24.11.2023 10:11

Wilders vann stórsigur

Í tæp 20 ár hefur Wilders verið hvern sólarhring undir öryggisvernd vegna morðhótana. Hann hefur látið þung orð falla um múslíma í áranna rás.

Fyrir þingkosningarnar í Hollandi miðvikudaginn 22. nóvember birtist löng og lærð grein í danska Weekendavisen um að hollenskir kjósendur hefðu engan áhuga á kosningabaráttunni. Þeir væntu þess að þrír miðjuflokkar mynduðu samsteypustjórn að þeim loknum. Umræður stjórnmálaforingja í fjölmiðlum væru því bragðlausar. Þessu ættu Danir að velta fyrir sér með vísan til þriggja flokka stjórnarinnar „yfir miðju“ þar í landi. Kannski er þetta einnig eitthvað sem við hér á landi ættum að íhuga eftir sex ára ríkisstjórn „yfir miðju“?

Úrslit hollensku kosninganna vöktu meiri athygli en kosningabaráttan vegna þess að enginn miðjuflokkanna lenti í efsta sæti. Geert Wilders (60 ára) og Frelsisflokkur (PVV) hans vann sögulegan sigur. Wilders hefur árum saman varað við hættunni af ítökum múslíma í hollensku samfélagi. Wilders meira en tvöfaldaði þingmannafjölda sinn frá 2012, úr 17 þingsætum í 37 af 150 á hollenska þinginu og fékk um 23% af 13 milljónum atkvæða. „PVV verður ekki lengur sniðgenginn,“ sagði Wilders. „Við munum stjórna.“

Mark Rutte, fráfarandi forsætisráðherra og formaður Flokks frelsis og lýðræðis (VVD) hefur í 13 ár haldið sig fjarri Wilders og flokki hans. Dilan Yeşilgöz-Zegerius, nýr formaður VVD, viðraði þá skoðun snemma í kosningabaráttunni að ekki ætti að „útiloka kjósendur hans“ heldur skoða stefnumálin. Talið er að vegna þessa hafi Wilders mildað málflutning sinn.

Verkamannaflokkur Hollands er næststærstur með 25 þingmenn en VVD fékk 24 þingmenn.

Geert Wilder fagnar kosningasigri 22. nóvember 2023.

Í tæp 20 ár hefur Wilders verið hvern sólarhring undir öryggisvernd vegna morðhótana. Hann hefur látið þung orð falla um múslíma í áranna rás og viljað láta loka skólum þeirra og moskum fyrir utan að banna Kóraninn. Nú segist hann vilja „frysta“ þessi mál og verða forsætisráðherra „allra Hollendinga“.

Í breska vikuritinu The Spectator er vitnað í Söruh de Lange, stjórnmálafræðiprófessor við Amsterdam-háskóla, sem segir að annars vegar hafi það auðveldað Wilders baráttuna að nýr formaður VVD setti hann ekki í skammarkrókinn og hins vegar að mið-hægriflokkarnir hafi boðað harðari útlendingastefnu en áður og gert útlendingamál að einu helsta kosningamálinu. Prófessorinn segist vera „furðulostin“ vegna úrslitanna.

Útlendingamálin hafa ekki ein skapað Wilders sérstöðu í hollenskum stjórnmálum. Hann er gagnrýninn á aðildina að ESB og hefur tekið upp hanskann fyrir bændur sem sótt er að frá vinstri í nafni loftslags- og umhverfismála.

Þá er vakin athygli að flokkur Wilders hafi mælst með 12% atkvæða þegar Hamas hryðjuverkin voru framin 7. október. Síðan hafi fylgi hans um það bil tvöfaldast. Spurt er hvort rekja megi það til andúðar hollenskra kjósenda á öfgafullum mótmælum í Amsterdam og annars staðar í þágu Palestínumanna. Helsta fréttaefni í Hollandi hafi undanfarið verið um fjölda þeirra sem veifa fána Palestínu í andstöðu við Ísrael og hollensk stjórnvöld fyrir að vilja ekki fordæma hernað Ísraela.