15.2.2020 11:09

Westlessness í München

Sumir telji Vestrinu ógnað af „frjálslyndri alþjóðahyggju“ en aðrir segi að það sé einmitt vaxandi andstaða við frjálslyndi og endurkoma þjóðernishyggju sem skapi Vestrinu hættu.

Um þessa helgi er árleg öryggisráðstefna haldin í München í Bæjaralandi. Hana sækja stjórnmálamenn, herforingjar, áhrifamenn í atvinnulífi og fræðimenn auk fjölda fréttamanna. Ráðstefnan dregur ekki síður að sér athygli en árlega efnahagsráðstefnan í Davos.

Í tilefni að ráðstefnunni í München er gefin út ítarleg skýrsla um stöðu alþjóðamála. Að þessu sinni dregur hún meðal annars að sér athygli fyrir fyrirsögn hennar, orðið Westlessness. Telja skýrsluhöfundar að þessa fyrirbæris gæti í vaxandi mæli á alþjóðavettvangi. Hér skal ekki reynt að íslenska orðið en með því er vísað til þeirrar niðurstöðu að víða veki óhug og óróa að vaxandi óvissa ríki um varanleg markmið Vestursins. Tengja megi fjölda viðfangsefna á sviði öryggismála því sem margir telji hnignun þess sem nefnt er „vestræna verkefnið“, það er sókn og framkvæmd sameiginlegrar stefnu Vestursins. Þar að auki virðist vestræn samfélög og ríkisstjórnir hafa glatað sameiginlegum skilningi á því hvað það þýði í raun að vera hluti Vestursins. Líklega blasi mikilvægasta strategíska áskorunin við samstarfsþjóðunum við Atlantshaf en þó sé óljóst hvort Vestrið geti mótað sameiginlega strategíu fyrir nýja lotu í stórveldakeppninni.

Csm_MunichSecurityReport2020_Seite_001_209738744aSumir telji Vestrinu ógnað af „frjálslyndri alþjóðahyggju“ en aðrir segi að það sé einmitt vaxandi andstaða við frjálslyndi og endurkoma þjóðernishyggju sem skapi Vestrinu hættu. Vissulega þyki mönnum til vinstri og hægri í stjórnmálum skynsamlegt að forðast afskipti af fjarlægum deilum en vaxandi tregða Vestursins til að blanda sér í blóðug átök erlendis þýði ekki að átökin hverfi úr sögunni. Þau kunni þvert á móti að verða æ grimmilegri.

Umræður af þessum toga eru hér á landi þótt ramminn sé að jafnaði ekki skilgreindur á sama hátt og gert er í skýrslunni frá München.

Hér tókst eftir brottför varnarliðsins árið 2006 að ná breiðri samstöðu um þjóðaröryggisstefnu sem er reist á aðildinni að varnarsamstarfi þjóðanna beggja vegna Atlantshafs, aðildinni að NATO og tvíhliða varnarsamstarfi við Bandaríkin. Íslenska ríkið á nú meiri beina aðild að hernaðarlegum vörnum landsins en áður og þar gegnir landhelgisgæslan lykilhlutverki í umboði utanríkisráðuneytisins á Keflavíkurflugvelli.

Á árinu 2007 myndaðist víðtæk sátt á stjórnmálavettvangi um aðildina að evrópska efnahagssvæðinu (EES-aðildina). Eftir að utanríkisráðuneytið féll í hlut Samfylkingarinnar árið 2007 raskaðist þessi samstaða vegna áhuga flokksins á ESB-aðild. Misheppnuð tilraun til hennar var gerð á árunum 2009 til 2013. Olli þetta illa ígrundaða frumhlaup miklum pólitískum skaða. Í fyrra var hins vegar leitast við að skapa sátt um EES-aðildina að nýju eftir ástæðulausa uppnámið vegna þriðja orkupakkans.

Í átökunum um orkupakkann mátti greina deilur milli þeirra sem aðhyllast „frjálslynda alþjóðahyggju“ annars vegar og „and-frjálslynda þjóðernishyggju“ hins vegar sé mælistika München-ráðstefnunnar notuð.