2.9.2021 8:12

Vínviður á heimsminjaskrá

Frá Lutry er unnt að fara í ferð með smálest um Lavaux-vínekrurnar sem voru skráðar á heimsminjaskrá UNESCO árið 2007.

Lutry er smábær í svissnesku kantónuninni Vaud á Lausanne-svæðinu við norðurenda Genfarvatns. Bærinn á sér meira en 1.000 ára sögu. Þar var stunduð vínrækt en þegar hún lamaðist illa um miðja 20. öldina vegna sýkingar í vínviðnum sneru margir íbúanna og þeir sem fluttu til bæjarins sér að smá- og meðalstórum iðnaði og í kringum aldamótin 2000 er talið að um 400 fyrirtæki hafi verið starfrækt í bænum. Þangað fluttist einnig efnað fólk fra Lausanne.

Lutry-IMG_4011Séð yfir bæinn Lutry í Sviss,

LIMG_3971Lestinn sem flytur gesti um vínekrurnar í Lavaux.

Frá Lutry er unnt að fara í ferð með smálest um Lavaux-vínekrurnar sem voru skráðar á heimsminjaskrá UNESCO árið 2007. Vínekrurnar ná yfir 830 hektara 30 km langt svæði sem er í bröttum hlíðum sem snúa í suður við norðurströnd Genfarvatns.

IstMG_3977Vínviðurinn er á stöllum í brattri hlíðinni.

Í bröttum hlíðum við vatnið voru strax á 11. öld hlaðnir stallar fyrir vínviðinn. Þá fóru Benediktínar og Sistersían-munkar með stjórn á svæðinu. Sólríkir stallarnir og endurspeglun sólar frá vatninu gefa svæðinu einstakan svip og frá 2007 hefur það verið á heimsminjaskrá UNESCO.

IMG_3999_1630570109995Séð yfir hluta Lavaux-svæðisins sem er á heimsminjaskrá UNESCO.

Oftar en einu sinni hefur friðun þessa svæðis verið borin undir atkvæði íbúa í Vaud-kantónunni. Árið 1977 samþykkti meirihluti þeirra (55%) að svæðið skyldi friðað og voru lög þess efnis samþykkt árið 1979. Ný stjórnlög tóku gildi fyrir Vaud-kantónu árið 2003 en þar var ekkert ákvæði til verndar Lavaux. Var að nýju gengið til almennrar atkvæðagreiðslu undir slagorðinu Björgum Lavaux árið 2005 og þá samþykktu 81% kjósenda friðun svæðisins.

HrIMG_3998Fyrir ofan vínviðinn má sjá hraðbrautina.,

Kunnur svissneskur verndarsinni, Franz Weber, lét ekki staðar numið við þetta og hvatti árið 2009 til þriðju almennu atkvæðagreiðslunnar í því skyni að minnka svigrúm til nýbygginga á Lavaux-svæðinu. Þessum hertu reglum var hafnað í atkvæðagreiðslu 2014 með 68% atkvæða. Gagntillaga héraðsstjórnarinnar í Vaud var samþykkt með 68% atkvæða, hún gekk skemur en tillaga Webers en setti nýframkvæmdum þó skorður.

Friðunarsaga Lavaux sýnir hvernig Svisslendingar leysa mál, stór og smá, með almennum atkvæðagreiðslum. Lausnir þeirra eru almennt frekar íhaldssamar og þjóðernissinnaðar enda farnast þjóðinni vel.