8.6.2024 12:11

Vopnuð frelsis- og friðargæsla

Sjálfsvörn Úkraínu gegn útþensluher Pútins er jafnframt vörn fyrir frelsi allra þjóða Evrópu.

Gengið er til kosninga til ESB-þingsins nú um helgina í 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins. Á þinginu sitja 720 þingmenn. Þegar rýnt er í tölur um fjölda þeirra sem hafa kosningarétt vekur athygli að ekki er nein ein tala nefnd og má sjá að fjöldinn er allt frá 320 milljónum í 373 milljónir. Í grein um kosningarnar sem ég skrifaði í Morgunblaðið í dag (8. júní) nefni ég að um 360 milljónir hafi rétt til þátttöku í kosningunum. Í annarri grein er talan nefnd 370 milljónir.

Hvað þessum tölum líður yrði fjöldi Íslendinga á kjörskrá innan við 0,1% af heildarfjöldanum væri þjóðin aðili að ESB.

Eftir að hafa fylgst lengi með framvindu mála í samskiptum Íslands og ESB og þróuninni innan ESB hefur sú sannfæring mín styrkst að Íslendingar séu betur settir utan ESB með EES-samninginn en innan sambandsins og gæsla íslenskra hagsmuna sé mun markvissari á grundvelli EES en ef við værum innan ESB.

Fyrir þessu má færa mörg rök en þau verða ekki tíunduð hér. Þau sýna hve mikil skammsýni felst í því að tala niður EES-samninginn og láta eins og friður yrði um mun óhagkvæmari tvíhliða samning við ESB auk þess sem slíkur samningur er alls ekki í boði og því síður á hendi.

Í forsetakosningunum gældu frambjóðendur bæði við framtíð okkar innan EES og skyldur okkar á vettvangi NATO. Sá sem vildi ekki að Íslendingar nytu þess réttar sem felst í jafnræði á sameiginlega EES-markaðnum komst aldrei í toppsæti frambjóðenda. Halla Tómasdóttir náði kjöri sem forseti þótt hún kysi að standa á gráu svæði varðandi þátttöku Íslands í samstarfi NATO-ríkjanna um aðstoð við Úkraínu.

Reisti hún afstöðu sína á röngum hugmyndum um stöðu Íslands innan NATO og þátttöku í verkefnum á vegum bandalagsins, fyrir utan rangar fullyrðingar um að nú fyrst fyrir nokkrum vikum hefðu íslensk stjórnvöld lagt því lið að Úkraínumenn hefðu vopn til að verjast innrásarher Rússa.

Strax við upphaf stríðsins stuðlaði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra að því að íslenskum flugvélum var flogið með herbúnað til Úkraínu og síðar beitti hún sér fyrir fjárveitingum í varnarsjóð til stuðnings Úkraínu sem Bretar stofnuðu til vopnakaupa.

180572AÍslenskir friðargæsluliðar í Kabúl.mbl.is/Nína Björk

Í lögum frá 2007 um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu, meðal annars á vegum NATO, eru í 3. gr. ákvæði um að íslenskum friðargæsluliðum sé heimilt að bera vopn við störf sín sér til sjálfsvarnar krefjist aðstæður þess, enda hafi þeir fengið viðeigandi þjálfun til vopnaburðarins.

Þegar lögin voru til meðferðar sagði minnihluti utanríkismálanefndar, Samfylking og VG, að það væri hvorki eftirsóknarvert né siðferðislega rétt að munstra íslenska friðargæsluliða til verkefna sem krefðust vopnaburðar og vildu þessir þingmenn því forðast verkefni á vegum NATO. Við afgreiðslu frumvarpsins var þessu sjónarmiði hafnað.

Sjálfsvörn Úkraínu gegn útþensluher Pútins er jafnframt vörn fyrir frelsi allra þjóða Evrópu. Að halda því fram að íslensk stjórnvöld hafi ekki heimild til leggja þeirri baráttu lið og það samrýmist ekki aðild Íslands að NATO er ekki aðeins rangt heldur einnig til skammar.