Zelenskíj á Íslandi
Það yrði dýrmætur árangur fyrir Zelenskíj ef hann fengi stuðning norrænu ríkjanna fimm við þetta lykilatriði friðaráætlunar sinnar.
Þegar Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti kemur hingað til lands í dag fær hann tækifæri til kynna fyrir Norðurlandaráði og forsytumönnum ríkjanna í því það höfuðatriði friðaráætlunar sinnar, að Úkraína fái formlegt boð um aðild að NATO.
Forsetinn gerir sér grein fyrir að aðild að NATO verður ekki á dagskrá fyrr en stríði Rússa lýkur en Zelenskíj er mikils virði að hann fái boðið frá NATO-ríkjunum áður en Joe Biden hverfur úr embætti Bandaríkjaforseta.
Zelenskíj segir að Úkraínumenn verði að fá aðildarboðið án þess að það sé skilyrt með kröfu um að þeir afsali sér landi í hendur Rússum. Birst hafa fréttir um að stjórn Zelenskíjs kynni að fá boðsbréf um aðild ef vitað væri að hún samþykkti að láta hernumin héruð eins og Donetsk og Krím af hendi. Allt í þessa veru hefur verið borið til baka af Zelenskíj.
Lykilatriði í friðaráætlun Zelenskíjs er að fá formlegt boðsbréf um aðild að NATO.
Óskin um boðskort með hraði fær misjafnar undirtektir með vísan til að ekki sé unnt að senda boðið á meðan enn sé barist í Úkraínu. Olaf Scholz Þýskalandskanslari segir að NATO geti ekki orðið „aðili að stríði“.
Þá er á það bent að jafnvel þótt Zelenskíj fái þungavigtarríki eins og Þýskaland og Bandaríkin á sitt band geti NATO-ríkisstjórnir vinveittar Rússum í Ungverjalandi og Slóvakíu beitt neitunarvaldi innan bandalagsins.
Á vefsíðunni Politico sagði 23. október að sjö ríki NATO að minnsta kosti hefðu efasemdir um að bjóða Úkraínu í NATO. Þá er minnt á að fallist allar ríkisstjórnir á ósk Zelenskíjs verði að leita samþykkis á 32 þingum NATO-ríkja til að umboðið sé tryggt og það ferli sé mjög tímafrekt.
Úkraínustjórn sótti um NATO-aðild í september 2022 þegar innrásarher Rússa hafði verið um hálft ár í landi hennar. Innan NATO hafa menn setið hikandi yfir svari í rúm tvö ár. Í Kyiv er sagt að verði bréfinu ekki svarað jákvætt sem fyrst þýði ekkert að semja um frið við Rússa, þeir hefji hernað aftur eftir að hafa safnað kröftum í eitt eða tvö ár viti þeir að ekki sé NATO að mæta.
Zelenskíj segir að Frakkar, Ítalir og Bretar séu jákvæðir og sömu sögu má segja um Eystrasaltsríkin þrjú og Pólland.
Það yrði dýrmætur árangur fyrir Zelenskíj ef hann fengi stuðning norrænu ríkjanna fimm við þetta lykilatriði friðaráætlunar sinnar. Það ætti að vera íslenskum stjórnvöldum og stjórnmálamönnum kappsmál að stuðla að jákvæðu orðalagi í þessa veru í skjölum sem koma frá Reykjavík í tilefni af komu Zelenskíjs á fund Norðurlandaráðs hér.
Íslendingar eru stoltir og njóta virðingar og vináttu víða vegna stuðnings síns við sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna fyrir um rúmum 30 árum. Þá hikuðu stjórnvöld ekki við að storka Sovétstjórninni og nutu til þess almenns stuðnings.
Í því ljósi er ótrúlegt að heyra úrtöluraddir hér þegar ákveðið er að mótmæla glæpastjórn Pútins með stuðningi við Úkraínumenn sem sættu ólögmætri og tilefnislausri innrás.
Þegar skammast er yfir að verkefnalausu sendiráði Íslands í Moskvu hafi verið lokað ber það vott um hræðslu eða undirgefni andspænis grimmd Pútins. Verri hug er ekki unnt að sýna Zelenskíj þegar hann kemur hingað en þann sem birtist í slíkri uppdráttarsýki.