6.1.2021 9:53

Wuhan-veiran fæst ekki rannsökuð

Kínversk yfirvöld skelltu hurðinni í andlitið á sendinefnd frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) sem senda átti á vettvang til að kanna rætur og upphaf COVID-19-faraldursins.

Kínversk yfirvöld skelltu hurðinni í andlitið á sendinefnd frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) sem senda átti á vettvang til að kanna rætur og upphaf COVID-19-faraldursins. Um er að ræða tíu manna hóp alþjóðlegra vísindamanna og voru tveir úr hópnum þegar lagðir af stað til Wuhan í Kína þegar þeim bárust fréttir um að þeir fengju ekki vegabréfsáritun inn í landið.

Dr Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri WHO, sem á stöðu sína stuðningi kínverskra yfirvalda að þakka, sagði þriðjudaginn 5. janúar að kínverskir embættismenn hefðu ekki lokið við að ganga frá „nauðsynlegum leyfum“ fyrir alþjóðlega vísindamannahópinn sem bjó sig undir að ferðast til Kína næstu daga. Lýsti hann „miklum vonbrigðum“ þegar ljóst varð að aflýsa yrði ferðinni á síðustu mínútu.

360_F_321280608_dHZIAZl5egVrdRh5vQns9Lfm0P9coc2IWuhan í Kína

Kínversk yfirvöld hafa staðfastlega leitast við að sveipa uppruna kórónuveirunnar hulu og fylgt þeirri stefnu í frásögnum sínum af útbreiðslu hennar sem þau telja falla best að hagsmunum sínum og ímynd. Þegar ríkisstjórn Ástralíu reið á vaðið í fyrra með kröfu um óháða, alþjóðlega rannsókn á rótum faraldursins settu kínverskir ráðamenn Ástrala út af sakramentinu og hafa síðan beitt þá margvíslegum hefndaraðgerðum á sviði viðskipta og stjórnmála.

Í WHO-hópnum eru vísindamenn frá Ástralíu, Bretlandi, Danmörku og Japan auk fleiri landa. Markmiðið er skilja og skilgreina hvernig veiran komst úr dýrum í menn í Wuhan-borg í Kína.

Á liðnu sumri sendi WHO undirbúningshóp til Kína en hann heimsótti ekki Wuhan. Stofnunin segir að greiningu á uppruna veirunnar megi líkja við gátu sem ekki verði leyst nema á mörgum árum.

Thea Kølsen Fischer, prófessor í veiru- og smitsjúkdómafræðum við Kaupmannahafnarháskóla, er í WHO-hópnum. Hún segir að markmiðið með starfi hans sé ekki að sakfella neinn vegna upphafs faraldursins heldur að leita að úrræðum til að koma í veg fyrir að eitthvað svipað endurtaki sig.

Talsmenn Bandaríkjastjórnar undir forsæti Donalds Trumps halda því ítrekað fram, nú síðast um helgina, að veiruna megi rekja til rannsóknarstofu í Wuhan en ekki til matarmarkaðar í borginni. Kínverska utanríkisráðuneytið brást enn einu sinni hart við mánudaginn 4. janúar og sagði þetta „lygi“.

Hér er mikið í húfi og fráleitt að kínverskir ráðamenn komist upp með að hindra alla alþjóðlega viðleitni til að verjast því að heimurinn standi að nýju á öndinni vegna sambærilegs ófagnaðar frá Kína. Heima fyrir hafa þeir sætt fangelsunum eða annars konar opinberu ofbeldi sem segja annað um veiruna en Kínastjórn líkar. Tilraunir hennar til að halda mönnum utan Kína óupplýstum um Wuhan-veiruna eru aðeins staðfesting á ófyrirleitinni þörf fyrir að hylja hrikalega dýrkeypt mistök, varla var um viljaverk að ræða.