATO-ríkjanna og sunnudaginn 27. febrúar tók öflugasta NATO-þjóðin í Evrópu nýja stefnu eins og áður er lýst. Utanríkisráðherrar og varnarmálaráðherrar ríkjanna hafa hist og á morgun 24. mars koma æðstu menn NATO saman til fundar í Brussel.
Hér skal staldrað við fund varnarmálaráðherra NATO-landanna sem haldinn var fyrir viku, miðvikudaginn 16. mars.
Eftir fundinn sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, að nú væru hundruð þúsunda hermanna bandalagsþjóðanna í hertri viðbragðsstöðu á öllu bandalagssvæðinu. Alls væru hundrað þúsund bandarískir hermenn í Evrópu. Um 40.000 hermenn væru nú undir beinni stjórn herstjórna NATO, einkum í austurhluta bandalagsins. Þeim til stuðnings væru flugherir og flotar auk loftvarna.
Framkvæmdastjórinn sagði að við bandalagsþjóðunum blasti nýr veruleiki í öryggismálum. Við honum yrði að bregðast með því að endurræsa sameiginlegar varnir bandalagsþjóðanna og styrkja fælingarmátt þeirra til lengri tíma.
Á fundinum hefðu ráðherrarnir falið yfirmönnum herafla landanna að kynna hugmyndir um nauðsynlegar aðgerðir hvort sem litið væri til landhers, flughers, flota, netheima eða geimsins. Í umboðinu til herstjórnanna hefðu þessi viðmið verið sett:
Á landi yrði að gera ráð fyrir umtalsvert meiri herafla á háu viðbragðsstigi í austurhluta bandalagsins. Þar yrði að auka tækjakost og birgðir.
Í lofti ætti að styrkja flugheri bandalagsins og efla samræmdar loft- og eldflaugavarnir þess.
Á sjó ætti stöðugt að halda úti flotadeildum flugmóðurskipa, kafbátum og umtalsverðum fjölda herskipa.
Jafnframt yrði hugað að framtíð netvarna bandalagsins.
Loks yrði lögð áhersla á að nýta búnað bandalagsþjóða í geimnum sem best.
Í svari framkvæmdastjórans við spurningu um framkvæmd þessarar ákvörðunar ráðherranna sagðist hann sjá fyrir sér svipað ferli og vegna sögulegra ákvarðana á toppfundinum í Varsjá 2016 um að stórefla varnir í austurhluta NATO í ljósi ólöglegrar innlimunar Rússa á Krímskaga árið 2014. Nú teldi hann að stefna ætti að ákvörðun æðstu manna NATO-landanna um þetta mál á fundi þeirra í Madrid í júní 2022.
Góðir fundarmenn!
Hér að framan hefur ekki verið stunduð nein hugarleikfimi heldur teflt fram bláköldum staðreyndum um áhrif stríðsins í Úkraínu á ákvarðanir bandamanna okkar og norrænna nágranna.
Staða öryggismála í okkar heimshluta er allt önnur en hún var fyrir einum mánuði.
Hér geta menn setið og velt fyrir sér hvort af hálfu íslenskra stjórnvalda eða annarra hefði verið unnt að halda öðru vísi á málum til að leggja stein í götu stríðsvélar Pútins.
Ég ætla ekki að ræða það heldur beina athygli að nærumhverfi okkar Íslendinga og minna á að Pútin hefur alls ekki þagað um mikla rússneska hagsmuni á norðurslóðum.
Í norðurhöfum eru engir þröskuldar á borð við landamæri sem gefa til kynna óvinveittan liðsafnað eins og sjá mátti mánuðum saman við landamæri Úkraínu fyrir innrásina.
Á norðurskautssvæðinu hefur samvinna þjóða mótast af friðsamlegum tilgangi hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Gagnkvæmt traust er reist á því að reglur sáttmálans um lausn deilumála séu virtar.
Virðingarleysi Kremlverja fyrir alþjóðalögum í Úkraínu hlýtur að draga úr trausti á að þeir virði alþjóðleg hafréttarlög í norðri.
