15.2.2019 11:08

WikiLeaks-uppákoma vegna Pompeos

Gaman væri að vita hvað Kristinn kallaði þá menn sem létu orð af þessu tagi fjalla um vinnuveitanda hans Julian Assange og krefðust fyrirvaralausrar handtöku hans.

Við komu erlendra ráðamanna verða oft einkennilegar uppákomur hér á landi. Þetta á sérstaklega við þegar háttsettir Bandaríkjamenn eru á ferð. Í dag (15. febrúar) er Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hér á landi.

Þá gerist það meðal annars að til máls tekur Kristinn Hrafnsson, ritstjóri WikiLeaks og Julians Assanges, sem leitaði hælis í sendiráði Ekvadors í London árið 2012 vegna nauðgunar-ákæru og framsalskröfu frá Svíþjóð. Sænska krafan hefur verið niðurfelld en Assange dvelst enn í sendiráðinu.

Lenin Moreno, forseti Ekvador, ákvað í fyrra að loka á netsamskipti Assange við umheiminn, að símtöl hans mætti trufla og takmarka heimsóknir gesta. Hann lýsti Assange sem „tölvuþrjóti“ sem hann hefði tekið í arf frá forvera sínum.

Fr_20160508_038666-1Kristinn Hrafnsson og Julian Assange.

Kristinn Hrafnsson vill að Mike Pompeo verði handtekinn (!) hér á landi vegna „heifthúðar“ hans í garð Kristins og Assange, hann hafi „úthrópað“ Kristin og samstarfsmenn hans sem „fjandmenn ríkisins“.

Kristinn segir: „Það er óþolandi að Katrín Jakobsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson eigi kurteislegan vinafund með rudda sem hefur í hótunum.“

Gaman væri að vita hvað Kristinn kallaði þá menn sem létu orð af þessu tagi fjalla um vinnuveitanda hans Julian Assange og krefðust fyrirvaralausrar handtöku hans. Af pistli Kristins má ráða að hann telur sérstaklega ámælisvert „að búið er að gefa út pólitíska ákæru gegn Assange með leynd í Bandaríkjunum og ráðuneyti Pompeo fer fremst í flokki við að þrýsta á aðrar ríkisstjórnir að svipta hann og aðra starfsmenn WikiLeaks friðhelgi“.

Þessi kenning um að bandarísk yfirvöld vilji hafa hendur í hári Assange er ástæðan fyrir því að hann neitar að fara úr sendiráði Ekvador í London. Húsráðendur vilja losna við.

Fyrir skömmu samþykkti borgarþingið í Genf í Sviss ályktun þar sem þess er krafist að ríkisstjórn Sviss bjóði Julian Assange hæli í Sviss.

Flutningsmaður tillögunnar var úr hægrisinnaða Lýðflokknum. Andstæðingar flokksins segja hann almennt þekktan fyrir annað en borgaralega óhlýðni. Að þessu sinni færði flutningsmaður þau rök fyrir tillögu sinni að auðvelda ætti uppljóstrurum (e. whistleblowers) störf sín. Svissneska ríkisstjórnin segir Assange ekki baráttumann fyrir mannréttindum og hann sé þess vegna ekki hæfur til að hljóta hæli í Sviss.