23.3.2021 9:52

Yfirburðir frétta Morgunblaðsins

Eftir að gosið hófst í Geldingadölum við Fagradalsfjall á Reykjanesi að kvöldi föstudags 19. mars fer ekki á milli mála að Morgunblaðið ber höfuð og herðar yfir aðra prentmiðla í landinu.

Þegar mikið liggur við og stórtíðindi gerast sannast best hvaða fjölmiðlar standast álagið og hafa burði til að flytja fréttir sem gefa besta heildarmynd af því sem gerist. Eftir að gosið hófst í Geldingadölum við Fagradalsfjall á Reykjanesi að kvöldi föstudags 19. mars fer ekki á milli mála að Morgunblaðið ber höfuð og herðar yfir aðra prentmiðla í landinu. Fréttablaðið stóðst í raun ekki kröfur sem gera má til blaðs sem ber þetta nafn.

Laugardaginn 20. mars var Morgunblaðið með magnaða forsíðumynd af gosinu og auk þess kort sem sýndi Fagradalsfjall og nágrenni. Þetta var vel af sér vikið þegar litið er til þess að fyrstu fréttir af gosinu bárust um 21.45 þótt það hefði hafist um klukkustund fyrr.

Sveigjanleiki ritstjórnar blaðsins þegar stórviðburðir gerast sannaðist þarna enn einu sinni. Fréttablaðið hafði verið sent í prentun á föstudagskvöldið og sagði lesendum sínum ekkert frá gosinu fyrr en í dag, þriðjudaginn 23. mars.

Á ritstjórnum blaðanna voru starfsmenn virkir við miðlun frétta á netinu. Fyrir dagblöð sem vilja standa undir nafni er þó gildi þeirra enn mælt eftir því sem þar birtist á prenti. Þar kemst Fréttablaðið ekki með tærnar þar sem Morgunblaðið hefur hælana.

Á Stöð 2 er Kristján Már Unnarsson fréttamaður með verulega reynslu af meðferð stórviðburða á borð við eldgos eins og sjá mátti á efnistökum hans. Fréttir stöðvarinnar eru almennt sendar út í læstri dagskrá en utan hennar mátti á visir.is fylgjast að minnsta kosti að hluta með fréttum frá Kristjáni Má.

IMG_3161Þessi mynd var tekin 09.38 þriðjudaginn 23. mars og sýnir beina útsendingu á RÚV2 frá gosinu í Geldingadölum.

Ríkisútvarpið setti upp myndavél sem sendir stöðugt myndir frá Geldingadölum og á ruv.is og RÚV2 í sjónvarpinu má sjá lifandi jarðeldinn. Er meiri ró yfir þeirri ævintýralegu mynd en gauraganginum í fréttatímum ríkisútvarpsins þar sem mjög hefur verið býsnast yfir ferðum fólks á gosstað.

Að sjálfsögðu leggur fólk leið sína að þessu náttúruundri og nú er unnið að því að skipuleggja aðkomuleiðir að Geldingadölum sem eru þrír og í sameign Hraunsbænda skammt fyrir austan Grindavík. Í Morgunblaðinu í dag er rætt við einn þeirra, Hörð Sigurðsson, sem segir:

„Mér finnst afar skiljanlegt að fólk vilji fara á staðinn, þótt sumir sem gengu að eldgígnum á sunnudaginn hefðu mátt sýna meiri fyrirhyggju. Utanvegaaksturinn er annars það sem mér svíður mest. Frá Suðurstrandarvegi og inn á heiðar og hraun eru óljósir troðningar og vegslóðar sem myndast hafa á löngum tíma. Núna skeyta menn ekkert um markaðar leiðir, aka utan vega jafnlangt að gosinu og komist verður.“

Frá því var sagt að menn greiddu um 40.000 kr. fyrir sæti í þyrlu til að berja gosið augum þaðan. Hér hefur verið hvatt til þess að leiðsögn verði hafin fyrir göngumenn inn að Geldingadölum gegn gjaldi. Liggur í augum uppi að í því efni verður ekkert gert án samvinnu við landeigendur. Virða ber eignarréttinn hvað sem öðru líður. Því aðeins kemst stjórn á ferðir á þessum slóðum að þær séu eftir manngerðum leiðum og undir leiðsögn.

Í Morgunblaðinu segir í dag: „Vísbendingar eru um að eldgosið í Fagradalsfjalli sé dyngjugos, tegund gosa sem varla hefur sést frá því við lok ísaldar.“