Áhugi Rússa á norðurslóðum vex með aukinni hlýnun jarðar, opnun siglingaleiða og fleiri tækifærum til að nýta auðlindir. Þar vegur jarðefnaeldsneyti, olía og gas, þyngst. Fjárfestingin í þágu vinnslunnar er gífurleg. Í umræðum um orkusölu Rússa til Evrópu eftir að Úkraínustríðið hófst segir að Evrópuríkin greiði Rússum orkureikning sem nemi einum milljarði evra á dag.
Samhliða vaxandi efnahagslegu mikilvægi norðurslóða og siglingaleiðanna í norðri hafa Rússar hervæðst við Norður-Íshaf. Á rúmlega 24.000 km langri strandlengju þeirra eru nú herstöðvar og flugvellir auk hafna á Kólaskaga fyrir rússneska Norðurflotann og kjarnorkukafbáta með langdræga kjarnaodda-flugar, þungamiðju rússneska fælingarmáttarins.
Á sínum tíma kallaði Mikhaíl Gorbatsjov Sovétleiðtogi norðurslóðir „svæði friðar“ og fræðimenn skilgreindu þær sem „undantekningu“, ónæmar fyrir átökum. Fram að innrásinni í Úkraínu lýstu norrænir stjórnmálamenn og fræðimenn norðurslóðum jafnan sem „lágspennusvæði“. Stenst sú lýsing lengur?
Í Úkraínu sannaðist að sjái Pútin tækifæri og tómarúm vegna lítilla varna víkur skynsemin til hliðar.
Afstaðan til Rússa breytist í norðri eins og annars staðar. Krafan um aukið eftirlit á sjó og í lofti á norðurslóðum í þágu NATO eykst. Í fyrsta sinn var minnst á norðurslóðir í ályktun fundar æðstu manna NATO-ríkjanna í júní 2021. Varnaráætlanir verða endurskoðaðar fyrir okkar hluta NATO-svæðisins.
Norðmenn, Svíar og Finnar stórefla varnir sínar í norðri.
Atlantshafsfloti Bandaríkjanna lætur að sér kveða allt norður í Barentshaf.
Danir boðuðu í fyrra átak til að efla varnir Grænlands og Færeyja. Bandaríkjamenn hafa óskað eftir aðstöðu fyrir herstöðvar í Danmörku og kynnt sér hafnaraðstöðu fyrir herskip í Færeyjum og á Grænlandi.
Bretar láta verulega að sér kveða á Norður-Atlantshafi eins og forysta þeirra fyrir flotadeildinni í Cold Response 2022 æfingunni sýnir. Frumkvæði Breta að samstarfi 10 norðlægra Evrópuríkja um sameiginlega viðbragðshersveit nær meðal annars til Íslands. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sat fund æðstu manna samstarfasríkjanna í London 15. mars síðastliðinn.
Það er komið að lokum máls míns.
Við vitum ekki enn hvernig eða hvenær stríðinu í Úkraínu lýkur. Við vitum hins vegar að um fjórar milljónir Úkraínumanna hafa flúið til vesturs og við leggjum okkar af mörkum til að taka á móti þeim.
Við verðum jafnframt að gera ráðstafanir sem sýna trúverðugleika okkar inn á við gagnvart samstarfsþjóðum og út á við gagnvart þeim sem leita að snöggum blettum í því skyni að seilast til áhrifa og valda.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hefur lýst þörf fyrir aukið fjármagn til meiri íslenskrar þátttöku innan NATO. Hún hefur brugðist við umskiptunum í öryggismálum af mikilli alvöru og skilur gildi virkrar þátttöku í starfi bandalagsins eins og með ákvörðuninni um að kosta hergagnaflutninga með flugi. Eftir öllu slíku er tekið.
Sem norræn þjóð eigum við að leggja sérstaka rækt við samvinnu í öryggismálum við Eystrasaltsríkin á austur væng NATO. Þá áréttar ákvörðun utanríkisráðherra um að opna sendiráð í Varsjá náið pólitískt samstarf okkar og Pólverja.
