29.11.2024 10:29

Vörn fyrir það sem blómstrar

Valdboð til að breyta ferðavenjum og lífsháttum auk meiri skattheimtu er meðal þess sem kjósendur geta valið sér á kjördag. Hinn kosturinn er að kjósa D-lista Sjálfstæðisflokksins.

Verslun og þjónusta blómstrar

Úrsmiður, bryti, verslunareigendur, hárgreiðslumeistarar og ferðaþjónustuaðilar rata á lista Viðskiptablaðsins um samlags- og sameignarfélögin sem högnuðust mest í fyrra.“

Tilvitnunin er í Viðskiptablaðið í dag (29. nóv.), daginn fyrir kjördag, þegar kjósendur eiga þess kost að breyta um kúrs til vinstri, vilji þeir stjórn án Sjálfstæðisflokksins.

Hvað sem líður gagnrýni á ríkisstjórnina sem setið hefur frá 30. nóvember 2017 til 30. nóvember 2024 (upp úr samstarfinu slitnaði 13. október 2024) og fullyrðingum um að hún hafi hallast of mikið til vinstri fór formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, lengst af með stjórn fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Það stangast alfarið á við sjálfstæðisstefnuna að leggja steina í götu lítilla og meðalstórra fyrirtækja og sauma að svigrúmi sjálfstæðra atvinnurekenda með sköttum. Vegna stefnu sjálfstæðismanna hafa verið dregin mörk svo fyrirtæki á borð við þau sem lýst er í frétt Viðskiptablaðsins blómstri.

Screenshot-2024-11-29-at-09.14.40Af vefsíðu Viðskiptablaðsins 29. nóvember 2024.

Í þessu efni hafa verið blikur á lofti í kosningabaráttunni sem nú er að ljúka. Við blasir að Samfylkingin ætlar með aukinni skattheimtu að sækja fé til ríkisins með því að róa inn á þau mið sem nefnd eru í frétt Viðskiptablaðsins. Á máli flokksins heitir þetta að „loka ehf-gatinu“. Þá ætlar flokkurinn einnig að hækka fjármagnstekjuskatt í sama tilgangi.

Þetta er hluti af „plani“ Samfylkingarinnar fyrir landið allt og jafnframt í anda „plansins“ sem fylgt hefur verið undir stjórn flokksins í Reykjavíkurborg undanfarin ár og birtist annars vegar í skorti á lóðum og hins vegar í skorti á bílastæðum. Í borginni hefur jafnt og þétt verið grafið undan fjölbreyttri starfsemi rótgróinna lítilla og meðalstórra fyrirtækja í miðborginni, fyrirtækja sem þjóna jafnt innlendum og erlendum viðskiptavinum.

Nú er svo komið á Laugavegi inn að Kringlumýrarbraut að verslanir þar eru einkum ætlaðar fyrir þá sem ekki eru á eigin ökutæki því að hvergi er unnt með góðu móti að finna bílastæði. Hlýtur að vera spurning hvenær Epli flytur verslun sína og verkstæði frá Laugavegi 182 vegna skorts á bílastæðum fyrir viðskiptavini sem hafa áhuga á vörum frá Apple.

„Borgin er með þá stefnu að heimila uppbyggingu á reitum en þá gegn því að fækka bílastæðum, oftast eru færri en eitt bílastæði á íbúð, en það á að styðja við uppbyggingu borgarlínu. Að okkar mati er þetta afskaplega einkennileg stefna sem við sjáum ekki að gagnist einum né neinum og almenn óánægja sé með,“ sagði Þorvaldur Gissurarson, forstjóri og eigandi ÞG Verks, við Morgunblaðið 28. nóvember.

Í sama blaði segir frá því að ekkert sé að marka tímasetningar Samfylkingar og Viðreisnar vegna borgarlínu þótt nú sé skipulagsvaldinu skipulega beitt gegn bílastæðum í von um að fjölga megi viðskiptavinum borgarlínunnar.

Valdboð til að breyta ferðavenjum og lífsháttum auk meiri skattheimtu er meðal þess sem kjósendur geta valið sér á kjördag. Hinn kosturinn er að kjósa D-lista Sjálfstæðisflokksins.