27.6.2024 10:15

Vísindaleg vottun Carbfix

Þá kemur fram að ritaðar hafi verið meira en 100 ritrýndar vísindagreinar um Carbfix-aðferðina og vísindafólk Carbfix hafi átt í samstarfi við yfir 30 háskóla víðs vegar um heiminn.

Gervigreindin krefst mikillar orku. Í þætti á BBC var sagt að nú rynnu 8-10% af framleiddri raforku í heiminum til þess að knýja gagnaverin sem standa að baki tölvunum sem eru uppspretta gervigreindarinnar. Þetta er ótrúlegt orkumagn.

Ísland er ákjósanlegur staður fyrir gagnaver. Hér eru þau knúin grænni orku og loftslagið tryggir ódýrari kælingu í gagnaverum hér en í heitari löndum.

Í fyrrgreindum þætti BBC sagði að vegna mikillar orkuþarfar í þágu gervigreindar væri tekið til við að nýta jarðefnaeldsneyti í meira mæli en áður og leitað væri úrræða til að stemma stigu við því. Hugmyndir væru meira að segja uppi um að reisa kjarnorkuver samsíða gagnaverum.

Gervigreindin er nú nýtt í vaxandi mæli í leitinni að bestu leiðum til að vinna gegn hlýnun jarðar og loftslagsbreytingum.

Þegar kemur að nýtingu grænnar orku hér eða nýjum leiðum til að binda kolefni rísa fljótt upp úrtölumenn og aðgerðarsinnar til að hindra framgang slíkra hugmynda.

Hér var á dögunum rætt um Running Tide sem lagt hefur upp laupana á Akranesi vegna þess að fyrirtækinu tókst ekki að framleiða seljanlegar kolefniseiningar. Það er dæmigert að umræðurnar vegna fyrirtækisins snúist mest um innflutning á trjákurli og hvað eigi að gera við það!

Screenshot-2024-06-27-at-10.14.53

Þá var einnig minnst á Carbfix sem ætlar sér stóra hluti við kolefnisbindingu og velt upp spurningu um hvernig staðið væri að rannsóknum og eftirliti (e. Monitoring, Reporting and Verification (MRV) á tækni Carbfix. Svarið fékkst í bréfi frá Carbfix þar sem segir að vottaðar og sannreyndar aðferðir Carbfix séu „í forystu varanlegrar geymslu CO2“. Um það má lesa hér í grein sem skrifuð var í tilefni af nýlegri umræðu um nauðsyn vottunar. 

Þá kemur fram að ritaðar hafi verið meira en 100 ritrýndar vísindagreinar um Carbfix-aðferðina og vísindafólk Carbfix hafi átt í samstarfi við yfir 30 háskóla víðs vegar um heiminn. Árangur kolefnisbindingar Carbfix í jörðu hafi verið mældur og vottaður af óháðum aðilum (DNV) samkvæmt alþjóðlegri aðferðafræði og stöðlum (ISO og Puro.earth), auk þess sem löggjöf um niðurdælingu koldíoxíðs (sem Ísland hefur tekið upp frá ESB) geri kröfur um ítarlegar mælingar.

Hér var minnst á íslenska ICR-fyrirtækið sem hefur þróað vottunarkerfi, kröfusett og kolefnisskrá fyrir vottaðar kolefniseiningar. Á þess vegum hefur verið unnið að vottaðri aðferðafræði með Carbfix. 

Í grein í National Geographic sagði blaðamaður að Carbfix-aðferðin sé „gold-standard“ til geymslu á CO2 því hún sé varanleg.

Að setja samasemmerki milli Running Tide og Carbfix þegar litið er til vottunar og vísindarannsókna stafar af vanþekkingu. Gífurlega mikið er í húfi, hvort sem rætt er um gagnaver eða kolefnisbindingu, að ekki sé ýtt undir fordóma vegna þekkingarskorts. Raunar á þetta við um öll mál. Í þessum tveimur málaflokkum er hins vegar svo mikið í húfi fyrir þróun og framtíð þjóðfélagsins að nauðsynlegt er að skapa víðtæka sátt um hvert varfærið en markvisst skref.