1.4.2017 9:41

Virðisaukaskattur á ferðamenn

Fyrir ferðamanninn skiptir mestu að lokum að hann fái þá þjónustu sem hann vænti fyrir það fé sem hann greiðir. Ákvörðunin er í hans höndum og hann vill geta treyst því að hátt verð skili góðri þjónustu. Kröfurnar til ferðaþjónustufyrirtækja aukast.

Umræður hafa sprottið um hækkun á virðisaukaskatti með því að fella niður neðra þrep hans og lækkun á efra þrepinu. Ætlunin er að hækka virðisaukaskatt úr 11% í 22,5% á ferðaþjónustu í júlí árið 2018 og lækka efra þrepið úr 24% í 22,5% 1. janúar 2019.

Í skýrslu fjármálaráðuneytisins er áætlað að verð á gistingu, farþegaflutningum, ferðaskrifstofum og baðstöðum hækki um 10,4%. Þjónustan sem þar um ræðir er 39% af heildarneyslu erlendra ferðamanna á Íslandi 2015. Ráðuneytið áætlar því að breyting á virðisaukaskattinum hækki heildarkostnað dæmigerðs ferðamanns í kringum 4%, að öllu öðru óbreyttu.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra sagði að vegna breytinga á virðisaukaskattinum væri unnt að fella niður allt tal um komugjöld eða náttúrupassa. Viðhorf til slíkrar gjaldheimtu hafa leitt til ágreinings meðal þeirra sem reka ferðaþjónustufyrirtæki sem nú sameinast og andmæla hækkun virðisaukaskattsins. 

Eftir skattabreytinguna situr ferðaþjónustan við sama borð og aðrir sem stunda viðskipti og atvinnurekstur í landinu. Þeir sem hafa eitthvað sérstakt að bjóða geta látið greiða fyrir það eins og gert er á Þingvöllum með gjaldtöku á bifreiðastæðum og fyrir umdeilda köfun í Silfru. Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður má ekki til þess hugsa að fé sé safnað í einhvern sérstakan sjóð til útdeilingar til ferðamannastaða. Reynslan af slíkum sjóðum hræðir.

Samtök þeirra sem veita ferðaþjónustu kveinka sér undan fyrirhuguðum breytingum á virðisaukaskattinum þar sem þau starfi á alþjóðlegum markaði og skattheimta sé á ólíkan veg í ólíkum löndum. Því má velta fyrir sér hve margir ferðamenn velta því almennt fyrir sér hvernig skattheimtu er háttað í löndunum sem þeir heimsækja. Nú á tímum netvæðingarinnar skoða þeir ekki aðeins það sem í boði er og velja það sem fellur að áhugamálum þeirra og er innan þeirra fjárhagslegu marka sem þeir setja sér? 

Breska blaðið The Daily Telegraph birti nýlega niðurstöðu atkvæðagreiðslu meðal rúmlega 75.000 lesenda sinna um þau Evrópulönd sem þeir hefðu mesta ánægju af að heimsækja (sjá hér). Ísland lenti þar í öðru sæti á eftir Ítalíu, yfirburðalandinu um langt árabil. Ísland er í huga lesenda blaðsins meira heillandi sem ferðamannaland en Grikkland, Spánn, Portúgal og Frakkland svo að nokkur alkunn ferðamannalönd séu nefnd.

Á heimavelli getum við rifist um skatta og krónuna og málað skrattann á vegginn í von um að bæta eigin hag með því að sveigja umræður okkur í vil og hræða stjórnmálamenn frá að taka ákvarðanir sem eru reistar á skynsamlegum, almennum rökum. Að slíkar deilur hafi áhrif á hvort ferðamenn hafa áhuga á að koma til Íslands eða ekki er af og frá. Þeir sem stunda ferðaþjónustu verða einfaldlega að laga sig að aðstæðum hverju sinni. 

Fyrir ferðamanninn skiptir mestu að lokum að hann fái þá þjónustu sem hann vænti fyrir það fé sem hann greiðir. Ákvörðunin er í hans höndum og hann vill geta treyst því að hátt verð skili góðri þjónustu. Kröfurnar til ferðaþjónustufyrirtækja aukast.

Í fyrradag fór ég um Keflavíkurflugvöll á leið til Parísar. Ég settist á Segafredo sem kynnir sig á þennan veg á netinu: Alþjóðlegt kaffihús fyrir kaffiþyrsta og kröfuharða. Við fengum okkur te og kaffi og var þessu hellt í pappamál þótt við sætum á staðnum. Við sættum okkur ekki við þetta og vildum skipta yfir í svarta bolla. Afgreiðslustúlkan sagði að allir bollar væru óhreinir. Þegar á reyndi voru þó hreinir bollar hinum megin við skenkinn. Atvik af þessu tagi sitja frekar eftir í huga ferðamannsins en hvað hann borgar háan virðisaukaskatt.