2.7.2022 11:42

Á pólitísku óvissustigi

Deilur eru ekki undrunarefni í lýðræðisríkjum þar sem um er að ræða sjálfstæði dómstóla, lýðræðislega stjórnarhætti og frelsi til skoðana og tjáningar.

Stjórnarandstaðan í Danmörku vill að minkaskýrslan fari í það sem Danir kalla advokatvurdering, það er mat lögfræðinga á því hvort forsætisráðherrann eða aðrir ráðherrar hafi sýnt gróft gáleysi og þess vegna eigi landsdómur (d. rigsret) að ákvarða refsingu þeirra.

Jafnaðarmenn hafa lagst gegn þessu, einnig stuðningsflokkar stjórnar þeirra, Enhedslisten og SF og nú í dag (2. júlí) Radikale venstre.

Radíkalir benda á að minkanefndin taki þá skýringu Mette Frederiksen forsætisráðherra gilda að á blaðamannafundi 4. nóvember 2020 hafi hún ekki vitað um að lagaheimild skorti fyrir minkadrápinu þegar hún á gróflega villandi hátt tilkynnti að aflífa ætti alla minka. .

Radíkalir segja ekkert styðja þá skoðun að forsætisráðherrann hafi sýnt gróft gáleysi. Í stað þess að setja málið í þann farveg að til landsdómsmáls kunni að koma hvetja radíkalir forsætisráðherrann til þess að boða til þingkosninga að loknu sumarleyfi og fyrir samkomudag þingsins í október.

Í dönskum fjölmiðlum viðra lögfræðingar ólík sjónarmið varðandi stöðu forsætisráðherrans og yfirlýsingar hennar. Af hálfu stjórnarandstöðunnar er bent á að falli stjórnin í þingkosningum sé ekkert því til fyrirstöðu að nýr meirihluti setji minkamálið í advokatvurdering að kosningum loknum.

Danmörku má nú setja í hóp þeirra Evrópuríkja þar sem hart er tekist á um völd á heimavelli og óvíst um niðurstöðuna.

23930099-folketingets-bningsdebatSofie Carsten Nielsen, formaður Radikale venstre, og Mette Frederiksen.

Sömu sögu er að segja um Bretland þar sem framtíð Borisar Johnsons sem leiðtoga Íhaldsflokksins og forsætisráðherra er með öllu óljós. Hann sætir nú rannsókn þingnefndar auk þess sem úrslit aukakosninga hafa verið Íhaldsflokknum mjög óhagstæð. Þá boðar Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands og uppbrot Sameinaða konungdæmisins (UK) haustið 2023.

Í Frakklandi er pattstaða á þingi eftir kosningar í júní þar sem flokkur Emmanuels Macrons forseta missti hreinan meirihluta sinn og verður að leita samstarfs við aðra flokka á þingi, hvort það verður um einstök mál eða með samsteypustjórn er enn til umræðu. Svo virðist sem Lýðveldissinnar, mið-hægrimenn, kunni að ganga til samstarfs við flokk Macrons.

Í Bandaríkjunum hefur gífurleg pólitísk áhrif að hæstiréttur landsins sneri við blaðinu í afstöðu til þungunarrofs, taldi ákvarðanir um þann málaflokk ekki alríkismál heldur viðfangsefni einstakra ríkja innan Bandaríkjanna. Demókratar veðja á að þetta stöðvi fylgishrun þeirra undir forystu Joes Bidens og styrki þá í kosningum í nóvember 2022. Um það veit enginn nú frekar en hver verða áhrif dramatískra frásagna á dólgslegum viðbrögðum Donalds Trumps þegar hann tapaði fyrir Biden.

Deilur eru ekki undrunarefni í lýðræðisríkjum þar sem um er að ræða sjálfstæði dómstóla, lýðræðislega stjórnarhætti og frelsi til skoðana og tjáningar. Hitt er skrýtið að sjá upphrópanir um að lýðræðisleg átök séu til marks um allt sé að fara til fjandans – svo er auðvitað ekki þótt hlakki í stríðsóðum Pútin og fylgifiskum hans.