Virðingarleysi í nafni breytinga
Hlægilegt er að heyra talsmenn meirihlutans láta eins og þeim sé óhjákvæmilegt að verða við óskum fjármálamanna í þessu tilliti.
Breytingarnar í samfélaginu eru örari en við greinum dag frá degi. Þjóðfélagsmyndin breytist mest vegna þess mikla fjölda útlendinga sem streyma til landsins til starfa og sem ferðamenn.
Miðborg Reykjavíkur er allt önnur en hún var fyrir fáeinum árum. Deilan um aðför Reykjavíkurbogar að Víkurkirkjugarði er til marks um virðingarleysið sem sögunni er sýnt í umbreytingunni. Hlægilegt er að heyra talsmenn meirihlutans láta eins og þeim sé óhjákvæmilegt að verða við óskum fjármálamanna í þessu tilliti. Borgaryfirvöld eiga síðasta orðið í þessu sambandi en ekki verktakarnir.
Aðförin að Víkurkirkjugarði er í boði borgaryfirvalda.
Svipur Morgunblaðsins hefur breyst eftir að útgefendur þess tóku að reka útvarpsstöð. Nú hefði mátt ætla miðað við gagnrýni ritstjórnar blaðsins á ríkisútvarpið að stofnað yrði til þessa rekstrar til að keppa við ríkisreknu stofnunina, að minnsta kosti með því að kynna mál frá öðru sjónarhorni en gert er á kostnað skattgreiðenda. Sé tekið mið af þáttastjórnendum sem kynntir eru í hverri heilsíðuauglýsingunni eftir aðra er ekkert slíkt á döfinni. Helsta viðræðuþætti stöðvarinnar sem heitir því undarlega nafni Þingvellir er stjórnað af fyrrverandi ríkisútvarpsstjóra og formanni Bjartrar framtíðar sem þoldi ekki hitann í stjórnmálunum og kom aftan að Sjálfstæðisflokknum sem ráðherra.
Af gömlu flokkunum lifa Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn enn. Báðir hafa klofnað, framsókn vegna ófara Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Sjálfstæðisflokkurinnn vegna öflugrar andstöðu innan hans gegn aðild að ESB.
Nú er enn hótað klofningi innan Sjálfstæðisflokksins, að þessu sinni vegna 3. orkupakka ESB sem Gunnar Bragi Sveinsson, þáv. framsóknarmaður, núv. miðflokksmaður, ákvað að skyldi tekinn upp í EES-samninginn. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins og núverandi ríkisstjórn öll situr uppi með þessar ákvarðanir Gunnars Braga. Hann kannast ekki lengur við þær þótt raunveruleikinn segi allt annað.
Að athuguðu máli hljóta allir að sjá að 3. orkupakkinn ógnar ekki fullveldi, orkuöryggi eða orkumarkaði Íslendinga á nokkurn hátt. Fyrir andstæðingunum hlýtur að vaka að taka EES-samninginn í gíslingu. Nú birtast nýjar hótanir um að Sjálfstæðisflokkurinn verði einnig tekinn í gíslingu. Kann enn að sannast að lítil þúfa velti þungu hlassi. Hefði mátt ætla að fyrra bragði að menn kysu verðugra málefni en þetta til hóta upplausn Sjálfstæðisflokksins.