Við Íslendingar erum þiggjendur, þegar um hernaðarlegt samstarf við aðra er að ræða. Við getum tekið á móti hervélum og herskipum hér á landi og lagt ríkjum borgaralegan stuðning við æfingar. Við erum hins vegar ekki virkir þátttakendur í gagnkvæmu samstarfi við önnur ríki á sviði varnarmála nema með aðild borgarlegra stofnana.
Borgaralegir þættir öryggis- og varnarmála miða að því að tryggja öryggi í fjarskiptum, upplýsingatækni, samgöngum og viðskiptum, treysta ytri landamæri, koma í veg fyrir að hættu- eða upplausnarástand skapist vegna skipulagðrar glæpastarfsemi, hryðjuverka og ólögmætra innflytjenda, og koma í veg fyrir að lönd verði griðastaður til fjármálamisferla eða hvers konar illvirkja.
Með því að efla varnir á borgaralegum sviðum leggjum við okkar af mörkum. Ríkisstjórnin verður að taka ákvarðanir um auknar fjárveitingar í því skyni og auk þess kynna stefnu sína vegna lykilákvarðana innan NATO á næstu mánuðum um grunnstefnu bandalagsins.
.
Að öllum þessum þáttum verður að hyggja. Hér nefni ég fimm að auki:
1. Efla ber þann þátt í starfsemi landhelgisgæslunnar sem snýr að samskiptum við herafla annarra þjóða og tryggja að aðstaða á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli nýtist á þann hátt að aldrei skapist tómarúm í hervörnum landsins.
2. Landhelgisgæslan geti með skipum sínum og eftirlitsflugvél eflt stöðugt eftirlitsstarf umhverfis landið og styrkt samstarf sitt við nágrannaþjóðir samhliða því sem með ótvíræðum hætti verði í lögum mælt fyrir um hlutverk landhelgisgæslunnar á öryggissvæðum NATO og í samskiptum við herstjórnir bandalags- og samstarfsþjóða.
3. Landamæravarsla verði aukin með endurskipulagningu á lögreglunni. Framkvæmd verði hugmynd um varalið sem kynnt var í tillögum ríkisstjórnarinnar við brottför varnarliðsins árið 2006.*
4. Birgðastaða Íslands er veik. Fyrir stjórnvöldum liggja úrbótatillögur sem ekki hefur verið hrundið í framkvæmd. Ein þeirra snýr að því að bæta höfnina í Helguvík en þar „eru stærstu eldsneytisgeymar landsins og geta nýst fyrir viðbótareldsneytisbirgðir,“ eins og segir í matsskýrslu þjóðaröryggisráðs.
5. Öll stjórnsýsluleg óvissa um forræði netvarna verði útilokuð með setningu laga og reglna. Tryggð verði aðild að gervihnattasamstarfi sem tryggi samskiptaleiðir rofni sæstrengir.
*Samstarf lögreglu, landhelgisgæslu, slökkviliða og björgunarsveita verði þannig að tryggja megi þátttöku varaliðs hvarvetna þar sem þess kann að verða þörf í landinu. Yrðu launaðir varaliðsmenn kallaðir til starfa úr röðum björgunarsveitarmanna, slökkviliðsmanna, sjúkraliðsmanna, öryggisvarða, friðargæsluliða og fyrrverandi lögreglumanna eftir sérstaka þjálfun á vegum ríkislögreglustjóra. Liðið yrði nýtt til varðgæslu mikilvægra mannvirkja eða staða, landamæragæslu, verkefna vegna öryggisgæslu, mannfjöldastjórnunar, almennra löggæsluverkefna, umferðarstjórnar og sérstakra verkefna. Lögreglan gæti kallað út um 1000 manna þjálfað lið til verkefna á sínu sviði en auk þess yrði síðan treyst á björgunarsveitir, slökkvilið og aðra eftir aðstæðum hverju sinni.