20.10.2024 10:43

Vinstrið að hverfa

Raunar hafa undanfarin sjö ár leitt til þess að enginn flokkur telur samstarf við VG koma til álita. Flokkurinn og stefnumál hans hafa gengið sér til húðar. 

Tvær bækur sem koma út núna á haustmánuðum sýna innbyrðis átök milli gamalla fylkinga í Alþýðubandalaginu vegna Icesave-samninganna.

Þar er annars vegar bók Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands um beitingu hans á forsetavaldinu þegar hann snerist gegn vinstristjórninni sem hann myndaði og hélt á floti þrátt fyrir Icesave-afhroð hennar og hins vegar bók Svavars Gestssonar, aðalsamningamanns Íslands um Icesave, Það sem sannara reynist.

Eftir Icesave-stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna (VG) 2009 til 2013 fór Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum undir forsæti formanns hans, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar (SDG). Forsætisráðherrann hrökklaðist frá vorið 2016 og eftir stutta stjórnarsetu með Viðreisn og Bjartri framtíð árið 2017 settist Sjálfstæðisflokkurinn í þriggja flokka stjórn með Vinstri grænum (VG) og Framsóknarflokknum haustið 2017.

Upp úr því stjórnarsamstarfi slitnaði nú á dögunum. Þá hafði forsætisráðherra stjórnarinnar fram í apríl 2024, Katrín Jakobsdóttir (VG), sagt af sér og ekki náð markmiði sínu í forsetakosningum 1. júní 2024. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tók við forsæti ríkisstjórnarinnar af Katrínu.

LandsfundurVG24-1500x1002Frá landsfundi VG 4-5. október 2024 (mynd: vg.is).

Eftir að Svandís Svavarsdóttir var kjörin formaður VG 5. október 2024 með 169 atkv. af 175 sem kusu í formannskjörinu á landsfundi flokksins, talaði hún eins og líf ríkisstjórnarinnar væri í höndum VG þótt kannanir sýndu að flokkurinn fengi ekki mann kjörinn á þing; hún ætti að ákveða hvaða dag yrði kosið vorið 2025.

Bjarni Benediktsson sá sunnudaginn 13. október að við svo búið væri stjórnarsamstarfinu í raun lokið. Hann lagði til við forseta Íslands að þing yrði rofið. Forseti samþykkti það og fól Bjarna að leiða starfsstjórn þar til ný ríkisstjórn yrði mynduð. Svandís og félagar vildu ekki sitja í starfsstjórninni. Fimmtudaginn 17. október voru öll formsatriði að baki og formlega var boðað til alþingiskosninga 30. nóvember 2024.

Nú í dag, sunnudaginn 20. október, taka sjálfstæðismenn í SV-kjördæmi (Kraganum), Suðurkjördæmi, NV-kjördæmi og NA-kjördæmi ákvarðanir um hverjir skipi efstu sæti á listum flokksins í þessum kjördæmum.

Framkvæmdin er fumlaus eins og allt sem gerst hefur undir forystu Bjarna Benediktssonar síðan hann ákvað að stefna í kosningar í nóvember.

Enginn vafi er á að margir sjálfstæðismenn fagna því að ekki er lengur neitt tilefni til að líta til vinstri í komandi kosningabaráttu eða gera því skóna að samstarf við VG komi til greina. Raunar hafa undanfarin sjö ár leitt til þess að enginn flokkur telur samstarf við VG koma til álita. Flokkurinn og stefnumál hans hafa gengið sér til húðar og innan leifa gamla Alþýðubandalagsins rífast menn um hver hafi svikið hvern vegna Icesave.

Þegar Ólafur Ragnar fól Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni að mynda minnihlutastjórn 1. febrúar 2009 með stuðningi SDG var markmiðið öðrum þræði að ýta Sjálfstæðisflokknum varanlega til hliðar. Nú í október 2024 eru líkur á að VG hverfi af þingi og enginn sakni flokksins.